139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er augljóst að athugasemdir 1. minni hluta fjárlaganefndar varðandi þær hugmyndir sem nýjastar eru uppi um samgönguverkefnin eru sameiginlegar þeim sem þingmaðurinn lýsir hér í andsvörum sínum og ég geri því ráð fyrir því að menn gefi sér tíma til að fara yfir forsendur þessa. Engu að síður breytir það ekki þeirri staðreynd að í fjárlögunum er gert ráð fyrir 6 milljarða kr. upphafsfjárveitingu sem er endurlán frá ríkissjóði til þessara hlutafélaga þannig að grunnurinn er þar kominn og í sjálfu sér allt í lagi og án athugasemda. En ég spyr mig að því og það er atriði sem hlýtur að verða að ræða: Hvernig á að nýta þessa fjárveitingu og á hvaða forsendum á að hleypa verkinu í gang? Ég átta mig ekki á því, satt að segja, hvort með afgreiðslu þessar heimildargreinar í fjárlögunum sé þar með búið að opna á það fyrir framkvæmdarvaldið að fara í þetta verk á sínum forsendum. Þeirri spurningu er ósvarað. Og ef svo er áliti ég það mikið slys ef vilji Alþingis er sá að kanna þetta mál til þrautar áður en því er hleypt af stokkunum. Ég mundi álíta, miðað við orðræðu þingmannsins hér, að yrði þetta samþykkt óbreytt í þeirri mynd sem stjórnarmeirihlutinn leggur til þá hefði átt sér stað afgreiðsla sem væri í andstöðu við þau sjónarmið sem þingmaðurinn hefur talað fyrir.