139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég vil spyrja hv. þingmann, ef hv. þingmaður mundi nú fylgjast með því, að tvennu. Hv. þingmaður nefndi að ákveðinn forsendubrestur hefði orðið varðandi hugmyndafræðina á bak við Sjúkratryggingar. Ég vildi gjarnan, virðulegi forseti, að hv. þingmaður mundi útskýra hver þessi forsendubrestur er.

Á sama hátt vil ég spyrja hv. þingmann af hverju hér er sagt að Sjúkratryggingar séu ekki tilbúnar í þetta þegar skýrt hefur komið fram að eina sem þarf til að Sjúkratryggingar geti tekið að sér þetta lögbundna hlutverk er vilji, það er ekkert annað. Útlistað hefur verið nákvæmlega fyrir hv. heilbrigðisnefnd að þetta snýst ekki um kostnað, þetta snýst um að ljúka verkefninu og það gerist með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi að klára fjárhagslega uppskiptingu milli TR og SÍ í samráði við niðurstöður ráðgjafa sem unnu að aðskilnaðinum fyrir forsætisráðuneytið 6. maí 2008.

Í öðru lagi að flytja 5–6 starfsmenn frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til Sjúkratrygginga Íslands.

Í þriðja lagi að flytja starfsmenn frá heilsugæslunni og Landspítalanum til Sjúkratrygginga.

Þetta er ekki kostnaður, þetta er vilji. Ég vil spyrja hv. þingmann: Í hverju liggur forsendubresturinn og af hverju tekur meiri hlutinn ekki fram þessar staðreyndir?