139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. iðnn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 483, mál nr. 122, um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Landsvirkjun, Orkustofnun og Samorku.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland, dagsettur 13. október 2010, um álbræðslu við Straumsvík. Um er að ræða áttunda viðauka við svokallaðan aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., frá 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu og annarra mannvirkja í Straumsvík.

15. júní 2010 var undirritaður nýr samningur á milli Landsvirkjunar og Alcan á Íslandi hf. um orkusölu til álversins í Straumsvík. Samningurinn er tvíþættur, annars vegar er endursamið um verð á orkusölu til álversins miðað við óbreytt magn og hins vegar er samið um afhendingu viðbótarorku (75 MW) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins. Sú meginbreyting sem í samningum felst er að miðað er við að nýi raforkusamningurinn komi alfarið í stað núgildandi raforkusamnings og að sá síðarnefndi falli brott.

Nefndin tekur undir nauðsyn þess að til að tryggja að nýi raforkusamningurinn sé með öllu ótengdur aðalsamningnum sé nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á aðalsamningnum frá 1966, þ.e. að afnema fylgiskjal A (raforkusamninginn) og hreinsa aðalsamninginn af öllum ákvæðum þar sem vísað er í raforkusamning eða kveðið á um afhendingu raforku.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jón Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, Magnús Orri Schram, Lilja Mósesdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson.