139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er eitt sem ég vil spyrja hann sérstaklega um, þ.e. það sem kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns um að hann fagni sérstaklega þeirri framkvæmd sem mun eiga sér stað með gerð Vaðlaheiðarganga. Síðan kemur líka fram í nefndarálitinu gagnrýni á stofnun hlutafélaga. Nú vitum við, virðulegi forseti, að það er verið að vinna eftir svokallaðri samstarfsáætlun við AGS og ef menn ætla að fara í þessar vegaframkvæmdir verður að gera það með þeim hætti að stofna hlutafélög og taka þau fyrir utan ríkisreikning. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að við þurfum náttúrlega að fara að hugsa okkar ráð, hvað við erum komin með mikið fyrir utan efnahagsreikning ríkisins sem eru um 140 milljarðar eða eitthvað svoleiðis. Ég tek undir þær áhyggjur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar: Verði ekki hægt að fara í þessa framkvæmd öðruvísi en að stofna hlutafélög og taka þau út fyrir ríkisreikning, mundi hann styðja þessa framkvæmd eigi að síður?

Í öðru lagi: Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að talað væri um hóflegt veggjald, 500–600 kr. Nú kom það fram þegar sveitarstjórnarmanna voru að kynna drög að stofnun félags um Vaðlaheiðargöng að menn voru að tala um 700–800 kr. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður það of mikið að greiða 700–800 kr. eins og sveitarstjórnarmenn hafa sagt?

Svo vil ég víkja örlítið að breytingartillögum hv. þingmanns sem ég get að sumu leyti tekið undir, nokkrar. En ég er algjörlega mótfallinn einni þeirra, algjörlega, og það hef ég sagt hv. þingmanni áður. Hún er sú að lækka liðinn ófyrirséð útgjöld um 2 milljarða. Í ljósi þess vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki miklu minni líkur á því að fjárlög standist ef við höfum þennan lið ekki eins og hann er í dag, sérstaklega í ljósi allrar annarrar óvissu við fjárlagagerðina.