139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir er auðvitað afleiðing af frumvarpinu um breytingar á Stjórnarráðinu sem samþykkt var í september, frumvarpinu sem fól í sér sameiningu þeirra ráðuneyta sem um ræðir, þ.e. félags- og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti og dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti. Um er að ræða mikinn bálk þar sem tíndar eru til lagagreinar þar sem vísað er til heita ráðuneyta og ráðherra. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að gera athugasemdir við þær breytingar, þær eru eðlilegar í ljósi þeirrar stefnu sem mörkuð var með lagabreytingunum í september og nauðsynlegar í ljósi þess. Og í ljósi þeirrar staðreyndar studdi ég þetta mál þó að ég hafi oft talað og greitt atkvæði gegn frumvarpinu sem afgreitt var í september. Þar var hin pólitíska stefna um þetta atriði mörkuð en hér fylgja, má segja, lagatæknilegar breytingar sem nauðsynlegar eru sem afleiðing af hinu. Algengast er reyndar að þessi tvö atriði fylgist að í lagasetningarferlinu en þessi háttur var hafður á og menn geta velt fyrir sér lengi hvers vegna, en varðandi þetta frumvarp er auðvitað ekki ástæða til annars en styðja það.

Ég ætla hins vegar að vekja athygli hv. þingmanna á því — ég get ekki látið hjá líða að nefna það — að hér er um að ræða fjórða frumvarpið um breytingar á Stjórnarráðinu frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda fyrir 22 mánuðum. Fyrir liggur skýrsla í forsætisráðuneytinu sem boðar fimmtu breytinguna, sem kemur væntanlega inn í þing eftir áramót, og miðað við orð hæstv. forsætisráðherra er sennilega von á sjöttu breytingunni með vorinu þegar stigið verður skref, eftir því sem mér skilst, til þess að færa auðlindamálin undir umhverfisráðuneytið og sameina atvinnuvegaráðuneytin. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt að rætast sem ég og fleiri sjálfstæðismenn sögðum þegar ríkisstjórnin hóf þessa vinnu, að hér væri um að ræða bútasaum sem engin leið væri að sjá fyrir endann á, ekki lægi nein skýr heildarmynd fyrir, það væri verið að taka þetta í einhverjum bútum og afgreiða afmarkaða þætti oft í snarhasti án þess að heildarstefna lægi fyrir.

Mér sýnist að þessi fjöldi frumvarpa um breytingar á Stjórnarráðinu sé þess eðlis og ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn hafi í raun ekki þarfari verkefni en það að liggja stöðugt í þeim skipuritsbreytingum sem koma inn í þingið hvað eftir annað, sérstaklega í þessu tilviki Stjórnarráðsins sem ég nefni, ef það á að verða þannig að á tveimur árum fái þingið til meðferðar sex mismunandi frumvörp um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það er auðvitað ekki nokkur hemja. Að mínu mati hefði verið skynsamlegra af hæstv. ríkisstjórn að anda aðeins með nefinu og hugsa breytingarnar heildstætt, leggja þær síðan fyrir þingið þannig að þingið gæti tekið afstöðu til einhvers pakka í þessum efnum, einhverrar heildarsýnar, og skoðað einstakar breytingar í ljósi annarra atriða sem verið er að breyta.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, hæstv. forseti. Mér þótti rétt að vekja athygli á því að hér er um að ræða fjórða málið og í raun og veru liggur fyrir að á næstu tveimur til þremur mánuðum munum við sjá tvö ný frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands.