139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011. Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því 2. umr. fór fram 7. desember síðastliðinn. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 3. umræðu nema samtals 9.042,1 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Þar munar mestu um vaxtabætur og sérstakar vaxtaniðurgreiðslur til heimila sem nema alls 7.900 millj. kr.

Tekjur hækka um 6.094 millj. kr. við 3. umr. en þar vegur hlutdeild fjármálastofnana í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum til heimila langmest eða 6 milljörðum kr. Afkoma ríkissjóðs í A-hluta verður neikvæð um 37,3 milljarða kr. Heildartekjur eru áætlaðar 472,5 milljarðar kr. og heildargjöld 509,8 milljarðar kr. Frumjöfnuður verður um 15,5 milljarðar kr.

Gerð er ein breytingartillaga á 5. gr. um hækkun lánsfjárheimilda um 6 milljarða kr. vegna áforma um vegaframkvæmdir.

Síðastliðið vor voru samþykkt á Alþingi lög þar sem heimiluð var stofnun félaga sem mundu byggja, annast rekstur og innheimta veggjöld vegna umræddra vegaframkvæmda á grundvelli sérleyfis milli þeirra og Vegagerðarinnar. Heimildin felur í sér að allur kostnaður við byggingu og rekstur veganna verði færður í bókhald félaganna. Upphafleg hafði verið gert ráð fyrir að fjármögnunin yrði með beinum samningum félaganna við lífeyrissjóði en nú er gert ráð fyrir að ríkissjóður afli þessa fjár á markaði með almennri sölu ríkisverðbréfa og endurláni til félaganna. Ríkissjóður mun þurfa að taka lán til að fjármagna framkvæmdirnar og endurlána það síðan aftur til félaganna. Það þýðir að í bókhaldi ríkissjóðs færist umrædd fjármögnun til skuldar sem lántaka en á móti færist hið veitta lán sem krafa á félögin.

Gerð er ein breytingartillaga við 6. gr. frumvarpsins, þ.e. að liður 4.11 falli brott. Heimildin er um að selja Mosfellsbæ jörðina Þormóðsdal á grundvelli 35. gr. jarðalaga, nr. 81/2004. Lagt er til að heimildin falli brott en ástæðan er ekki sú að fjárlaganefnd leggist gegn því að Mosfellsbær fái að kaupa jörðina heldur þarf ekki sérstaka heimild til að selja jörðina til sveitarfélagsins.

Ég mun skýra helstu breytingartillögur meiri hlutans.

Gerð er tillaga um að dregið verði úr aðhaldskröfu til umboðsmanns Alþingis og framlag hækkað um 6 millj. kr. Aukning hefur verið á kvörtunum og margvíslegum fyrirspurnum sem embættinu berast m.a. í kjölfar áfalla í fjármálakerfi landsins haustið 2008. Þá hafa umboðsmanni Alþingis verið falin aukin verkefni með lögum nr. 86/2010, þ.e. að hafa eftirlit með því að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglur sem settar eru á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í frumvarpi til laga um farþegagjald og gistináttagjald er gert ráð fyrir nýrri gjaldheimtu á ferðamenn með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Áætlað er að tekjur af þessum gjöldum muni afla ríkissjóði um 400 millj. kr. tekna á heilu ári. Gert er ráð fyrir að veitt verði samsvarandi framlög í fjárlögum til framangreindra verkefna og að 3/5 hlutar þeirra renni í framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nýjan sjóð sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið, en 2/5 hlutar verði veittir til þjóðgarða og friðlýstra svæða sem heyra undir umhverfisráðuneytið og forsætisráðuneytið. Reiknað er með að gjaldtakan hefjist 1. september 2011 og tekjur á síðasta ársfjórðungi næsta árs verði 94 millj. kr.

Í samræmi við þetta er gerð tillaga um 10 millj. kr. framlag til uppbyggingar í þjóðgarðinum á Þingvöllum og verndunar viðkvæmra svæða. Gert er ráð fyrir að á fyrsta ári sem þessi gjöld verða innheimt falli til samtals 14 millj. kr. tímabundinn stofnkostnaður frá tollstjóra og ríkisskattstjóra vegna innleiðingar gjaldtökunnar, þar af er 10 millj. kr. einskiptiskostnaður hjá ríkisskattstjóra vegna breytinga á tölvukerfum og útgáfu skýrslu og leiðbeiningar- og kynningarefnis og um 4 millj. kr. einskiptiskostnaður hjá tollstjóra vegna aðlögunar á tölvukerfum, auk auglýsinga og kynningarefnis.

