139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við erum komin að leiðarenda við umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs, ársins 2011. Umræðan um það hefur tekið alllangan tíma, bæði á þingi og í nefndum þess, þ.e. frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram í byrjun október. Er u.þ.b. tveir og hálfur mánuður liðinn síðan Alþingi tók þetta frumvarp til meðhöndlunar og umræðu og hefur það tekið allnokkrum breytingum á þeim tíma þó að heildarramma frumvarpsins hafi ekki verið raskað svo nokkru nemi.

Það er búið að fara ágætlega yfir þær helstu breytingar sem lagt er til að verði á frumvarpinu milli 2. og 3. umr., þ.e. að samþykktar verði við lok umræðunnar núna. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að endurtaka það sem áður hefur verið sagt í þeim efnum hér en ætla þó að nefna örfá dæmi sem ég tel vert að nefna í þessu sambandi, stærstu breytingarnar, í hverju þær eru fólgnar og á hvaða sviðum þær eru.

Er þá fyrst að nefna verðbætur á grunn ellilífeyris og örorkulífeyris. Þar er samtals gerð tillaga um breytingar upp á 350 millj. kr. Verði þessar tillögur samþykktar á Alþingi er ætlunin að grunnlífeyririnn verði verðbættur á næsta ári, þ.e. að þeir sem eru á hinum strípaða lífeyri upp á 180 þús. kr. fái verðbætur á sín laun. Þetta er gríðarlega mikilvægt í því ástandi sem við búum hér við og kemur þeim best sem verst standa og hafa ekki úr öðru að moða en þessum tiltölulega lágu upphæðum.

Í öðru lagi er gerð tillaga um breytingu upp á 180 millj. kr. hækkun á fjárheimild til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna ýmissa breytinga. Þar er áætlað að ákvæði um tilfallandi veikindi í allt að 5 daga á tímabili virkrar atvinnuleitar geti leitt til 30 millj. kr. viðbótarútgjalda hjá sjóðnum. Síðan er gert ráð fyrir að ákvæði um hlutaatvinnuleysisbætur muni kosta um 40 millj. kr. til viðbótar því sem þegar er og í þriðja lagi er verið að flýta því að fjórða árið taki gildi, þ.e. að þegar fólk hefur verið lengur en þrjú ár á atvinnuleysisskrá fái það fjórða árið bætt, en upphaflega var ætlunin að það tæki gildi frá og með 1. maí á næsta ári. Því hefur verið flýtt til 1. mars og áætlað að það kosti u.þ.b. 110 millj. kr.

Ég vil sömuleiðis nefna fleiri háar upphæðir. Ákveðið hefur verið að leggja til að ríkið greiði út vaxtabætur að upphæð 1.900 millj. kr., en á árunum 2009 og 2010 voru allar viðmiðunarfjárhæðir við greiðslu vaxtabóta hækkaðar tímabundið sem nam um 30% hluta af ráðstöfunum stjórnvalda til að bæta stöðu skuldsettra heimila.

Í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum hér var síðan gert ráð fyrir að þessi hækkun gengi til baka, en með tillögunni sem hér liggur frammi er gert ráð fyrir að þetta komi inn aftur. Það er sömuleiðis hluti af því að reyna að bæta stöðu skuldsettra heimila og einstaklinga og er liður í þeim aðgerðum sem þar hefur verið gripið til og þær kynntar.

Þessu til viðbótar er lagt til að veittar verði 6 þús. millj. kr. tímabundið sem framlag í tvö ár til sérstakra vaxtaniðurgreiðslna. Er það gert í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar og lánastofnana sem hluti af þeim aðgerðum sem gripið verður til til hjálpar skuldsettum heimilum. Um það samkomulag segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun í samstarfi við aðila þessarar yfirlýsingar leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni nýja tegund tímabundinnar vaxtaniðurgreiðslu. Um er að ræða niðurgreiðslu vaxta í gegnum vaxtabótakerfið. Niðurgreiðslan er almenn og óháð tekjum, en fellur niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin mörk. Reiknað er með að útgjöld vegna þessa úrræðis verði allt að 6 milljarðar króna á ári og verði í gildi árin 2011 og 2012.“

Þetta er afar mikilvægur liður í því samkomulagi sem hefur náðst til að reyna að koma til móts við skuldsett heimili í kjölfar efnahagshrunsins og verður fjármagnað af fjármálafyrirtækjum, bönkum, sparisjóðum og lífeyrissjóðum, um allt að 6 milljarða kr. eins og áður hefur verið getið.

Að auki gerir meiri hlutinn tillögu um minni hagræðingarkröfu vegna starfsemi Isavia. Áður hafði verið gert ráð fyrir því að fyrirtækið yrði krafið um 300 millj. kr. aðlögun í rekstri en horfið hefur verið frá því. Nú er lagt til að lækkunin nemi ekki 300 millj. kr. heldur 180 millj. kr. og með fylgir að þessi ráðstöfun muni ekki leiða til þess að hækka þurfi umtalsvert verð á innanlandsflugi frá því sem nú er.

