139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það verður örugglega gaman þegar fjárlagaumræðunni lýkur miðað við sölutölurnar úr áfengisversluninni. Þar er hæstv. fjármálaráðherra orðinn allsráðandi. Þetta hefur væntanlega eitthvað með breytinguna að gera ef stjórnin var lögð niður og umboðið fært inn í ráðuneytið, það er mikill árangur af því.

Ég tek undir það eins og hæstv. ráðherra lýsir þessu að breytingin er mikil, úr 215 milljarða halla niður í 37 milljarða. Það er gleðilegt. Ég hef líka haft uppi ákveðnar efasemdir eða athugasemdir við það hvernig hallinn var búinn til og hvað fólst í honum. Ég vil að gefnu tilefni ítreka það að mér finnst að við þurfum að skoða stærðirnar sem þar voru inni. Ég er ekkert viss um að við höfum vitað í rauninni hvað við gerðum í öllum atriðum þegar við vorum að búa það til. Ég held að það hafi verið mikil ónákvæmni í tölunum sem unnið var með, ekki síst í ljósi stöðunnar sem var uppi.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan að þegar maður lítur yfir breytingarnar sem voru gerðar um mitt ár 2009 á fjárlagafrumvarpi sem unnið var í gríðarlegu hasti haustið eða rétt fyrir jól 2008, skoðar fjárlög ársins 2010 og frumvarpið núna 2011 þá er hagræðing sem er að sjá í ríkisrekstrinum borin uppi að stórum hluta af einskiptisaðgerðum þar sem við erum að hætta við framkvæmdir og annað því um líkt, endurreikningi bóta sem hafði verið ofáætlaðar, vaxta o.s.frv. Ég óttast að hinn raunverulegi sparnaður sem þarf að (Forseti hringir.) eiga sér stað sé allt of lítill.