139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008, með síðari breytingum. Mig langar að fara yfir markmið með frumvarpi til laga um sjúkratryggingar. Frumvarpið var lagt fram til að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag samkvæmt nánari ákvæðum þess frumvarps, sem síðar varð að lögum, og var þetta í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög sem við áttu. Jafnframt var markmið laganna að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og hámarksgæðum hennar, styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustunnar og að kostnaðargreina þjónustuna.

Með lögunum um stofnun Sjúkratryggingastofnunar Íslands var stefnt að því að sameina alla þá þekkingu sem til er innan ríkisgeirans sem snertir greiðslur, samninga og kaup fyrir heilbrigðisþjónustu til að ná samlegðaráhrifum á einum stað og þróa slíka þekkingu miðað við aukna sérfræðiþekkingu sem þessir verkþættir þurfa að hafa og kallað er á. Ekki síður, hæstv. forseti, voru lögin samþykkt til að mæta sívaxandi kröfum um gegnsæi í samskiptum ríkisins og borgaranna. Það að skilgreina með lögum ríkið sem kaupanda og þjónustuaðila sem seljendur er gert til að gera heilbrigðiskerfið gegnsærra og auka kostnaðar- og gæðavitund sem knýr á um betri skilgreiningu á því hver á að gera hvað og hvernig ber að skilgreina og verðleggja þjónustu. Þetta er sú leið sem mörg nágrannaríki okkar fara og hafa farið til að leita leiða við að stýra betur rekstri heilbrigðiskerfa sinna, veita gæðaþjónustu og auka hagkvæmni. Þetta er grundvallaratriði, frú forseti, laganna sem gilda um sjúkratryggingar.

Frú forseti. Það er ljóst að lögin um Sjúkratryggingar gera heilbrigðiskerfið heilbrigðara, ef svo mætti að orði komast. Þau gera það gegnsærra og með þeim er sýnt fram á hvar og hvernig við sem þjóð ætlum að veita einstaklingum í landinu frábæra heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða með því úrvalsfólki sem við höfum yfir að ráða.

Frú forseti. Nú ræðum við breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og breytingarnar sem gera á eru í 56. gr. laganna, 2. mgr. Í 1. mgr. 56. gr. stendur, með leyfi frú forseta:

„Lög þessi öðlast gildi 1. október 2008.“

Breyta á síðan 2. mgr. greinarinnar en þar stendur, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. koma ákvæði IV. kafla að því er varðar samninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2009.“

Síðan stendur innan hornklofa:

„Enn fremur koma ákvæði IV. kafla til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2011 að því er varðar samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.“

Þetta varðar fyrri breytinguna. Seinni breytingin varðar ákvæði IV til bráðabirgða þar sem stendur, með leyfi frú forseta:

„Fram til 1. janúar 2010, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 56. gr., skal ráðherra ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Daggjöld skulu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd, sbr. 4. mgr. 43. gr.“

Hér er verið að fresta tveimur þáttum í 56. gr. laga um sjúkratryggingar og í ákvæði til bráðabirgða. Þetta á ekki eingöngu við um sjúkrahús í opinberri eigu því eins og segir í bráðabirgðaákvæðinu skal með reglugerð, með leyfi forseta, „ákveða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila“. Öldrunarstofnanir og hjúkrunarrými öldrunarstofnana eru í einkaeigu, heyra undir sjálfseignarstofnanir og aðra aðila.

Það sem vekur hins vegar ugg, frú forseti, er hvað forstjóri Sjúkratryggingastofnunar Íslands segir um frestun á þessu ákvæði. Eins og stendur í minnihlutaáliti heilbrigðisnefndar, með leyfi forseta:

„Þann forsendubrest sem vitnað er til í athugasemdum með frumvarpinu til skýringar á frestun umræddrar samningsgerðar á vegum SÍ má fyrst og fremst rekja til þess að stofnunin hefur ekki fengið nauðsynlegar fjárveitingar til að sinna verkefninu.“

Það sem skiptir mestu máli er næsta málsgrein sem hljóðar svo, frú forseti:

„Það hefur á hinn bóginn ekki“ — og ég ítreka, frú forseti, það hefur ekki — „með aukinn kostnað fyrir ríkið að gera heldur það að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki fylgt eftir tilflutningi starfa og fjárveitinga til SÍ eins og til stóð þegar lögin um sjúkratryggingar voru samþykkt.“