Einnig er gert ráð fyrir 48 millj. kr. framlagi til framkvæmdasjóðs ferðaþjónustustaða á árinu 2011 vegna þessa.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Háskólaseturs Vestfjarða vegna samnings um meistaranám í haf- og strandveiðistjórnun.

Lagt er til að dregið verði úr aðhaldskröfu sem nemur 3,8 millj. kr. til Keilis, menntastofnunar á Ásbrú á Suðurnesjum. Aðhaldskrafan verður þá eins og til framhaldsskóla almennt. Heildarfjárveiting verður þannig 102,1 millj. kr. til náms á framhaldsskólastigi á Keili.

Að auki er gert ráð fyrir fjárveitingu til Lýðháskóla Íslands vegna 20 ársnemenda til viðbótar þeim 30 sem fyrir eru í tæknifræðinámi á háskólastigi sem fer fram á vettvangi Keilis samkvæmt samningi milli Keilis og Háskóla Íslands en þetta eru alls 18,8 millj. kr.

Í nýlegri Suðurnesjayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir fjármagni fyrir tvo sérfræðinga sem vinna eiga með menntastofnunum á Suðurnesjum, sveitarfélögum og menntamálaráðuneytinu að framtíðarsýn í menntamálum Suðurnesjamanna. Með því starfi verður lagður grunnur að langtímasamningi milli menntamálaráðuneytisins og Keilis og jafnframt að vexti og samstarfi Keilis, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag vegna RES-orkuskóla, annars vegar eru það 15 millj. kr. til að greiða skuld skólans við Háskólann á Akureyri og hins vegar 15 millj. kr. til að unnt sé að útskrifa núverandi nemendur skólans.

Gert er ráð fyrir að framlög til fornleifarannsókna aukist um alls 28,6 millj. kr.

Gerð er tillaga um að veita Bíói Paradís 10 millj. kr. framlag til reksturs. Bíó Paradís er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. Má þar nefna dreifingaraðila kvikmynda, alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík auk ýmissa smærri hátíða, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Kvikmyndaskóla Íslands, Kvikmyndafræðideild Háskóla Íslands, sérstakt átaksverkefni alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og menntasviðs Reykjavíkurborgar um kvikmyndalæsi fyrir börn og unglinga og fagfélög íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Auk þess á bíóið samstarf við ýmsa aðra aðila um sýningarhald og aðra kvikmyndatengda viðburði í húsinu.

Þá er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Grunnur elli- og örorkulífeyris var frystur á árinu 2010, þ.e. var ekki verðbættur. Gerð er nú tillaga um 150 millj. kr. verðbætur á grunn ellilífeyris og um 200 millj. kr. verðbætur á grunn örorkulífeyris. Miðað er við verðbólguspá ársins 2011.

Lagt er til að veittar verði 55 millj. kr. til Vinnumálastofnunar í aðgerðir til að bregðast við vanda ungs fólks í atvinnuleit. Í verkefninu felst að ungmennum á aldrinum 18–24 ára verði boðið starf, námstækifæri, námsþjálfun eða önnur verðug verkefni innan þriggja mánaða frá skráningu á atvinnuleysisskrá. Sértekjur stofnunarinnar hækka að sama skapi um 55 millj. kr. og eru því heildaráhrif þessara breytinga á útgjöld engin.

Gerð er tillaga um 180 millj. kr. hækkun á fjárheimild Atvinnutryggingasjóðs þar sem kostnaður sjóðsins hækkar í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Áætlað er að ákvæðið um tilfallandi veikindi í allt að fimm daga á tímabili virkrar atvinnuleitar geti leitt til 30 millj. kr. viðbótarútgjalda hjá sjóðnum. Þá er áætlað að ákvæði um hlutaatvinnuleysisbætur leiði til 40 millj. kr. kostnaðarauka en gert er ráð fyrir að það skilyrði að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður eigi eingöngu við um þá sem sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í fyrsta skipti 1. janúar 2011 eða síðar. Sú breyting að færa til dagsetninguna 1. maí 2008 til 1. mars 2008 leiðir til 110 millj. kr. viðbótarútgjalda frá því sem áður hefur verið áætlað vegna lengingar á rétti til atvinnuleysisbóta úr þremur árum í fjögur.

Gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til reksturs á sérhæfðri deild á Reykjalundi fyrir ungt fólk með heilaskaða. Þessi tillaga barst fjárlaganefnd frá heilbrigðisnefnd Alþingis og var við hana þverpólitískur stuðningur í báðum nefndum.

Lögð er til 25,3 millj. kr. lækkun á fjárveitingu til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands sem er til viðbótar við 39 millj. kr. lækkun sem gerð er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Alls er því lögð til 64,3 millj. kr. lækkun á fjárheimildum til stofnunarinnar sem samsvarar 10% niðurskurði.

Gerð er tillaga um að hagræðingarkrafa til Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróki verði samtals 168,5 millj. kr. svo stofnunin mæti ekki meiri samdrætti en sem nemur 10% frá gildandi fjárlögum.

Gerð er tillaga um að hagræðingarkrafa til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verði samtals 285,4 millj. kr. svo stofnunin mæti ekki meiri samdrætti en sem nemur 10% frá gildandi fjárlögum.

Virðulegur forseti. Þegar ég horfi á þessar tölur vil ég aðeins staldra við þær. Aðalatriðið varðandi Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er að miðað er við 10% aðhaldskröfu í stað 12% kröfu eins og rætt var um við 2. umr. en var kölluð aftur til 3. umr.

Gerð er tillaga um að hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja lækki hagræðingarkrafan á öllum sviðum stofnunarinnar um alls 119,4 millj. kr. Þetta er leiðrétting sem misfórst að taka með í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið þegar breytingar á tillögum vegna annarra heilbrigðisstofnana voru fluttar.

Lagt er til að fjárheimild til vaxtabóta hækki um 1.900 millj. kr. Árið 2009 og 2010 voru allar viðmiðunarfjárhæðir við greiðslur vaxtabóta hækkaðar tímabundið um 30% og var það hluti af ráðstöfunum stjórnvalda til að bæta stöðu skuldsettra heimila. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir að þessi hækkun gengi til baka vegna aðhaldsráðstafana. Með þessari tillögu er fallið frá áformunum í tengslum við nýtt samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Jafnframt er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á greiðslu almennra vaxtabóta þannig að þær komi í auknum mæli til móts við heimili með þunga skuldabyrði og lágar tekjur og miðlungstekjur. Er nú unnið að útfærslu þeirra breytinga.

Lagt er til að veitt verði 6.000 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár á nýju viðfangsefni fyrir sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna er fyrirhugað að nýtt tímabundið úrræði verði mótað til að greiða niður vaxtakostnað vegna fasteignalána. Gert er ráð fyrir að niðurgreiðslan verði almenn óháð tekjum en falli niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin mörk. Unnið er að nánari útfærslu á þessu fyrirkomulagi með það að markmiði að þetta nýja úrræði verði í gildi árin 2011 og 2012. Fyrirhugað er að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessa vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt nánara samkomulagi og er því gert ráð fyrir jafnmikilli hækkun tekna frá þeim aðilum á tekjuhlið frumvarpsins. Ráðstöfunin hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Lögð er til 180 millj. kr. lækkun á framlagi til liðarins Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta vegna aðhaldsaðgerða. Fyrirhugað var að lækka framlag til starfsemi Isavia ohf. um 300 millj. kr. við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Þar sem gera má ráð fyrir að lægri framlögum verði mætt að einhverju marki með hækkun þjónustugjalda félagsins og verðlagningar á vörusölu er nú lagt til að lækkun á framlagi nemi ekki 300 millj. kr. heldur 180 millj. kr. til að komist verði hjá því að hækka verð á innanlandsflugi umtalsvert.

