139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[16:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði sem ég skrifa undir þetta nefndarálit sem fjallar um viðaukasamning milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Þetta er skemmtilegt orð, álbræðsla, mér skilst að það standi hér vegna þess að þegar upphaflegi samningurinn var gerður fyrir rúmum 40 árum var álbræðsla orðið sem notað var um álver og það er látið halda sér hérna.

Upphaflegi samningurinn var mikið gæfuspor fyrir okkur Íslendinga. Það leiddi til þess að Ísland fór að iðnvæðast fyrir alvöru. Byggðar voru virkjanir og Þjórsárvirkjanirnar eiga margar eða einhverjar rætur sínar í þessari ákvörðun og öll þekkjum við hvað álverið í Straumsvík hefur gert fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu.

Virðisaukinn er aftur á móti ekki jafnþekktur og virðulegir embættismenn hafa skrifað lærðar ritgerðir og reynt að sanna að enginn virðisauki sé af álframleiðslu. Mig langar því í þessu sambandi að fjalla um hvað þetta álver hefur fært okkur. Eigið fé Landsvirkjunar er nú um 200 milljarðar. Á milli 70 og 80% af tekjum Landsvirkjunar eru frá stóriðju og eins og við vitum var álverið sem hér er til umfjöllunar lengst af eina álverið í landinu. Það borgaði fyrir raforkuna sem leiddi til þess að eigið fé í Landsvirkjun byggðist upp smátt og smátt. Nú er svo komið að eigið fé er, eins og ég sagði áðan, í kringum 200 milljarða.

Eigið fé er eitt, virði fyrirtækisins er annað. Miðað við hvernig verð á orkufyrirtækjum hefur þróast er ljóst að verðmæti Landsvirkjunar hefur aukist gríðarlega mikið á síðustu árum. Ef við gerum okkur að leik að reyna að verðmeta það í huganum gæti verðmæti Landsvirkjunar legið á bilinu 500–600 milljarðar og kannski upp undir 800–900 milljarða. Og munum að fyrirtækið byggðist meira og minna upp á því að selja rafmagn til stóriðju. Virðisaukinn af sölu rafmagns til stóriðju hefur verið gríðarlegur og virðisaukinn af álbræðslu þar með.

Eins og ég sagði áðan hafa virðulegir embættismenn verið sendir í leiðangra til að skrifa lærðar greinar um að ekki hafi orðið neinn virðisauki af álframleiðslu. Þetta hefur orðið mikið fóður fyrir Vinstri græna til að standa á móti framþróun í þessum iðnaði á Íslandi og að nýta orkuna öllum Íslendingum til hagsbóta. Það er því kannski óvenju gleðilegt að samningurinn skuli koma hér til kasta Alþingis og verða samþykktur. Þrátt fyrir andstöðu Vinstri grænna við þennan iðnað virðist hér svo vera að álverið í Straumsvík verði stækkað, stækkað um 75 megavött. Framleiðslan, störfin, skattarnir, aukin orkusala verður eftir því. Við Íslendingar verðum því allir betur settir eftir þessa stækkun. Jafnframt hittir þetta á óvenju góðan tíma vegna þess að atvinnuleysi er mikið á Íslandi, eins og við vitum öll, og þessi stækkun krefst margra starfa. Auk þess getum við selt ónýtta raforku til fyrirtækisins.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla mikið efnislega um þennan samning. Hann er frekar einfaldur og gengur út á að breyta ákvæðum til að gera það kleift að endursemja um verð á orku til álversins. Jafnframt er samið um afhendingu á viðbótarorku upp á 75 megavött vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins. Það er ekki langt síðan tilkynnt var að nýfjárfesting í álverinu verði í kringum 60 milljarða og framleiðslugetan mun aukast í samræmi við það.

Ég fagna þessu og hef svo sem ekki mikið meira um þetta að segja nema að ég óska vinstri grænum til hamingju með að vera farnir að sjá hvað er Íslendingum fyrir bestu.