139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[18:51]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum sem felur það í sér að Samkeppniseftirlitið fær víðtækar heimildir til að fara inn í fyrirtæki án þess að það hafi sannast að þau hafi á nokkurn hátt brotið af sér. Ég tel mjög varhugavert að auka heimildir Samkeppniseftirlitsins í ljósi þess að mér finnst Samkeppniseftirlitið ekki hafa höndlað vel þær heimildir sem það hefur haft, ekki hafa gert það af sanngirni. Ég mun koma að því síðar í máli mínu.

Það er auk þess varhugavert að stofnunin hafi bæði eftirlitsvald og dómsvald, geti bæði rannsakað og refsað. Ég ítreka að mér finnst mikilvægt að Samkeppniseftirlitið viðhafi sanngjörn vinnubrögð. Ég vil og hef lagt það til að eftirlitið sé meira upplýsandi og fyrirbyggjandi, notist við tilmæli frekar en stanslausar refsingar og sektir, t.d. að vekja athygli fyrirtækja á fyrri stigum á því að eitthvað kunni að vera athugavert í framgöngu þeirra á markaði og hvetja þau til að skoða málin og gera nauðsynlegar úrbætur.

Ef ég sný mér að því af hverju ég tel að Samkeppniseftirlitið hafi ekki höndlað valdheimildir sínar af sanngirni vil ég minna á dóm Samkeppniseftirlitsins gegn Bændasamtökum Íslands. Bændasamtök Íslands voru dæmd til greiðslu sektar vegna aðgerða sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum. Grunnur þessa máls var fyrirsagnir og fréttir í dagblöðum sem fjölluðu um búnaðarþing árið 2008. Þar voru ýmis ummæli misrétt höfð eftir formanni Bændasamtaka Íslands og það kemur fram í úrskurði eftirlitsins á þessum tímapunkti að við lestur þessara dagblaða hafi þótt ástæða til að skoða það mál nánar. Sú rannsókn tók einhvern tíma þar sem kafað var ofan í allar fundargerðir og tölvupósta Bændasamtaka Íslands og komist að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu með aðgerðum sínum miðað að því að hækka verð á búvörum.

Nú snerist þetta aðallega um það að formaður Bændasamtakanna sagði í umfjöllun sinni um gríðarlegar kostnaðarverðshækkanir, þar sem m.a. áburður hafði hækkað um 200%, að það mál yrði einfaldlega ekki leyst öðruvísi en að hækka verð til bænda. Í hnotskurn má segja sem svo að formaður Bændasamtaka Íslands hafi mátt tala um þessar gríðarlegu hækkanir á framleiðslukostnaði en þegar kom að því hvaða úrræðum þyrfti að beita til að takast á við þær, m.a. að hækka verð á afurðum, mátti hann ekki tala um þau. Þetta er dæmi um það sem Samkeppniseftirlitið hefur verið að bauka við.

Við höfum líka fleiri dæmi um Samkeppniseftirlitið og fyrirtæki innan landbúnaðarins, verðmerkingar á kjötvörum. Ég vil gera það aðeins að umtalsefni vegna þess að ég hef heimildir fyrir því hvernig að því var staðið gagnvart afurðastöðvum innan landbúnaðarins. Mér finnst það ekki alveg sanngjörn málsmeðferð og ætla því að vekja aðeins máls á því hér. Það mál átti sér langan aðdraganda og fór af stað í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið tók fyrirtækið Haga til skoðunar. Eftirlitið komst að því að svokallaðar forverðmerkingar væru lóðrétt samráð um verð en forverðmerkingar snúast einfaldlega um að útsöluverð fyrirtækja er merkt á kjötpakkningar áður en þær fara úr afurðastöð. Það er sem sagt samkomulag milli fyrirtækjanna á smásölumarkaði og afurðastöðvanna um eitthvert ákveðið verð sem á að vera á viðkomandi kjötvöru og þegar settur er miði á þá vöru með innihaldsupplýsingum og aukinheldur um notkunartíma, hvenær hún rennur út og annað slíkt, er til hagræðingar settar á þessar pakkningar upplýsingar um verð.

