139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni er hér um að ræða tilraun til þess að ná utan um óskilgreindan hóp, ef svo má að orði komast. Fjöldi þeirra sem fara í gjaldþrot á ári hverju hefur hlaupið síðustu árin í kringum 100 einstaklinga. Við fjölluðum sérstaklega um það hvort við værum að búa til úrræði sem gæti orðið að einhverri leið sem fólk í miklum greiðsluvanda mundi bera saman við greiðsluaðlögun og ákveða að fara frekar í.

Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar var að svo væri ekki. Hér er um algjört neyðarúrræði að ræða. Þetta breytir umhverfinu sem við höfum í dag og gerir fólki kleift að rísa fyrr á fætur en áður var, eftir áfallið sem ég held að allir séu sammála um að gjaldþrot hljóti að vera hverjum einstaklingi.

Það var sérstaklega fjallað um það sem hv. þingmaður spurði um og ég fór yfir það í ræðu minni. Það var niðurstaðan að í samanburði við þá hagsmuni sem skuldari geti haft af gjaldþrotaskiptum geti fjárhæðin ekki talist óyfirstíganleg, þ.e. að reiða fram 250 þús. kr. Við beinum því sérstaklega til ráðherra, þar sem fólki virðist ekki vera kleift að gera það, að kannað verði hvort í slíkum tilfellum sé unnt að mæta kostnaði við trygginguna.