139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mjög merkar upplýsingar í þessu máli hafa nú loksins komið fram frá hv. þingmanni og formanni hv. heilbrigðisnefndar, upplýsingar sem hafa ekki komið fram áður. Það er að vísu ekki þess vegna heldur út af stærð málsins sem við fórum fram á að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði við umræðuna. Ég vil fá að vita hvernig það mál stendur.

(Forseti (UBK): Hæstv. ráðherra hefur verið gert viðvart um þessa ósk og eftir því sem mér skilst er hæstv. ráðherra kominn í hús og á leið í þingsal.)

Virðulegi forseti. Ég fagna því.

Eftir að við fjölluðum um þetta mál í hv. heilbrigðisnefnd var áðan upplýst, sem allir vita, að enginn forsendubrestur liggur að baki. Vinstri grænir hafa hins vegar komið því þannig fyrir að það á að hætta við þá hugmyndafræði sem lá til grundvallar lögunum sem hér voru samþykkt, um Sjúkratryggingar Íslands, og menn eru væntanlega komnir á þann stað sem þeir voru á áður, en engin svör komu fram hjá hv. þingmanni um hvað ætti að koma í staðinn.

Í grófum dráttum gengur þetta út á að allar þjóðir eru með það verkefni að eiga aldrei nóg af fjármunum til heilbrigðismála. Sá heilbrigðisráðherra er ekki til í mannkynssögunni sem hefur sagt: Ég er með næga fjármuni, ég þarf ekki á meiru að halda. Menn geta nýtt hverja einustu krónu og það er alveg sama hversu stöndugar þjóðir eru, það verður alltaf að fara vel með fé. Það eru endalaus verkefni sem við viljum sinna. Það er breið pólitísk sátt um að sinna verkefnum á sviði heilbrigðismála.

Þá er það næsta spurning: Hvernig er það gert? Við viljum gera sem mest fyrir þá fjármuni sem við höfum. Menn eru búnir að þróa þá leið í mörg ár að kostnaðargreina þjónustuna þannig að menn geti fengi eins mikla þjónustu og mögulegt er fyrir þá fjármuni sem ríkisvaldið setur hverju sinni í heilbrigðismálin. Það er ríkisvaldið sem borgar fyrir þessa þjónustu, og það er breið sátt um það, þó að kostnaðarþátttaka sé líka til staðar hjá þeim sem þurfa á þjónustunni að halda.

Það er ekkert leyndarmál að vinnan — hér sagði hv. þm. Þuríður Backman að það væri nauðsynlegt að vinna þetta vel — það er búið að vinna þetta vel. Þetta var unnið mjög vel á sínum tíma. Sú stjórn sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sparkaði út í hafsauga eftir að viðkomandi hæstv. ráðherra tókst ekki að losa sig við forstjórann, kynnti sér vel ásamt mörgum öðrum hvað var að gerast í öðrum löndum. Sérstaklega var litið til Svíþjóðar, þar lærðu menn bæði af því sem vel var gert en ekki síður þeim mistökum sem menn höfðu gert áður.

Svo sannarlega eru þetta ekki einfaldir hlutir.

Ísland er með þá sérstöðu að aðeins ein stofnun, sem er að vísu 1/3 af heilbrigðisþjónustunni, hefur farið í kostnaðargreiningu á starfsemi sinni, Landspítalinn. Landspítalinn notar þetta líka í sínum eigin rekstri. En vanalega fara heilbrigðisyfirvöld á hverjum tíma fram á það við stofnanirnar að starfsemin sé kostnaðargreind og þau semja við hinar ýmsu stofnanir á grundvelli kostnaðarmats. Á Íslandi hefur Landspítalinn hins vegar verið með forgang á þetta og ýtt á að samið sé við hann á þeim forsendum. Ég tel að það hljóti að vera einsdæmi.