Þetta hefur ekkert með aukinn kostnað fyrir ríkið að gera. Þetta stafar af því að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sinnt því verkefni sem því var falið samkvæmt lögum frá 1. október 2008. Og það er ekkert skrýtið þótt það veki manni örlítinn ugg þegar maður les síðan í athugasemdum með frumvarpinu að ljóst sé að enn vanti töluvert upp á að Sjúkratryggingar Íslands verði í stakk búnar að semja við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins svo og sveitarfélaga og aðra er reka hjúkrunarheimili.

Sjúkratryggingastofnun Íslands hefur ekki samið við þessar stofnanir vegna þess að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki staðið við sitt, heilbrigðisráðuneytið hefur ekki framfylgt lögunum sem samþykkt voru 1. október 2008. Þess vegna stöndum við í þeim sporum sem við stöndum núna. Af hverju, frú forseti, ætli þessum lögum hafi ekki verið framfylgt? Getur það haft eitthvað með það að gera að á undan hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, Guðbjarti Hannessyni, sátu tveir heilbrigðisráðherrar úr röðum Vinstri grænna, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hæstv. dómsmálaráðherra, Ögmundur Jónasson? Skyldi það hafa eitthvað með málið að gera, frú forseti? Þeir sem sátu hér á þingi og ræddu sjúkratryggingar í september 2008 muna grannt andstöðu Vinstri grænna við 5. gr. frumvarpsins um stofnun Sjúkratrygginga Íslands og að þeir fundu því allt til foráttu.

Og síðan segir í greinargerðinni með frumvarpinu:

„Í kjölfar efnahagshrunsins hefur orðið ákveðinn forsendubrestur að því er varðar hugmyndafræði þá sem liggur að baki lögum um sjúkratryggingar.“

Hugmyndafræðina sem liggur að baki? Hugmyndafræðin sem liggur að baki er að kostnaðargreina þjónustuna þannig að sá sem selur hana og sá sem kaupir hana viti nákvæmlega hvað hún kostar. Það að selja og kaupa virðist bara alltaf, með fullri virðingu fyrir þingmönnum Vinstri grænna, einhvern veginn fara svo fyrir brjóstið á þeim og þýða alltaf samhliða að einhver geti hugsanlega grætt og það er svo fjandi vont.

Það sem vekur ugg er það sem kemur í lok greinargerðarinnar í framhaldi af því að fresta á þessum ákvæðum til 2014. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fyrirhugað er á því tímabili að taka lög um sjúkratryggingar til endurskoðunar með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa frá því lögin tóku gildi.“

Ef þetta orðalag á að vísa til þess að hér varð efnahagshrun á það einfaldlega að standa en það stendur ekki. Það kann vel að vera að það sé það sem menn vilja segja og ætla að segja, að vegna efnahagshrunsins þurfi að taka lögin um sjúkratryggingar til endurskoðunar en þá eiga menn líka að segja það.

Þegar talað er um forsendubrest er varðar hugmyndafræði og endurskoða eigi sjúkratryggingar vegna breytinga sem orðið hafa verða þingmenn og hæstv. heilbrigðisráðherra að leyfa þeim sem þær setningar lesa að túlka þær eins og þeir sjá þær, hafandi heyrt orð hv. formanns heilbrigðisnefndar sem kvað upp úr um þetta áðan. Það fór ekkert á milli mála. Hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra getur komið hér og beðist undan því að þurfa að hlusta á einhvern málflutning af því að hvorki hann né einhver annar áttar sig á hvað er hér á ferðinni. Ég er alveg með það á hreinu hverju er hér verið að breyta. En forsendur breytinganna eru ekki þær að Sjúkratryggingastofnun sé ekki í stakk búin til að taka við. Það er vegna þess að heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherrar á undan núverandi heilbrigðisráðherra — en hann er engu að síður þátttakandi í þessu — hafa ekki framfylgt lögum frá 1. október 2008. Það felur m.a. í sér að ekki hefur verið gengið frá fjárhagslegri uppskiptingu milli Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og Sjúkratryggingastofnunar hins vegar. Ekki hefur verið gengið frá flutningi starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunar vegna samningamálanna og ekki hefur orðið af tilflutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum. Þetta er grundvallaratriði. Þetta er verkefni heilbrigðisráðuneytisins samkvæmt lögum. Það hefur ekki sinnt því frá 1. október. Ég frábið mér, frú forseti, að við sem erum ekki sammála þessum breytingum séum vænd um að við skiljum ekki í hverju málið er fólgið. Við gerum það bara ósköp vel.