Lagt er til að 175 millj. kr. framlag verði veitt til að gera ráðuneytum kleift að bregðast enn frekar við en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir á árinu 2011 í eftirfarandi málaflokkum:

Heilbrigðismálum allt að 60 millj. kr.

Til málefna barna og ungmenna allt að 40 millj. kr.

Vegna framhaldsskóla 50 millj. kr.

Til löggæslu og mannréttinda 25 millj. kr.

Frumvarpið er lagt fram með óbreyttri ráðuneytaskipan. Nú hafa ráðuneyti verið sameinuð, þ.e. heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti í eitt velferðarráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og dóms- og mannréttindaráðuneyti í eitt innanríkisráðuneyti. Eru breytingar gerðar á framsetningu þar um.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við breytingartillögu á þskj. 516 frá meiri hluta fjárlaganefndar þar sem gert er ráð fyrir að hækkun á safnlið verði alls 7 millj. kr. í stað 5,5 millj. kr.

Ég mæli einnig fyrir breytingartillögu frá þeirri sem hér stendur, Kristjáni Þór Júlíussyni, Höskuldi Þórhallssyni og fleirum. Breytingartillagan gengur út á að liðurinn Ýmis fræðistörf hækki um 2,5 millj. kr., þ.e. úr 16 millj. kr. í 18,5 millj. kr.

Ég mæli einnig fyrir breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011 frá þeirri sem hér stendur, Kristjáni Þór Júlíussyni, Höskuldi Þórhallssyni og fleirum þar sem gert er ráð fyrir að aðhaldskrafa á Háskólann á Akureyri verði lækkuð um 20 millj. kr. vegna námsframboðs og nemendafjölda. Aðhaldskrafan alls á stofnunina verði um 70 millj. kr.

Virðulegi forseti. Að síðustu mæli ég fyrir breytingartillögu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011 frá fjárlaganefndinni allri. Það er lagt til að liðurinn Kostnaður samkvæmt lögum um farsóttir, sóttvarnir og ónæmi hækki um 50 millj. kr. Lagt er til að þetta framlag, 50 millj. kr., verði veitt til að undirbúa og hefja seint á næsta ári eða eftir mitt næsta ár bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini í samræmi við ályktun Alþingis frá 10. júní 2008. Það er mér sérstakt gleðiefni að segja frá því að öll fjárlaganefndin sameinaðist um þetta mikilvæga forvarnamál.

Í greinargerð er rétt að vísa til ítarefnis sem lagt var fram með þingsályktunartillögunni frá því í júní sem flutt var af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og fleiri konum úr öllum flokkum og Hreyfingunni. Einnig er vísað til skýrslu ráðgjafahóps um mat m.a. á kostnaðarhagkvæmni þessa, álits sóttvarnaráðs og heilbrigðisráðuneytisins og þeirrar niðurstöðu heilbrigðisnefndar Alþingis að um verðugt og þarft verkefni sé að ræða.

Meginorsök leghálskrabbameins eru Human papilloma-veirur, HPV, og í 70% tilfella eru það þeir stofnar sem finnast. Niðurstöður greininga sýna að út frá ákveðnum forsendum virðist bólusetning gegn HPV vera kostnaðarhagkvæm miðað við aðstæður hér á landi og bólusetningin getur komið í veg fyrir um 1,7 dauðsföll á ári og vinnur um tæp 17 lífsgæðavegin lífár. 13 aðrir HPV-stofnar hafa fundist í leghálskrabbameinum og sterkum forstigsbreytingum. Benda niðurstöður rannsókna til að bóluefni sem er á markaði geti komið í veg fyrir 69% leghálskrabbameina og 53% alvarlegra forstigsbreytinga. Árlega greinast um 17 ný tilfelli leghálskrabbameins hér á landi og jafnframt verða um þrjú dauðsföll á hverju ári.

Frú forseti. Ég vil að lokum þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf. Einnig vil ég þakka starfsmönnum nefndasviðsins fyrir sérlega gott samstarf, lipurð og dugnað, ekki síst fyrir alla þolinmæðina sem þeir hafa sýnt fjárlaganefndarmönnum, einkum formanni nefndarinnar, allt frá því vinnan hófst við fjárlagafrumvarpið í byrjun október síðastliðinn.