139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessar tvær spurningar verða í rauninni ekki sundur skildar. Þetta snýst á endanum um vinnubrögð og vinnubrögð þingsins. Hv. þingmaður kom nákvæmlega inn á það sem ég var að reyna að fiska eftir, að við viljum öll þessar framkvæmdir. Ríkisstjórnin hefur nánast ekki gert neitt til að hrinda af stað framkvæmdum á suðvesturhorninu. Loksins þegar hún ætlar að fara að gera er hún algjörlega óundirbúin í því hvernig hún eigi að gera það. Ég ætla ekki að álasa hv. þingmanni fyrir það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á sínum málum. Stóra málið er hins vegar það að vinnubrögðin innan fjárlaganefndar verða að breytast, ekki síst með tilliti til þess að fara af stað með framkvæmdir upp á a.m.k. 6 milljarða á næsta ári algjörlega óútfært. Menn eru þegar byrjaðir að rífast um hvort það verði 700 kr. gjald fyrir að keyra austur á Selfoss, menn eru ekki sammála um það. Það var alveg greinilegt innan fjárlaganefndar að menn voru ekki sammála um þá aðferðafræði sem hæstv. samgönguráðherra fjallaði um í viðtali um daginn. Við erum að fara af stað ófullbúin í þessa ferð, algjörlega ófullbúin. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta ekki tæk vinnubrögð.