139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. iðnn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá iðnaðarnefnd á þskj. 484, mál nr. 205, um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Vegagerðinni.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dagsett 8. júlí 2009, í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar um að ótakmarkaðar eigendaábyrgðir séu ekki að fullu í samræmi við EES-samninginn um ríkisaðstoð. Fram kemur í ákvörðun ESA að eigendaábyrgð vegna lána sé heimil að því gefnu að hæfilegt ábyrgðargjald sé greitt fyrir og skal nýtt ábyrgðargjald ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar. Samhliða þessu frumvarpi voru lögð fram frumvörp um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir og lögum um Landsvirkjun. Markmiðið er því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og tryggja að ábyrgðir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur séu í samræmi við ríkisstyrkjareglu EES-samningsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jón Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Magnús Orri Schram, Lilja Mósesdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson.