139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, okkur þingmanninn greinir á um að þetta standist og því miður er ekki hægt að setja afturvirk lög þrátt fyrir að við höfum sem þjóð lent hér í alveg dæmalausum aðstæðum eftir hrunið. Ég tel enn að þetta frumvarp nái ekki markmiðum sínum vegna þess að það er verið að skapa óraunhæfar væntingar vegna varinna réttinda sem við búum við í okkar ágætu stjórnarskrá.

Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hluta allsherjarnefndar um þetta frumvarp. Ég er ein á því og eins og fram hefur komið er lagt til í frumvarpinu að sett verði sérregla um fyrningarfrest á þeim hluta krafna sem ekki fæst greiddur við gjaldþrotaskipti. Þá verður ekki unnt að slíta fyrningunni innan tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum og þá fyrir dómi, þ.e. þegar kröfuhafar hafa sérstaka hagsmuni af því að fá kröfur greiddar og geta enn fremur sýnt fram á að líkur séu til þess að þeir fái þær greiddar.

Í nefndaráliti mínu segir eftirfarandi:

Fyrsti minni hluti telur að með þeirri breytingu sem meiri hlutinn leggur til varðandi lagaskil sé farið yfir þau mörk sem löggjafanum eru sett í stjórnarskrá varðandi afturvirkni laga. Yngri lögum verður ekki beitt um stofnun réttinda eða annars ástands þótt samningur sé enn virkur eða ástandið vari enn, auk þess sem gildi löggernings ber að meta samkvæmt þeim reglum sem giltu þegar stofnað var til hans. Einnig er skýrt að kröfu ber að meta eftir þeim reglum sem giltu um hana þegar hún stofnaðist.

Með tillögunni leggur meiri hlutinn til að regla frumvarpsins um tveggja ára fyrningarfrest nái einnig til krafna í bú þar sem skiptum er ólokið. Þá leggur meiri hlutinn einnig til að reglan nái til krafna í bú þar sem skiptum er lokið en kröfurnar hafa ekki fengist greiddar og nýr fyrningarfrestur er byrjaður að líða samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda. Fyrningartími krafna getur verið mismunandi samkvæmt lögunum, þ.e. fjögur ár, tíu eða tuttugu en algengasti fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár.

Fyrningarfrestur krafna í þrotabúum er því styttur í tvö ár samkvæmt tillögunni nema styttri fyrningartími sé eftir. 1. minni hluti telur að með þeirri breytingu, verði hún samþykkt, sé gengið á stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa sem verður ekki skertur án bóta með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Í 72. gr. stjórnarskrárinnar eru heimildir löggjafans til að hagga við fjárhagslegum hagsmunum sem stofnað er til fyrir gildistöku laga mjög takmarkaðar. 1. minni hluti varar við því og vísar í því sambandi til nýfallins dóms Hæstaréttar en þar voru kröfuréttindi skert með afturvirkum hætti með setningu laga um ábyrgðarmenn sem takmörkuðu réttindi kröfuhafa til að ganga að ábyrgðarmönnum krafna. Niðurstaða dómsins var sú að lögunum yrði ekki beitt þar sem þau væru andstæð stjórnarskrá en í dómnum var ekki tekin afstaða til bótaskyldu ríkissjóðs því að hún var of seint fram komin.

Fyrsti minni hluti bendir á að með frumvarpi þessu er brotið blað í réttarsögunni að því leyti að ekki eru fordæmi fyrir sérreglu um fyrningarfrest krafna við gjaldþrot annars staðar á Norðurlöndunum, þ.e. í þeim löndum sem við berum okkur saman við en löggjöf okkar hefur að meginstefnu verið byggð á löggjöf þeirra ríkja. Telur 1. minni hluti að þegar litið er til þess að nauðsynlegt sé að um réttindi kröfuhafa og skuldara gildi sambærilegar reglur milli landa sé varhugavert að sérregla verði lögfest hér á landi.

