139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir spurningarnar. Hvað varðar þann fjölda sem mun óska eftir gjaldþrotaskiptum er ég sammála því að það verða kannski ekki mörg hundruð eða þúsund sem fara þá leið, m.a. vegna þess að reynsla annarra þjóða þar sem sambærileg réttindi hafa verið við lýði er sú að fólk reynir í lengstu lög að leysa málin og greiða upp skuldir sínar. Gjaldþrot er skipbrot og hindrun sem fólk fer ekki yfir nema það sé búið að reyna allar aðrar leiðir. Hins vegar óttast ég að þau skuldaúrræði sem við höfum innleitt fram til þessa séu einfaldlega ekki nógu öflug til að leysa vanda mjög margra heimila og af þeim sökum muni allt of margir fara þessa leið. Það eru þær áhyggjur sem ég hef af þessari réttarbót.

Hvað varðar það að of miklar væntingar hafi verið skapaðar með framlagningu þessa frumvarps vil ég ítreka enn og aftur að ég er algjörlega ósammála því. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er að fara í gegnum gjaldþrot og að það muni í sjálfu sér hamla lánaviðskiptum þeirra í fjármálageiranum, ekki bara í nokkur ár eftir gjaldþrotið heldur jafnvel áratugi.