139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[13:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur alltaf þótt þessi leið í sjálfu sér koma til greina til að flýta fyrir nauðsynlegum framkvæmdum, bæði framkvæmdanna vegna og því sem af þeim hlýst eins og umferðaröryggi og greiðari götur og allt þetta. En forsendurnar skipta að sjálfsögðu gífurlega miklu máli og þess vegna er nauðsynlegt að það komi fram hér í umræðu við 3. umr. fjárlaga og samþykkt laganna að lokum að útfærslan liggur ekki fyrir. Og þær forsendur sem lífeyrissjóðirnir voru að vinna með og fóru svo í fjölmiðla og ráðuneytið staðfesti á fundi fjárlaganefndar í síðustu viku að væru hvergi til nema í einhverjum hugmyndaskjölum frá lífeyrissjóðum og hugsanlega viðræðunum við Vegagerðina og ríkið á sínum tíma, þær hugmyndir hafa aldrei komið fyrir sjónir okkar og liggja þessari samþykkt ekki til grundvallar. Þvert á móti var það staðhæft við þingheim og nefndirnar á sínum tíma að útfærslan sem lægi til grundvallar hugmyndinni um einkaframkvæmdir á stofnbrautum og tvöföldun og breikkun og aðskilnað akreina á vegunum væri jafnræði, jafnræði íbúanna óháð búsetu, jafnt gjald, lágt gjald inn á allar stofnbrautir sem yrði innheimt með rafrænum hætti þannig að það væri ekki hlið. Í öðru lagi var því alltaf haldið til haga að um leið yrði að draga úr gjaldtöku og skattheimtu í eldsneytisgjaldinu af því að þarna væri verið að færa hluta af þeirri gjaldtöku yfir í notendagjöld, sem er í sjálfu sér ágæt hugmynd og ágæt leið til að fjármagna stórar framkvæmdir og brýnar. Það verður að koma því skýrt til skila að umræðan um veggjöldin hefur verið á villigötum af því að útfærslan liggur ekki fyrir og hugmyndir um kílómetragjald eru fráleitar og óútfærðar og eru ekki uppi á okkar borðum.

Hvað hitt varðar sem þingmaðurinn spurði um þá má taka undir mörg varnaðarorð hans um að áhættumat og fleira þurfi að liggja fyrir. En í það heila (Forseti hringir.) held ég að þetta geti verið góð leið til að koma stórum og miklum (Forseti hringir.) framkvæmdum á.