139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Jú, ég bendi hv. þingmanni á að líta á textann sem við erum með í nefndaráliti okkar og vil sömuleiðis þakka fyrir ágætt samstarf í fjárlaganefndinni.

Ég nefni það, og nefndi það í minni framsögu, að í rauninni væri ógerlegt að ætlast til að Alþingi Íslendinga staðfesti þessi áform, því það hefði engar forsendur til þess miðað við það upplegg sem var í umræðunni um þessi efni í síðustu viku. Það eru gerbreyttar forsendur. Ég held að þetta kalli á að farið verði yfir málið alveg frá grunni.

Af því ég er kominn upp í þetta andsvar, og þakka hv. þingmanni fyrir það, vil ég líka gera að umtalsefni verkefnið sem ætlunin var að fara með í einkaframkvæmd upp á 40 milljarða eða guð má vita hversu há fjárhæðin átti að verða. Þá erum við sömuleiðis að velta fyrir okkur annarri sambærilegri framkvæmd sem er bygging Landspítala – háskólasjúkrahúss upp á 50, 60 milljarða miðað við þær tölur sem síðast voru uppi. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessum stóru verkum sem við erum að setja út þó svo það sé töluverður eðlismunur annars vegar á samgönguframkvæmdum og hins vegar byggingu húss. Þarna er um slíkar stærðir að ræða að ég óttast að við séum að skjóta út fyrir sviga þessum greiðslum sem um ræðir í ætt við þær hremmingar sem sveitarfélagið Álftanes lenti í og kölluð hefur verið „gríska leiðin“. Ég vildi gjarnan heyra í hv. þingmanni hvort hann gæti ekki upplýst mig um hugrenningar sínar sérstaklega varðandi þessi efni. Hin leiðin, varðandi uppleggið um samgönguframkvæmdirnar, mætti alveg eins hugsa sem svo og spyrja og kalla eftir svörum við því: Fyrst svona er komið varðandi samgönguverkefni, hvers vegna í ósköpunum gerir ríkissjóðurinn (Forseti hringir.) þetta ekki bara einn og sér?