Það má alveg segja að það séu lítils háttar breytingar að fresta einhverju til 2014 en það stendur jafnframt að á því tímabili eigi að taka lög um Sjúkratryggingar til endurskoðunar með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa frá því að lögin tóku gildi. Þá vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, frú forseti. Meginmarkmið sjúkratrygginga er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafna aðgang að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag. En það er jafnframt markmið frumvarpsins að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og hámarksgæðum hennar.

Frú forseti. Mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem hann er í salnum, geri tilraun til að svara því af hverju heilbrigðisráðuneytið hefur ekki, frá því að lögin voru samþykkt 1. október 2008, fylgt þessum þætti laganna eftir. Af hverju strandar á þessu þegar Sjúkratryggingar eru annars vegar?

Frú forseti. Í ljósi umræðunnar og þeirrar staðreyndar að tveir hv. þingmenn úr þingflokki Vinstri grænna sátu sem heilbrigðisráðherrar á undan núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra leyfi ég mér að segja að vegna andúðar þeirra á 5. gr. laga upphaflega frumvarpsins hafi þess gætt í störfum þeirra. Þess vegna hafi markmiðunum ekki verið framfylgt. Það er í sjálfu sér ekki við núverandi heilbrigðisráðherra að takast þar sem hann hefur aðeins setið tvo mánuði í því embætti. Hitt er staðreynd og frá því verður ekki horft og í ljósi þess sem hv. formaður heilbrigðisnefndar sagði áðan um hugmyndafræðina sem verið væri að breyta, að þetta hlýtur að kalla á skýringu fyrir alla þá sem studdu frumvarpið og sitja enn á þingi, frumvarpið sem við ræðum nú breytingar á, hvað það í raun og veru þýðir. Hvað þýða orð núverandi hv. formanns heilbrigðisnefndar? Stendur til að gjörbylta þessum lögum miðað við það sem stendur í greinargerðinni eða á eingöngu að fara í smávægilegar breytingar á því tímabili sem fyrirhugaðar frestanir ná til?

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi það að hér er ekki eingöngu rætt um heilbrigðisþjónustu sem tekur til sjúkrahúsa heldur einnig þjónustu sem veitt er á hjúkrunarrýmum á sjúkrahúsum og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur m.a. rætt það að flytja öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga um áramótin 2012. Því langar mig að spyrja hvernig hann sjái fyrir sér að þau verkefni færist yfir og hvaða augum hann lítur þær umsagnir sem bárust með breytingu á 56. gr. laga um sjúkratryggingar og í ákvæði IV til bráðabirgða. Hvaða augum lítur hæstv. heilbrigðisráðherra umsagnirnar sem koma frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, frá Læknafélagi Íslands, frá Landspítalanum og frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga? Þau eru öll á einn veg, frú forseti. Lagst er gegn því að við frestum ákvæðinu í 56. gr. annars vegar og ákvæði IV til bráðabirgða. Þetta segja allar fagstéttirnar, fagfólkið sem veitir umsögn, fagfólkið sjálft sem okkur er svo tamt að vilja taka tillit til og segja að eigi að ráða för en ekki pólitíkin þegar okkur hentar að ræða þannig. Álit fagfólksins er allt á einn veg.

Frú forseti. Menn geta sagt að þetta séu lítilfjörlegar breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu en ég ítreka að í greinargerð og athugasemdum við lagafrumvarpið er skýrt gefið til kynna að hér hafi orðið forsendubrestur í einhverri hugmyndafræði og endurskoðun eigi að fara fram með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa frá því að lögin tóku gildi. Hvergi er því svarað af hverju heilbrigðisráðherrar fóru ekki að lögum og unnu samkvæmt því sem lög um sjúkratryggingar sögðu um að flutningurinn ætti að eiga sér stað frá og með 1. janúar 2011.