139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa góðu og efnismiklu ræðu. Það voru ein ummæli hv. þingmanns sem ég vildi sérstaklega gera athugasemd við. Hann nefndi hvert samhengi þessarar lausnar væri við greiðsluaðlögunarlausnina og varhugavert væri að skapa þær aðstæður að betra væri fyrir fólk að sleppa í gegnum gjaldþrot en axla ábyrgð af skuldbindingum sínum með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í greiðsluaðlögunarúrræðinu.

Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni en einungis að hluta. Ég minni á að í vor bjuggum við svo um hnútana að greiðsluaðlögunartíminn er eitt til þrjú ár. Ég ber þá von í brjósti að í kjölfar þessarar lagabreytingar verði það meginregla að greiðsluaðlögunartíminn verði aldrei lengri en eitt ár. Það verður auðvitað að vera þannig að fólk sjái í því skynsemi og einhvern hag að axla byrðar í þágu lánardrottna fram í tímann.

Ég held líka að það sé mikilvægt að við horfumst í augu við þær aðstæður sem upp eru komnar núna eftir hæstaréttardóminn um ábyrgðarmenn þar sem þau tilboð sem fólki bjóðast í meðferð skuldaúrvinnslu í frjálsum samningum við kröfuhafa eru ekkert sérstaklega góð. Fólk þarf jafnvel að horfast í augu við að nákomnir ættingjar þurfi að bera miklar byrðar af þriðja manns ábyrgðum sem í mörgum tilvikum var aflað með undarlegum hætti af hálfu viðkomandi lánastofnana.

Ég held að við megum ekki vanmeta mikilvægi þessa úrræðis og annarra lausna sem við höfum raunverulega tök á til að styrkja samningsstöðu fólks, jafnt í frjálsum samningum sem og í greiðsluaðlögunarferlinu, og samningsvilja kröfuhafa í greiðsluaðlögunarferlinu þannig að við náum betri lausn fyrir fólk almennt. Það er ljóst eftir hæstaréttardóminn í ábyrgðarmannamálinu að við höfum ekki full ráð á öllum þáttum þessara mála. En yfir þessum þætti, fyrningartíma við gjaldþrot, höfum við sannarlega forræði og ég held að við ættum að nota þau tæki sem þingið (Forseti hringir.) sannarlega hefur.