Mikil umræða hefur verið um heilbrigðismálin síðustu dagana, m.a. í hv. heilbrigðisnefnd og hv. fjárlaganefnd. Þegar menn fara yfir breytingar á fjárlögum til heilbrigðismála er eitt algjörlega öruggt, enginn veit hvað viðkomandi þjónusta kostar. Það hefur verið unnið að því að koma í veg fyrir þessa kostnaðargreiningu í tíð ráðherra Vinstri grænna. Hér kemur hver forstöðumaðurinn á fætur öðrum í hinum ýmsu stofnunum og segist vera algjörlega fullviss um að hans þjónusta sé ódýrust og best. Nú getur vel verið að við viljum að þetta snúist þá bara um hver sé mest sannfærandi hverju sinni, það er önnur leiðin. Síðan er hin leiðin, sú að vinna fjárlögin vel, vanda sig, og ein leið til þess er að kostnaðargreina þjónustuna. Okkur þykir það sjálfsagt á öðrum sviðum og það er óskiljanlegt af hverju menn eru á móti því núna, enda rak hv. þingmann í vörðurnar þegar hann var spurður hvað annað ætti að koma til greina. Þetta er besta aðferðin sem menn hafa fundið til þessa og hún er ekki samasemmerki við það, eins og margir halda fram, að þjónustan sé einhvern veginn sett á markað eða að það þýði að menn komist að þeirri niðurstöðu að á fáeinum svæðum þar sem þjónustan er eðli málsins samkvæmt hlutfallslega miklu dýrari muni menn hætta við hana. Þetta snýst ekkert um það. Þegar það snýr að heilsugæslu er önnur kostnaðargreining til staðar en sú DRG-greining sem hv. þm. Þuríður Backman vísaði hér í áðan. Við höfum ekki komið okkur saman um hana enn sem komið er en menn hafa þreifað sig áfram í öðrum löndum.

Nú gæti einhver sagt: Bíddu, eru þetta einhver pólitísk trúarbrögð hjá sjálfstæðismönnum og samfylkingarmönnum? Svo sannarlega var þetta stefna Samfylkingarinnar þegar ég gáði síðast en hæstv. ráðherra getur kannski upplýst það ef hann hefur fallið frá þeirri stefnu. Honum til upplýsingar var upplýst áðan að þetta væri auðvitað enginn forsendubrestur heldur væri VG búið að taka Samfylkinguna niður í þessu máli. Kannski finnst nýjum hæstv. ráðherra það bara gott og er búinn að skipta um skoðun frá því sem áður var hjá Samfylkingunni. Skiptir þá máli að það sé upplýst.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa í umsagnaraðila. Þeir voru mjög afgerandi og sögðu ákveðna hluti. Fyrst ætla ég að lesa umsögn frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Stjórn SFH telur brýnt að ljúka gerð þessara þjónustusamninga sem allra fyrst en breyting á þessum lögum stefnir málinu í allt aðra átt.“

Þetta eru Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Það eru þau sem kalla á að þessu verði ekki frestað. Það getur ekki verið skýrara frá þeim.

Læknafélag Íslands segir skýrt, með leyfi virðulegs forseta:

„Félagið er andvígt fyrirhugaðri frestun.“

Landspítalinn segir svo, með leyfi forseta:

„Landspítali gerir ekki sérstakar athugasemdir við frumvarp til laga um sjúkratryggingar. Hins vegar telur Landspítali ástæðu til að lýsa yfir vonbrigðum vegna frestunar gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir sem frumvarpið felur í sér enda hefur það verið stefnumál sjúkrahússins um árabil að fjárveitingar til spítalans fylgi þjónustu við sjúklinga og öðrum verkefnum í meiri og skýrari mæli en nú er. Slík fjármögnun er nú viðhöfð gagnvart öllum öðrum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum …“ (ÞBack: Frábært.) (ÓGunn: Ég náði þessu ekki.)

Hv. þm. Ólafur læknir Gunnarsson er hættur að heyra. Honum til upplýsingar er þetta nefndarálit hérna frammi.

Áfram heldur Landspítalinn:

„… og gjarnan staðið að henni með samningum á borð við þá sem frestað er í nefndu frumvarpi.“

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, hvað segir það góða félag? Það segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórnin telur mikilvægt að farið sé vel með almannafé og skýrt sé hvaða þjónustu ríkið og ríkisstofnanir eru á hverjum tíma að kaupa af sveitarfélögum og öðrum rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Einnig er brýnt að heimilismenn og aðstandendur geti fengið upplýsingar um hvaða þjónustu ber að veita og hvaða viðmiðanir eru í gildi varðandi þann mannafla sem þjónustuna veitir á hverju heimili. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skýrir þjónustusamningar séu í gildi á milli aðila. Stjórn Fíh leggst því gegn því að gildistöku umrædds ákvæðis verði frestað.“

Annars staðar segir:

„Stjórnin fullyrðir að með skýrum þjónustusamningum fáist meira fyrir það fé sem veitt er til reksturs hjúkrunarheimila hér á landi.“

