139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins árétta það að markmið frumvarpsins er göfugt, ég fór yfir það hér og dreg ekkert úr því. En ég er því miður svo hrædd um að þetta frumvarp komi til með að, verði það að lögum, skapa svo miklar væntingar hjá fólki um að það geti farið í gegnum hraða skuldahreinsun. Eins og hv. þm. Róbert Marshall fór yfir áðan var þetta mál mjög lengi í allsherjarnefnd og mörgum hliðum velt upp á því.

Ég get ekki alveg tekið undir að það sem var borið fram í allsherjarnefnd hafi verið alveg hreint allt saman samþykkt því að það eru mjög margir sem efast um að þetta standist og eru hræddir um að þetta skapi ótímabærar væntingar.

Ég minni á að gjaldþrot er algjört neyðarúrræði. Nú hefur ríkisstjórnin kynnt til sögunnar u.þ.b. 50 úrræði fyrir skuldsett heimili. Raunverulega er með frumvarpinu verið að vísa þessu lagatæknilega atriði, hvort það standist eða ekki, til dómstóla. Segjum sem svo að frumvarpið haldi gagnvart stjórnarskrá og dómstólum, er þá þingmaðurinn ekkert hræddur um að þessi boðuðu, afgreiddu 50 úrræði sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir lendi í miklu uppnámi? Það eru kannski einhverjir sem sjá kost í því að hreinsa sig af öllum skuldum því að í gjaldþrotalögunum eru hreinsaðar skuldir eins og námslán og meðlagsgreiðslur.

Svo hefur líka komið upp, eins og ég fór yfir áðan, að kröfuhafar láta sér oftast duga að stoppa við árangurslaust fjárnám og sjá sér ekki hag í því að elta fólk. Miðað við þau atriði sem hafa komið upp, að það hefur verið farið af stað með að vekja kröfur eftir fjögur ár, tíu eða tuttugu, eins og kom fram (Forseti hringir.) fyrir nefndinni, er það yfirleitt ef einstaklingnum hefur tæmst arfur. Það er hægt að beita þessu úrræði í svo (Forseti hringir.) fá skipti því að þetta er svo kostnaðarsamt fyrir þá sem sækja kröfuna.