139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er umhugað um menntamál Suðurnesjamanna eins og hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur en hún velur að tala sérstaklega um eina menntastofnun, sem er Keilir. Allar þrjár menntastofnanirnar þurfa að spila saman og vinna að þessu sameiginlega samfélagslega verkefni sem er að bæta menntunarstig á Suðurnesjum. (Gripið fram í.) Það þarf að gera með því að leggja drög að framtíðarsýninni. Það er ekki gert. Þannig er að Keilir fékk fjárveitingu fyrir 100 nemendur, Keilir valdi að taka inn fleiri nemendur, en það er þannig að fyrir allar menntastofnanir í landinu er gerður samningur fyrir fram um nemendafjölda. Það kemur engin menntastofnun eftir á og segir: Heyrðu, ég tók inn 200 nemendur, ég vil fá borgað fyrir þá. Um þetta verður að vera samkomulag og samningur. (Gripið fram í.) Við það verður staðið í Suðurnesjayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það verður unnið með öðrum hætti, virðulegi forseti, en þeim (Forseti hringir.) að setja óskilgreinda peninga í menntastofnanirnar. (Forseti hringir.) Verkefnin verða skilgreind og samningur gerður.