Virðulegi forseti. Vegna þess að um tíma mátti skilja af hv. þingmönnum Vinstri grænna að menn væru hér að gera þetta sökum þess að það vantaði peninga hvet ég hv. þm. Þuríði Backman, formann hv. heilbrigðisnefndar, sem er hjúkrunarfræðingur, til að hlusta aftur á þessa setningu, með leyfi forseta:

„Stjórnin fullyrðir að með skýrum þjónustusamningum fáist meira fyrir það fé sem veitt er til reksturs hjúkrunarheimila hér á landi.“

Virðulegi forseti. Hér hefur borið á því að þetta snúist um minni fjármuni hjá hinu opinbera en þessir umsagnaraðilar hafa algjörlega afgreitt það út af borðinu með svo afgerandi hætti að maður sér sjaldan annað eins í umsögnum um frumvörp. Þeir blása á þessar sérkennilegu röksemdir hv. stjórnarliða. Til að ítreka það er rétt að vitna í minnisblað sem við fengum frá forstjóra Sjúkratrygginga þegar við ræddum við hann og fengum hann og aðra fulltrúa frá Sjúkratryggingum til að veita umsögn um þetta frumvarp. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þann forsendubrest sem vitnað er til í athugasemdum með frumvarpinu til skýringar á frestun umræddrar samningsgerðar á vegum SÍ má fyrst og fremst rekja til þess að stofnunin hefur ekki fengið nauðsynlegar fjárveitingar til að sinna verkefninu. Það hefur á hinn bóginn ekki með aukinn kostnað fyrir ríkið að gera heldur það að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki fylgt eftir tilflutningi starfa og fjárveitinga til SÍ eins og til stóð þegar lögin um sjúkratryggingar voru samþykkt.“

Síðan eru tilgreindir þrír hlutir:

„Í því sambandi má nefna:

Ekki er enn lokið við áformaða fjárhagslega uppskiptingu milli TR og SÍ í samræmi við niðurstöðu ráðgjafanna sem unnu að aðskilnaðinum fyrir forsætisráðuneytið (kostnaðargreining TR, dags. 6. maí 2008, lögð fyrir heilbrigðisnefnd Alþingis í aðdraganda laga nr. 112/2008).“ (Heilbrrh.: Hvenær hætti …?)

Hæstv. ráðherra kallar fram í og spyr hvenær ég hafi hætt. Ef hæstv. ráðherra hefur áhuga á því að ég fari yfir sögu þess þáttar málsins verður það gert með mikilli gleði og ánægju.

Í öðru lagi segir í minnisblaði forstjórans:

„Ekki hefur enn orðið af tilflutningi 5–6 starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunarinnar vegna samningamálanna, samanber til dæmis umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarp til laga um sjúkratryggingar (þskj. 955, 613. mál).

Ekki hefur enn orðið af tilflutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum sem SÍ var ætlað að sinna, samanber til dæmis ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.“

Þetta hefur ekkert með það að gera að það séu minni fjármunir í ríkissjóði. Þetta hefur ekkert með það að gera að það þýði kostnað að styrkja sjúkratryggingar. Þetta hefur að gera með pólitískan vilja.

Nú skulum við fara í alvöru málsins því að heilbrigðismál ganga út á þá sem þurfa á þjónustunni að halda, sjúklinga. Í lögum um sjúkratryggingar segir svo, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.

Jafnframt er markmið laga þessara að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma. Þá er markmið laga þessara að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna.“

Þetta tvennt tengist órjúfanlegum böndum. Ef við ætlum að ná því markmiði okkar að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga, sama hvar þeir búa, sama í hvaða efnum þeir eru, verðum við að hafa nægilegt framboð. Við gerum það ekki öðruvísi en að nýta hverja einustu krónu sem kemur þarna inn með sem allra hagkvæmustum hætti þannig að nýtist fyrir sjúklingana.

Við erum búin að vera svo lánsöm, Íslendingar, að við höfum aldrei haft tvöfalt heilbrigðiskerfi. Nú eru aldrei meiri líkur á því að það verði tvöfalt heilbrigðiskerfi en eftir þessa tvo hæstv. heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Þetta eru ekki mín orð, virðulegi forseti, heldur vísa ég í formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem bæði talaði um þetta í hv. heilbrigðisnefnd og á opnum fundi þar sem hún hélt ræðu. Menn vinna ekki skipulega að því að nýta hverja einustu krónu vel og það mun koma niður á framboði á þjónustu. Þegar vantar framboð á þjónustu hefur það tvær afleiðingar, annars vegar getur það fólk sem þarf á þjónustunni að halda ekki fengið hana og hins vegar getum við sagt að það muni skapa tækifæri fyrir aðila sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa ekki oft talað um af virðingu, einkaaðila, til að bjóða þjónustu gegn gjaldi utan kerfis. Með öðrum orðum er verið að skapa grundvöll undir tvöfalt kerfi.

