139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ólafi Þór Gunnarssyni andsvarið. Það kemur skýrt fram í lögum um Sjúkratryggingar hvernig á að framfylgja þeim. Nú er hálfur mánuður í 1. janúar þegar gildistakan á að eiga sér stað, hálfur mánuður. Og þá koma fram breytingar á þessum tveimur þáttum um framlengingu til 2014.

Samkvæmt því sem stendur í lögum áttu menn að vinna að þessu verkefni til að gildisákvæðin yrðu að lögum 1. janúar 2011. Það stendur skýrt og skilmerkilega hér. Það kemur líka fram hjá forstjóra núverandi Sjúkratrygginga Íslands að ráðuneytið hafi ekki sinnt þeim þáttum sem það átti að gera til að Sjúkratryggingar væru í stakk búnar til að vinna það verkefni sem þeim er falið samkvæmt lögum.

Ég sagði, frú forseti, að ég velti fyrir mér hvort þetta væri brot á lögum, ég sagði ekki að lögin hefðu verið brotin. Ég sagðist hafa velt því fyrir mér. Það er hálfur mánuður í gildistöku og það var 1. febrúar 2009, þremur mánuðum eftir gildistöku laganna, sem nýr ráðherra kom í heilbrigðisráðuneytið og síðar annar nýr ráðherra úr sama flokki og þessum verkefnum hefur ekki verið sinnt.

Hvaða varðar hina spurningu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar: Nei, mér finnst ekkert að því þó að heilbrigðisráðherrar leggi sínar pólitísku línur þegar þeir koma eða hvaða ráðherra sem er. En þá krefst ég þess að það sé sýnilegt með orðum en ekki falið, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson.