139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að gefa mér tækifæri til að vekja aftur athygli á þessu mikilvæga atriði sem ég endaði ræðu mína á. Það er mjög mikilvægt að dómsmála- og mannréttindaráðherra líti til þess að þeir einstaklingar sem búa við það viðvarandi ástand að kröfuvaktir — sem virðist vera orðin atvinnugrein — endurveki kröfur á þá og geri ítrekað á þá árangurslaust fjárnám, hafa kannski ekki efni á því að óska sjálfir eftir gjaldþroti vegna þess að það kostar 250 þús. kr. Ef ráðherrann getur útfært reglurnar varðandi þetta með sómasamlegum hætti ætti að vera hægt að taka fyrir þessa meinbugi sem virðast vera á málinu, eins og hv. þingmaður nefnir. Það eru mörg árangurslaus fjárnám en mjög fá gjaldþrot. Að hluta til held ég að það sé einnig vegna þess að þeir sem búa við slíka fjárhagsstöðu hafi einfaldlega litið fram á veginn og sagt: Ja, hvað á ég að gera? Fyrning getur verið eftir fjögur ár, tíu ár — greinarnar í lögum um aðför og gjaldþrotaskipti eru, ef ég man rétt, vel á annað hundrað. Það eru bara örfáir lögfræðingar hér á landi sem þekkja þennan lagabálk út og inn. Almenningur hefur í rauninni enga hugmynd um hvernig hann á að snúa sér í svona málum.

Nú þegar löggjöfin er komin í þennan farveg held ég að fólk muni ef til vill átta sig betur á stöðu sinni í málinu og muni kannski í framhaldi sækja þetta — ég leyfi mér að kalla þetta úrræði eða möguleika, að geta látið gera sig gjaldþrota og geta þá með einhverjum hætti tekist á við nýtt líf á nýjum grunni tveimur árum seinna.