Ef Vinstri grænir meina það sem þeir segja um að þeir vilji ekki tvöfalt kerfi verða þeir að horfast í augu við þessar staðreyndir því að annars förum við hratt þangað. Ég kem hér ekki með neitt annað en það sem fólk sem gjörþekkir þessi mál hefur sagt á opinberum vettvangi.

Það minnsta sem hægt er að fara fram á við stjórnarliða sem glaðhlakkalega segja: Já, við erum komnir í stjórn og við ætlum að breyta þessu öllu, er að þeir útskýri hvað þeir ætla að gera. Hvaða leið á að fara? Það var ítrekað spurt um það í hv. heilbrigðisnefnd.

Virðulegi forseti. Veistu hvert svarið var? Ég sé það á virðulegum forseta að hann veit það ekki frekar en nokkur annar sem var í hv. heilbrigðisnefnd — því að það voru engin svör. Ég frábið mér slagorð úr stjórnmálaskóla Vinstri grænna um að þetta snúist um að setja heilbrigðisþjónustu á markað og hvað þetta heitir allt saman. Ég frábið mér slíkt. Málið er miklu alvarlegra en svo.

Ég þekki engan sem mælir bót þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð í tíð hæstvirtra heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Hv. þingmenn eru í öllum skúmaskotum að reyna að bjarga heilbrigðisþætti fjárlaganna. Þau vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar. Það er alveg ljóst að uppleggið var ekki unnið með neinum, er illa undirbúið og ekki framkvæmanlegt.

Ég spyr, virðulegi forseti: Er ekki nóg að gert? Vilja Vinstri grænir halda áfram? Er ekki búið að valda nógu miklum skaða?

Hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru í forustu í þessu máli og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra verða að blanda sér í þessa umræðu. Ef þeir vilja ekki útskýra fyrir hv. þingmönnum þurfa þeir a.m.k. að útskýra það fyrir umsagnaraðilum sem lögðust gegn því að þessu yrði frestað. Það gerðu allir sem skiluðu inn umsögn ef undan eru skilin landlæknir og Tryggingastofnun ríkisins. Það var ekki verið að spara stóru orðin í þessum umsögnum eins og ég las nokkrar upp áðan.

Hér tala menn oft um mikilvægi þess að vera ekki með óvissu fyrir starfsfólk og þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, en hér er svo sannarlega mikil óvissa í gangi eftir orð hv. þm. Þuríðar Backman. Meiri hlutinn fór þá leið að upplýsa ekki hvert stefnir í umfjöllun nefndarinnar um málið, hvað þau ætla að gera í þessu máli. Nú er ekki bara tækifæri, virðulegi forseti, nú er algjör þörf á því að þessir aðilar upplýsi hvað þeir ætlist fyrir.

Það var að vísu áhugavert að hv. þm. Þuríður Backman talaði um að kostnaðargreiningin ætti við á Landspítalanum og hjá sérfræðingunum, það hlýtur þá líka að eiga við um aðra spítala. Ég vona að hv. þingmaður misskilji ekki hlutina svo að menn ætli eitthvað að hvika frá jöfnum aðgangi eða öðru slíku þótt þeir kostnaðargreini hlutina, enda hafa Norðurlandaþjóðirnar ekki gert það. Markmið laganna um sjúkratryggingar er að það verði ekki gert. Markmið laganna er mjög skýrt. Ég ætla öllum hv. þingmönnum og lunganum úr þjóðinni, kannski öllum Íslendingum, að vera sammála um þau markmið. Við viljum að allir Íslendingar hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Því miður höfum við á undanförnum tveimur árum fjarlægst það markmið, oftar en ekki og kannski fyrst og fremst út af stjórnvaldsaðgerðum.

Ég hef afskaplega miklar áhyggjur af því að þegar menn eru í svona pólitískum leik eins og í þessu máli til að slá einhverjar pólitískar keilur inn að sínum innsta kjarna fórni menn ansi miklum hagsmunum, í þessu tilfelli heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar. Það tók okkur mörg ár að koma okkur á þennan stað í heilbrigðismálum, en við getum verið mjög fljót að koma okkur á einhvern allt annan stað sem við viljum ekki vera á. Ef við förum þangað, virðulegi forseti, getur verið erfitt að fara til baka því að heilbrigðisþjónustan gengur út á fólk.

