139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á að við viljum skattleggja hluta af stabbanum. Það er líka rétt að það er flóknara en að skattleggja hann í heild sinni. Það er í sjálfu sér einföld aðgerð og þá mundu koma um 80 milljarðar til ríkissjóðs, 40 milljarðar til sveitarsjóða.

Við höfum ekki alveg sömu stefnu. Við erum t.d. ekki á því að það hafi ekki átt við í fjárlögunum í fyrra og líka núna að sækja engar tekjur í skattstofna. Okkur hefur greint þar á. Við höfum sagt að við þær aðstæður sem við höfum verið í hefði átt að skattleggja að einhverju leyti til að auka tekjurnar. En við höfum þó sagt að það hafi verið gert langt, langt umfram það sem við hefðum viljað gera. Við erum líka með tillögur um að það verði t.d. ekki staðið við það að fresta ákvæðum um að persónuafsláttur fylgi verðlagi sem og að hann verði hækkaður um 3.000 kr.

Ég hafði einfaldlega hugsað mér þetta þannig að helmingurinn af greiðslunum eða þeim fjárhæðum sem einstaklingar eiga í sjóðunum yrði skattlagður núna og hinn helmingurinn við úttekt. Það liggur líka fyrir að ef við skattleggjum þetta núna fyrir fram munu útgreiðslurnar úr séreignarsjóðunum lækka við úttekt. Við erum kannski að mæta því á einhvern hátt þannig að við höfum farið bil beggja.

Stundum er erfiðara að vera miðjumaður en (Forseti hringir.) hægri maður sem boðar bara frelsi, frelsi, frelsi, en ég held þó að hv. þingmaður skilji vel tillögurnar.