139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[19:07]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir þetta andsvar. Ég skil afstöðu hans mætavel, það er mjög eðlilegt að velta því fyrir sér hvort þetta sé besta fyrirkomulagið. En ég var að ítreka að ég tel að þetta hafi verið til hagsbóta fyrir neytendur og ég veit að heildsöluverð mjólkurvara hefur á fimm árum hækkað 16% minna en neysluverðsvísitalan. Þú varst með tölur frá því fyrir tveimur árum, ekki rétt? Ég held að það væri mjög áhugavert að notast við tölur eins og staðan er í dag. Ég held að þessi munur sé mun minni en þú nefndir þó að ég sé ekki með það á takteinum eins og það er. (Gripið fram í.) En það er mjög mikilvægt að skoða þetta, þessar tölur hafa breyst mjög mikið á skömmum tíma.

Við getum deilt um það hvernig eigi að byggja upp landbúnaðarkerfið á Íslandi. Hins vegar er það svo að samvinnufélag eins og þetta er í eðli sínu hefur þann kost að það ber fyrir brjósti hagsmuni bæði neytenda og bænda. Þetta hefur skapað stöðugleika í íslenskri mjólkurframleiðslu sem er mjög mikilvægt. Ég vona að hv. þingmaður viti hvernig verðlagning fer fram hjá Mjólkursamsölunni þar sem verðlagsnefnd tekur til ákveðinna vörunúmera, þ.e. verð á nýmjólk, osti og smjöri og þessum helstu vörum er ákveðið af verðlagsnefnd. Aðrar vörur eins og ostar og annað slíkt þurfa að bera meiri álagningu þar sem þetta er í raun og veru niðurgreitt. Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að verðlagsnefnd hefur svolítið stýrt þessu neytendum til hagsbóta.