139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[16:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér hafa fallið athyglisverðar athugasemdir í umræðunni og í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan. Hún ýjaði að því að ráðherrar hefðu ekki farið að lögum. Ef þingmaðurinn telur svo vera finnst mér að hún ætti að segja það skýrt og greinilega og tilgreina að hvaða leyti og ég geri þá ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni svara fyrir sig með það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru: Telur þingmaðurinn óeðlilegt þegar nýir menn koma í ráðuneytin að þar verði áherslubreytingar eins og hefur gjarnan gerst þegar skipt hefur verið um ráðherra? Ég man til að mynda ekki betur en að allnokkrar áherslubreytingar hafi orðið þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom í heilbrigðisráðuneytið á sínum tíma, sem hann sem hæstv. ráðherra á þeim tíma hefur vafalítið talið skipta töluverðu máli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni þyki óeðlilegt að hæstv. ráðherrar setji með einhverju móti mark sitt á það starf sem þeir vinna fyrir þjóðina í ráðuneytunum og áherslur þeirra og væntanlega pólitískar áherslur komi fram í störfum þeirra.