139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um að greiðsluaðlögun er of mikið nálarauga fyrir þann fjölda heimila sem þarf á skuldaaðlögun að halda. Ég held og reyndar veit að þetta úrræði var ekki hugsað fyrir mörg þúsund heimili, heldur átti það fyrst og fremst að vera leið fyrir afar skuldsett heimili til að laga skuldastöðuna að greiðslugetu í stað þess að fara í gjaldþrot.

Nú erum við nýbúin að upplifa bankahrun og mjög mikinn forsendubrest sem við erum því miður að reyna að leysa með einhverju úrræði sem ég get ekki séð að sé hægt að hanna þannig að það taki við mörg þúsund heimilum og útskrifi þau á skömmum tíma, einhvers konar hraðbraut. Ég veit hins vegar að það er mikill vilji til þess að búa til skjótvirkara úrræði en þessi greiðsluaðlögun hefur verið. Ég held að innbyggð í þetta úrræði séu ákvæði sem gera það mjög seinvirkt eins og það að þurfa að ná samkomulagi um niðurfellingu á skuldum meðal allra kröfuhafa. Þeir eru oftast mjög margir. Síðan er mikilvægt að sjálfur lántakandinn sé sáttur við samninginn sem gerður er við alla kröfuhafana. Svona samningaferli er tímafrekt eins og við þingmenn vitum og höfum mátt upplifa í þinginu. Ég hefði miklu frekar viljað sjá einhvers konar almenna niðurfellingu skulda (Forseti hringir.) til að fækka þeim heimilum sem þyrftu að fara í gegnum greiðsluaðlögun.