139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

úrvinnslugjald.

185. mál
[14:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. formanns umhverfisnefndar að uppbygging sjóðsins og gjaldtökunnar leiðir til þess að við núverandi aðstæður virðist óumdeilanlega þörf á hækkunum á tilteknum gjaldaflokkum. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. formanns og umsagnaraðila sem hann vitnaði til að þarna er um að ræða óheppilegar hækkanir í ljósi þess að nú eru samdráttartímar. Um að ræða, samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins og sjóðsins, 316 milljónir sem bætast við gjaldtökuna á ári, hækkun á einstökum gjaldaflokkum verður veruleg í prósentum talið þó að rétt sé, eins og fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að ekki sé endilega um háar krónutölur að ræða. Hækkunin í einstökum tilvikum nam hæst, ef ég man rétt, 167% og í öðru tilviki 140%. Það leiðir auðvitað til þeirrar ályktunar, sem í sjálfu sér kom einnig fram hjá hv. formanni nefndarinnar, að taka þurfi uppbygginguna og skipulagið og fyrirkomulagið í þessum efnum til endurskoðunar, því að stökk af þessu tagi eru auðvitað óheppileg jafnvel þó að um sé að ræða tiltölulega lágar krónutölur á hverja einingu sem liggur til grundvallar gjaldtökunni.

Ég tel að það hefði út af fyrir sig verið heppilegra ef stjórn sjóðsins hefði getað lagt fram tillögur um einhverja aðlögun í þessu efni frekar en stökk af þessu tagi. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði, að stjórn sjóðsins og stjórnendum er auðvitað vandi á höndum miðað við þær aðstæður sem þeir standa frammi fyrir í ljósi efnahagshrunsins og mikils hruns í innflutningi og sölu á tilteknum vöruflokkum sem hér um ræðir. Ég nefni hjólbarða sem dæmi, það hefur orðið gríðarlegur samdráttur bæði í innflutningi nýrra bíla og hjólbarða þannig að þar hefur orðið verulegur halli og í fleiri flokkum sem þar um ræðir. Enda þótt ekki sé um háar upphæðir að ræða hefði ég talið réttara að leita einhverra leiða til að jafna þetta út frekar en að taka það í einu höggi, sérstaklega í ljósi þess að samdráttur er víða í þjóðfélaginu og gjaldtaka eykst bæði í formi skatta og alls konar gjalda annarra.

Þetta vildi ég sagt hafa um málið, hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að við þessi áramót höfum við ekki tækifæri til að fara út í þá kerfisbreytingu sem hugsanlega er þörf á í þessu sambandi. Að því borði þarf að kalla fjölmarga aðila sem í rauninni eru bakland sjóðsins, bæði viðkomandi hagsmunasamtök og eins þær stofnanir sem að þessum málum koma. Ef við förum yfir reynsluna síðustu árin sjáum við að þarna eru einhverjir veikleikar sem þarf að laga og ég vonast til að það verði gert þó að okkur hafi ekki auðnast að gera það í haust.