139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

kostnaður við nýjan Icesave-samning.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Allt er þetta jafnþversagnakennt og fyrr. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hafi verið að reyna að halda því fram að vegna þess að ástandið er orðið svona miklu betra núna í framhaldi af því að gamla Icesave-samningnum var hafnað — það kom ekki þessi ísöld sem Samfylkingin talaði um. Þvert á móti telst Ísland núna vera traustari lántakandi en Spánn. Skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað jafnt og þétt frá því að gamla Icesave-samningnum var hafnað — séu aðstæður allar miklu betri núna til að semja. Spurningunni er samt ekki svarað um hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að færa rök fyrir því að munurinn á kostnaðinum sé ekki nema rúmir 100 milljarðar kr. þegar það er svart á hvítu ljóst að munurinn á því eins og þetta var reiknað á sínum tíma og því sem ríkisstjórnin heldur fram að sé kostnaðurinn núna nemur 400–500 milljörðum kr.

Samninganefndarmenn eru nefndir og þá er rétt að geta þess að Lárus Blöndal, fulltrúi í samninganefndinni, tók það fram á blaðamannafundinum þar sem samningurinn var kynntur (Forseti hringir.) að kostnaðurinn af gamla samningnum hefði orðið 479 milljarðar kr. þannig að það er ekki rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir um að samninganefndarmenn hafi haldið því fram að munurinn væri þetta lítill. (Forseti hringir.) Ég get svo sem tekið undir útreikninga hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar hvað það varðar.