139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að venjulegt fólk átti sig í rauninni ekki á stöðunni sem uppi er og átti sig ekki á því hvernig lögin í landinu virka, þ.e. aðfararlögin, gjaldþrotaskiptalögin og allur lagabálkurinn sem tengist fullnusturéttarfarinu. Mikið er talað um að svo og svo mörg þúsund manna séu gjaldþrota eða tæknilega gjaldþrota og það er auðvitað alveg rétt. Við vitum, ég og hv. þingmaður, að allt of margar fjölskyldur eiga í sárum vanda vegna skuldsetningar. En ég held að með framlagningu frumvarpsins hafi verið trommaðar upp gríðarlega miklar væntingar hjá þessu fólki. Þetta frumvarp mun ekki hjálpa því, a.m.k. ekki að óbreyttu. Það mun hjálpa ákveðnum einstaklingum sem við höfum rætt um fyrr í dag en hinn venjulegi maður mun væntanlega ekki fá neitt nema gríðarlegar breytingar verði.

Hv. þingmaður nefndi 250 þús. kr. trygginguna fyrir skiptakostnaðinum. Henni hefur ekki verið breytt. Vandi hins venjulega skuldsetta manns sem horfir til frumvarpsins sem einhverrar lausnar á vandamálum sínum er ekki leystur með því. Ég hefði talið að skynsamlegra væri þá að reyna að leysa vanda þess manns, venjulega mannsins, í tengslum við vinnslu málsins. Það er ekki gert og það þýðir að afleiðingarnar geta orðið þær að úrræðin sem hér eru sett fram nýtist fyrst og fremst útrásarvíkingum en ekki öðrum.