Í þessu máli játa Hagar á sig sök. Með því að gera það eru þeir um leið búnir að setja afurðastöðvar í landinu og kjötvinnslur í þá stöðu að þær eru að sjálfsögðu sem viðskiptaaðilar taldar hafa brotið lög líka þar sem Hagar eru búnir að viðurkenna á sig brot.

Ég ætla ekki að fjalla neitt nákvæmlega um það hvort þarna hafi verið framið lögbrot og ætla ekki að draga það neitt í efa. Ég vek hins vegar athygli á því að nokkru áður en þetta kom upp, eftir að rannsóknin átti sér stað, óskaði eitt fyrirtæki, kjötvinnsla og afurðastöð í landinu, eftir fundi með Samkeppniseftirlitinu, bauð forstjóra stofnunarinnar í heimsókn til sín ásamt nokkrum starfsmönnum og fór yfir alla ferla í fyrirtækinu, sýndi allt, hvernig þetta virkaði og annað slíkt. Þeir höfðu efasemdir um að þeir væru að gera rétt. Samkvæmt lögum væri þeim heimilt að framkvæma þessar verðmerkingar en vegna samkeppni við önnur fyrirtæki annað var þeim ekki stætt á öðru en að gera þetta þar sem allir gerðu þetta með sama hætti.

Á þessum fundi var óskað eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu um það hvernig best væri að standa að slíkum málum. Það var sem sagt beðið um leiðbeiningar. En það komu engar leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu í þessu máli. Í sumar fengu svo þessi fyrirtæki, kjötvinnslur og afurðastöðvar í landbúnaði, svokallað andmælaskjal, ígildi ákæru, vegna brota á samkeppnislögum. Þá kom upp ferli þar sem farið var að semja, „díla og víla“ um það hvernig ætti að borga slíkar sektir. Mönnum var gert það ljóst óformlega að yrðu fyrirtækin dæmd, fundin sek um þetta, gætu þau þurft að borga fleiri hundruð milljónir króna í sekt en látið í það skína að það væri hægt að lækka þær upphæðir verulega með því að semja og játa á sig sök.

Mér finnst þetta ákaflega undarlegar samningaumleitanir og þetta sjálfdæmi Samkeppniseftirlitsins um sektarfjárhæðir ekki sanngjarnt. Hótanir, ef ég má kalla þær það, voru um háar sektir ef ekki yrði samið, talað um að ef menn þyrftu að fara í dómsmál skyldu þeir átta sig á því að það væri dýrt og annað slíkt og það væri langbest fyrir þá að semja. Samningur felst alltaf í því að menn verða að játa á sig sök.

Fyrirtækin, afurðastöðvar í landbúnaði og kjötvinnslur, hafa á þessum mánuðum komið upp hvert á eftir öðru til að semja við Samkeppniseftirlitið um misháa upphæð, þau borguðu minnst sem komu fyrst. Ég er ekki sáttur við svona vinnubrögð. Mér finnst það minna á Stasi eða einhvers konar mafíutilburði að vinna svona og ekkert eiga skylt við heiðarlegar og eðlilegar samningaumleitanir. Þetta vald Samkeppniseftirlitsins og sjálfdæmi þess um þessar sektargreiðslur hafa kostað afurðastöðvar og kjötvinnslur í landbúnaði um 200 millj. kr. Staða þessara fyrirtækja var eins og annarra fyrirtækja í landinu mjög slæm áður og möguleikar þeirra til að borga bændum t.d. hærra verð eru algjörlega foknir út í veður og vind. Ég hef þess vegna miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt á þessum tímapunkti að veita Samkeppniseftirlitinu rýmri heimildir og gefa því tækifæri til að fara inn í fyrirtæki sem hafa ekki brotið af sér og jafnvel krefjast uppskiptingar á þeim.

