139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

kostnaður við nýjan Icesave-samning.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú hefjum við enn á ný umræðu um tillögu ríkisstjórnarinnar að lausn Icesave-deilunnar miklu. Ég held að það væri gott fyrir þingið að hæstv. forsætisráðherra útskýrði fyrir okkur í hverju meginmunurinn liggur, að mati hæstv. forsætisráðherra, á nýja tilboðinu og því gamla, að sjálfsögðu að frátöldum vaxtamuninum sem er gríðarlega mikill. Þetta er önnur spurningin: Hver telur hæstv. forsætisráðherra að sé meginmunurinn og meginástæðan fyrir því að það á, að hennar mati, að samþykkja nýtt Icesave-tilboð?

Af því að ég hef heyrt hæstvirtan ráðherra, og hæstvirta ráðherra í ríkisstjórninni, tala um að sparnaðurinn vegna lægri vaxta nemi 100 og eitthvað milljörðum króna er spurningin: Hvernig tekst mönnum að lækka töluna úr þeim 400–500 milljörðum kr. sem er augljós munur á því sem menn höfðu reiknað út að væri kostnaðurinn við fyrra tilboð og svo því sem haldið er fram að sé kostnaðurinn við þetta? Hvernig koma til þessir rúmu 100 milljarðar kr.? Hver eru rökin fyrir því að taka gengistryggða upphæð og afvaxta hana með 6% ávöxtunarkröfu? Ég sé ekki nokkur einustu rök sem geta mælt með þessu og í raun held ég að með því sé eingöngu verið að falsa tölur. Að vísu hefur þetta þá þau áhrif að tilboðið hið nýja lítur ekki út fyrir að vera eins miklu betra og það þó raunverulega er. Það væri gott ef hæstv. forsætisráðherra gæti útskýrt þessi tvö atriði fyrir okkur.

Nú endurtek ég spurningarnar. Annars vegar: Hvernig fær hæstv. forsætisráðherra út þessa rúmu 100 milljarða kr. úr 400–500 milljörðum kr.? Hins vegar: Hver er að mati hæstv. forsætisráðherra meginmunurinn á gamla samningnum og nýja tilboðinu að undanskildum vaxtamuninum?