Samkvæmt frumvarpinu er eingöngu unnt að rjúfa tveggja ára fyrningarfrest krafna eftir lok gjaldþrotaskipta með því að fara með málið fyrir dómstóla. Kröfuhafa er þá nauðsynlegt að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá kröfuna greidda og hann þarf einnig að sýna fram á að líkur séu á að hann fái fullnustu kröfunnar á nýjum fyrningartíma. 1. minni hluti bendir á að hópur kröfuhafa er oft og tíðum mjög blandaður, þ.e. allt frá einstaklingum upp í fjármálafyrirtæki. Þá eru kröfur einnig fjölbreyttar, t.d. bótakröfur á einstaklinga vegna tjóns sem þeir hafa valdið og kröfur um vinnulaun verktaka. Þannig getur verið að einstaklingar með minni kröfur geti í reynd ekki leitað réttar síns vegna þess kostnaðar sem það hefur í för með sér að leita til dómstóla og að þar með sé verið að takmarka rétt þeirra til að fá úrlausn mála sinna fyrir dómi eins og ákvæði 70. gr. stjórnarskrár er ætlað að tryggja.

Fyrsti minni hluti tekur einnig undir athugasemdir umsagnaraðila sem töldu að sú leiðbeining sem er í frumvarpinu um það hvort um sérstaka hagsmuni er að ræða hjá kröfuhafa, sem fer fram á rof á fyrningarfresti á grundvelli þessarar sérreglu sé of matskennd og ekki nægilega skýr. Framsal löggjafarvalds til dómstóla er því of mikið í frumvarpinu og það getur farið nærri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er skoðun 1. minni hluta að löggjafinn eigi að setja skýr lög og minnka vægi dómstóla í lagasetningu fyrir utan hvað slíkt ferli er þjóðhagslega óhagkvæmt og leiðir til mikillar sóunar á opinberu fé og einkafjármagni. Ekki þarf að fjölyrða um aukið álag á dómstóla við óskýra lagasetningu.

Þá bendir 1. minni hluti enn fremur á að sérregla frumvarpsins kemur þeim best sem hafa verið stórtækastir í skuldsetningu, þ.e. þeim sem hafa farið og munu fara í gegnum stærstu gjaldþrotin. Þá telur 1. minni hluti að kröfuhafar muni ekki leggja út í þann kostnað sem fylgir því að óska eftir gjaldþrotaskiptum nema þegar um er að ræða bú sem eiga eignir upp í skuldirnar. Áfram munu kröfuhafar því væntanlega viðhalda kröfum sínum á grundvelli laga um fyrningu kröfuréttinda gagnvart þeim sem eru eignalausir eða eignalitlir með því að gera árangurslaus fjárnám og rjúfa þannig fyrningu sem er fjögur, tíu eða tuttugu ár. Eina leið þeirra til þess að virkja sérreglu frumvarpsins um fyrningarfrest er sú að óska sjálfir eftir gjaldþroti með því að leggja út 250 þús. kr. tryggingu fyrir skiptakostnaði.

Fyrsta minni hluti telur að þessi sérregla falli ekki heldur nægilega vel að því kerfi sem þegar hefur verið komið á með greiðsluaðlögun og ætlað er að taka á skuldavanda einstaklinga. Auk þess vekur frumvarpið upp væntingar sem ríkisvaldið getur tæpast staðið undir. Ekki má gleyma því að ákvæði fyrningarlaga um fyrningu krafna verða enn í fullu gildi þrátt fyrir að frumvarpið verði e.t.v. samþykkt.

Loks telur 1. minni hluti að þegar litið er til skýrleika hefði verið eðlilegra að með frumvarpinu hefðu verið lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda sem telja má að kröfuhafar líti til þegar þeir kanna rétt sinn gagnvart skuldurum, þar með talið þrotamönnum, í stað þess að bæta ákvæði í gjaldþrotalögin.

Nú hef ég lokið máli mínu og legg þetta nefndarálit fram fyrir hönd 1. minni hluta sem sú sem hér stendur mælir fyrir.