Mig langar í lokin til að fjalla aðeins um ummæli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrr í umræðunni um þetta mál þar sem hann fjallaði í andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um mikilvægi þess að sameinast um að endurskoða samkeppnismál á búvörumarkaði. Talaði hann þar um mikilvægi þess að ráðast á og taka á því meini — eins og hann orðaði það — sem fyrirtæki sem hafa markaðsráðandi stöðu væru og það væri til að gæta hagsmuna neytenda. Þessi orð þingmannsins opnuðu augu mín fyrir því að ýmislegt býr undir við setningu þessara laga. Það skyldi þó aldrei vera að kratískir hatursmenn landbúnaðar sjái í hillingum möguleikana á því að ráðast að rótum Mjólkursamsölunnar, samvinnufélags í eigu íslenskra bænda, fyrirtækis sem þeim virðist vera í mikilli nöp við og áðurnefnt Samkeppniseftirlit hefur einnig haft stór orð um að mjólkuriðnaður sé einokunarhringur. Þetta eru mjög alvarleg ummæli og ekki sanngjarnt af Samkeppniseftirlitinu að láta þau falla en mig langar aðeins til að fara yfir að það er vitaskuld fjarri öllum sanni að þetta fyrirkomulag sem 700 einyrkjabændur í mjólkurframleiðslu, sem eiga mest í samvinnufyrirtæki þeirra, Mjólkursamsölunni, vinna eftir, sem heimilt er, skipulag vinnslunnar og annað, sé eitthvað óeðlilegt. Ég vil taka nokkur dæmi og segja ykkur frá því, bara til að hafa það á hreinu, að öllum er heimilt að setja á laggirnar kúabú, kaupa kýr og framleiðslukvóta og framleiða fyrir innanlandsmarkað eða sleppa því að kaupa kvóta og framleiða bara til útflutnings. Það standa allir jafnfætis gagnvart lögum í þessu efni.

Jafnframt er öllum heimilt án takmarkana að setja á laggirnar mjólkurvinnslu og selja afurðir innan lands úr mjólk sem framleidd er upp í framleiðslukvóta eða að taka svokallaða umframmjólk og selja hana úr landi. Þar standa allir jafnir gagnvart lögum. Annað er verðlagsnefndin sem verðleggur alla mjólk frá bændum inn á innanlandsmarkað. Þar standa öll þessi mjólkurbú jöfn gagnvart öflun hráefnis, bæði stór og smá. Bændur hafa því ekkert sjálfdæmi um þessa verðlagningu.

Ég leyfi mér að minna á að skipun þessar verðlagsnefndar er þannig að bændur, aðilar ríkisins og aðilar vinnumarkaðarins standa að henni. Aðilar aðrir en bændur hafa meiri hluta í þessari nefnd þegar kemur að ákvörðun um verð. Það er á verksviði hennar að verðleggja tiltekna vöruflokka sem hafa verið unnir úr meiri hluta mjólkurframleiðslunnar. Vinnslufyrirtækin hafa ekkert sjálfdæmi um verðlagningu á þeim vörum sem um ræðir og því er fjarstæðukennt að tala um einhvern einokunarhring. Hér hefur þvert á móti verið skapað kerfi þar sem komið hefur verið á jafnvægi milli neytenda og framleiðenda. Það er líka athyglisvert og mjög mikilvægt að þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir að valdið yfir markaðnum færist til örfárra smásölufyrirtækja. Á Íslandi eru eins og þið þekkið aðeins þrjú fyrirtæki með um 85% smásölumarkaðar í mjólkurvörum.

Ég tel mikilvægt að þetta komi hérna fram í ljósi orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Þetta fyrirkomulag hefur komið neytendum mjög vel, ég vil taka það sérstaklega fram, ég tel að það hafi orðið neytendum til hagsbóta og hafi einnig skapað stöðugleika hjá bændum.

Hvað varðar það frumvarp sem hér er til umræðu um breytingu á samkeppnislögum er ég á móti því. Eins og fram kom áðan tel ég að Samkeppniseftirlitið hafi ekki höndlað af sanngirni það vald sem það hefur til að rannsaka og dæma. Ég tel, eins og ég fór yfir áðan, að þessar stofnanir eigi að vinna meira með fyrirtækjunum, vera upplýsandi og leiðbeinandi, og að eðlilegast sé að notast við tilmæli á fyrstu stigum málsmeðferðar en ekki úrskurði og sektir.