139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fer nú að verða pínlegt. Hv. þingmenn VG tala um stefnubreytingu, þeir tala um stefnubreytingu hér. (Gripið fram í.) Er það þannig að ég eigi bara að hætta að hlusta? Er hæstv. ráðherra að fara fram á að ég hætti að hlusta á hv. þingmenn VG? Er það ósk frá hæstv. ráðherra? (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spyr um stefnubreytingu. Ég vísa í orð hv. þingmanna Vinstri grænna, ég vitnaði bara í þá umræðu sem hér fór fram. Ég vitnaði líka í frumvarpið og þar var gert ráð fyrir að ekki sé verið að fresta þessu af tæknilegum ástæðum. Það er talað um forsendubrest í frumvarpi hæstv. ráðherra, (Gripið fram í.) forsendubrest sem er ekki til staðar og hefur margoft komið fram. Og það á ekki að fresta þessu um nokkra mánuði, nei, það á að fresta þessu til 2014 af því að það á að endurskoða alla þessa hluti.

Það liggur fyrir að lög sem hv. þingmaður, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, (Forseti hringir.) samþykkti á sínum tíma eru í gildi. Og ef menn ætla að fara hér í stefnubreytingu, (Forseti hringir.) sem hefur verið boðuð í frumvarpi hæstv. ráðherra og af hv. þingmönnum Vinstri grænna, þá þurfa þeir (Forseti hringir.) að útskýra hana, ekki sá sem hér stendur.