139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að hugsa til framtíðarinnar þegar nútíðin er svo mikilli óvissu háð. Nú er það þannig að þessir fjármunir duga ekki til. Ég vil því ítreka þá yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn gaf, ef hv. þingmaður er búin að gleyma henni, þar sem stóð að rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum yrði tryggður. Það er ekki verið að gera slíkt með þessum fjárveitingum. Og það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það á eftir að gera samning en ég og hv. þingmaður vitum mætavel hvað stendur þeirri samningagerð fyrir þrifum, það vantar að setja aukið fjármagn inn í þann samning til að geta tryggt rekstrargrundvöllinn eins og ríkisstjórnin lofar á hátíðarstundum. Eins og ríkisstjórnin lofar á sérstökum fundum sem ætlaðir eru til að setja af stað leikrit og vekja vonir hjá íbúum Suðurnesja sem eru algjörlega innstæðulausar þegar til kemur. Það er gjörsamlega óásættanlegt að skuli ekki vera hægt að gefa frekari fyrirheit um þetta mikilvæga starf, vegna þess (Forseti hringir.) að það er ekki nóg að segja á hátíðarstundum að bæta þurfi menntun á Suðurnesjum og Suðurnesin (Forseti hringir.) þetta og Suðurnesin hitt þegar ekkert fylgir með.