Núna erum við búin að missa þónokkuð af góðu fólki til útlanda, aðallega hefur þó missirinn verið í því að fólk sem hefur verið að læra í öðrum löndum kemur ekki til baka. Er það m.a. út af röngum áherslum í heilbrigðismálum þjóðarinnar en ég ætla ekkert að velta mönnum upp úr því. Stóra einstaka málið er að sem aldrei fyrr þurfum við að vanda okkur. Ef hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn eru komin með einhverjar allt aðrar leiðir til að nýta fjármuni í heilbrigðisþjónustu en hefur þekkst annars staðar, og við höfum leitast við að læra af því sem gerist best annars staðar, verða menn að upplýsa það. Í stjórnmálaskóla VG er kannski komin einhver stórkostleg hugmynd um hvernig nýta eigi peninga í heilbrigðisþjónustu, en ég leyfi mér að efast um það og ég veit ekki af hverju þeir ættu að halda því leyndu.

Virðulegi forseti. Nú er kominn nýr hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson. Ég hef ekkert legið á því, ég sagði það og meina það, og ég held allir, bæði hv. heilbrigðisnefnd og annars staðar, að við erum tilbúin til að aðstoða hann við það erfiða verkefni að halda hér uppi heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Menn eru allir af vilja gerðir til þess. En nú er bara komið að því að hæstv. heilbrigðisráðherra þarf að upplýsa þing og þjóð um hvað hann vill gera, í þessu tilfelli í þessu máli. Það er ekki boðlegt að nokkrum klukkustundum áður en við slítum þinginu sé loksins upplýst hvað er á ferðinni. Við erum búin að sitja í hv. heilbrigðisnefnd þar sem menn hafa talað út og suður um ástæður þess að verið er að fresta þessu. Það eru allt saman einhver orð sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og það er upplýst hér að þetta er bara pólitík. Gott og vel, það eru mismunandi áherslur hjá mismunandi stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherra verða þá hins vegar að upplýsa hver stefnan er.

Enn og aftur vek ég athygli á því hvað umsagnaraðilar sögðu þó að ég ætli ekki að lesa það aftur upp.

Virðulegi forseti. Svona mál lætur lítið yfir sér þegar menn líta á frumvarpið, en þetta er mjög stórt mál. Því miður er í þessum málaflokki orðin algjör regla í tíð þessarar ríkisstjórnar að málin eru unnin á handahlaupum. Við ræðum núna grundvallarmál í þingsal. Hv. þingmenn eru í bakherbergjum að hnoðast í því hvernig þeir eiga að bjarga heilbrigðiskafla fjárlaganna fyrir horn. Ýmislegt má um það segja, en algjörlega er ljóst að enginn getur haldið því fram að það sé faglega leiðin til að vinna málið.

Nú reynir á, virðulegi forseti, hvort hv. þingmenn og hæstv. ráðherra beri það mikla virðingu fyrir sjúklingum og þeim aðilum í þessu landi sem veita heilbrigðisþjónustu að þeir komi hreint fram og segi hvað er á ferðinni. Í stuttu andsvari upplýsti hv. þingmaður og formaður heilbrigðisnefndar, Þuríður Backman, að þetta snerist ekkert um það sem hafði verið sagt, en nú á eftir að botna málið. Hvað er hér nákvæmlega á ferðinni?

Núna þegar ríkisstjórnin er búin að vera til í tvö ár getur enginn sagt eða ætlast til að menn trúi því að menn ætli að fara að skoða þetta. Ég ætla hvorki hv. þingmönnum né hæstv. ráðherra að koma hér fram með slíkar yfirlýsingar. Það yrði aldeilis áfellisdómur yfir þessum tveimur árum ef menn ætluðu að fara að skoða þessa hluti núna. Ég ber of mikla virðingu fyrir félögum mínum hér til að trúa því að sá málflutningur verði hafður uppi og ég bíð spenntur eftir því að fá skýringar á því hvað er í ferðinni, hvað menn ætla að gera, bæði varðandi þessa stofnun, Sjúkratryggingar Íslands, en ekki síður hvað menn ætla að gera í staðinn fyrir þær hugmyndir sem eru ekki hugmyndir heldur voru settar í lög og eru í lögum um sjúkratryggingar. Menn eru ekki að fella þau lög úr gildi, lög samþykkt af Alþingi, landslög. Ef menn ætla að fara aðrar leiðir en þær sem stendur í þessum lögum ber mönnum að upplýsa þing og þjóð um það.