139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það þurfi að knýja fram aukinn samningsvilja hjá kröfuhöfum til að koma til móts við skulduga einstaklinga. Ég get líka tekið undir það með hæstv. ráðherra að ábyrgðarmannadómurinn þrengir vissulega stöðu skuldara. Það er viðfangsefni sem þarf að taka á innan veggja Alþingis.

Varðandi gjaldþrotin vil ég bara ítreka að ég held að þau séu í eðli sínu mjög slæmur kostur. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki nýtast þeim sem við viljum hjálpa vegna þess að hinn venjulegi kröfuhafi sem reynir að fá fasteignalán eða bílalán innheimt hefur sjaldnast hagsmuni af því að leggja út í 250 þús. kr. kostnað til tryggingar á skiptakostnaði hjá venjulegum einstaklingi. Venjan er sú að ekkert kemur út úr þeim skiptum. Sá einstaklingur sem er kominn í slík fjárhagsvandræði á ekki 250 þús. kr. til þess að krefjast skipta yfir sjálfum sér. Niðurstaðan verður sú, og það sýna tölur frá Creditinfo, að í kringum 5.000 manns þurfa að sæta árangurslausu fjárnámi og þar láta kröfuhafarnir við sitja vegna þess að það svarar ekki kostnaði nema í 113 tilvikum að óska eftir því að bú manna verði tekin til gjaldþrotaskipta. Það er í langflestum tilvikum vegna vanskila á sköttum.

Hins vegar sýna dæmin að umsvifamiklir einstaklingar í atvinnulífinu sem síðar lentu í fjárhagsvanda vegna skuldsetningar hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta. Þessi úrræði munu (Forseti hringir.) a.m.k. nýtast þeim afar vel.