139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst upp í andsvar við hv. þingmann til að leiðrétta það sem ég sagði áðan, að það hefði orðið prentvilla í þeim gögnum sem við hefðum undir höndum. Ég hafði í fljótheitum hlaupið hér fram og gripið frumvarpið en ekki nefndarálitið þannig að það sé leiðrétt í þingtíðindum og komi skýrt hér fram.

Í nefndarálitinu stendur og það kemur alveg greinilega fram við hvað þessi frestun á. Hún er heimild fyrir ráðherra, ekki skilyrt heldur heimild fyrir ráðherra og er svohljóðandi:

„Fram til 1. janúar 2014, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 56. gr., er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.“

Fyrir þær stofnanir sem ráðherra hefur heimild til að semja áfram um daggjöld við er notað hið svokallaða RAI-mat til grundvallar en ekki DRG-greiningin sem hv. þingmaður benti á að væri notuð alls staðar á Norðurlöndunum. DRG-greiningin er aftur á móti mjög góð á stærri sjúkrahúsunum eins og háskólasjúkrahúsinu og á stofnunum (Gripið fram í.) með fjölbreyttari þjónustu en langflestar þær stofnanir sem ráðherra verður áfram heimilt að semja um daggjöld við. Í raun og veru er ekki verið að breyta neinu frá því sem nú er. Það er verið að gefa, í fjárlögunum á þessu ári og hugsanlega á næsta ári, við skulum sjá til hvernig það fer, tíma til að breyta þessari stofnun ef ástæða þykir til en notast áfram við RAI-matið en ekki DRG-greininguna. Það er ekki til greining fyrir þessar stofnanir sem langflestar eru í þjónustu hins opinbera.