Önnur atriði sem vert er að nefna er að nú er gert ráð fyrir því í tillögum meiri hlutans að ráðuneyti mennta-, heilbrigðis-, félags- og dómsmála fái til ráðstöfunar sérstaka potta til að mæta ófyrirséðum útgjöldum á næsta ári og til að geta gripið til leiðréttinga vegna þeirra aðgerða sem verið er að fara í núna í ríkisfjármálunum og kunna að koma upp á næsta ári. Þar er gert ráð fyrir að til ráðstöfunar í menntamálaráðuneytinu verði um 50 millj. kr. pottur vegna nemendafjölda og verða gerðar tillögur um það af hálfu menntamálaráðherra þegar að því kemur að veita þessa fjármuni. 40 millj. kr. fara í samsvarandi pott í félagsmálaráðuneyti, 60 í heilbrigðisráðuneyti og 25 í dómsmálaráðuneytinu til að bregðast við frekari útgjöldum og leiðréttingum sem eflaust þarf að grípa til.

Það er rétt að vekja sömuleiðis athygli á því að meiri hlutinn gerir ráð fyrir því að engin heilbrigðisstofnun verði látin lúta hærri samdráttarkröfu en 10%, en við 2. umr. stóðu tvær stofnanir eftir með 12% hagræðingarkröfu. Hér er sem sagt gert ráð fyrir hámarkshagræðingarkröfu upp á 12%. Þá er um að ræða stofnanir á Sauðárkróki og í Þingeyjarsýslum sem þetta mun koma til góða og minni kröfur verða gerðar til hagræðingar þar en áður.

Sömuleiðis eru hér leiðréttingar á Heilbrigðisstofnuninni Vestmannaeyjum og rétt að geta þess í leiðinni að villur slæddust inn í skjal sem lá hér frammi í morgun, þskj. 516, varðandi framlög til heilbrigðisstofnana annars vegar og Heilbrigðisstofnunarinnar Vestmannaeyjum hins vegar, sem breyta ekki tölulegum staðreyndum, heldur þarf að leiðrétta það á sérskjali, þskj. 541, sem hefur verið lagt hér fram. Fyrri tillögur sem falla út af þessum sökum eru nr. 23 og 26 á þskj. 516. Ég endurtek að hér er ekki um efnislega breytingu eða upphæðir að ræða heldur fyrst og fremst leiðréttingar við yfirlestur.

Sömuleiðis gerir meiri hlutinn hér tillögu um 40 millj. kr. viðbótarframlag til lækkunar á húshitun á köldum svæðum. Það er hækkun á lið í iðnaðarráðuneytinu þar sem gert er ráð fyrir að fjárveiting verði 974 millj. kr. og horft þá til þeirra sjónarmiða að bæta orkunýtingu og sparnað og einfalda forgangsröðun sem grundvallast á að hitun íbúðarhúsnæðis gangi fyrir.

Í morgun var sömuleiðis rætt um eina af tillögum meiri hlutans, þá um framlag til RES-orkuskólans á Akureyri sem mér finnst rétt að gera hér grein fyrir. Meiri hlutinn gerir tillögu um að 30 millj. kr. framlag vegna RES-orkuskólans verði annars vegar nýtt til helminga við að greiða skuld skólans við Háskólann á Akureyri og hins vegar 15 millj. kr. til að unnt sé að útskrifa núverandi nemendur skólans, samtals um 30 millj. kr. Það er skemmst frá því að segja að ríkið mun þurfa að taka á sig þessa upphæð vegna reksturs þessa skóla, þ.e. við að ljúka þar námi, koma nemendum frá skólanum með sóma þannig að orðspor okkar versni nú ekki frá því sem verið hefur á þessu sviði í það minnsta og að gerð verði upp skuld RES-orkuskólans við Háskólann á Akureyri sem hefur auðvitað ekki burði til að tapa þessari upphæð á samstarfinu. Allt útlit er fyrir að RES-orkuskóli verði í það minnsta ekki rekinn með sambærilegum hætti og gert hefur verið til þessa og ekki útilokað að um síðasta veturinn sé að ræða í þessi starfsemi.

Önnur tillaga sem hér liggur fyrir og ég vil nefna sömuleiðis er sameiginleg tillaga fjárlaganefndar allrar um að veita 50 millj. kr. til þess að undirbúa og hefja á miðju næsta ári bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-sýkingu og leghálskrabbameini í samræmi við ályktun Alþingis frá 10. júní 2010. Þetta mál var lagt fram á Alþingi eins og ég sagði áðan og samþykkt í sumar, borið fram af þingmönnum allra flokka, þingkonum allra flokka, ég hef tekið eftir því að einhverra hluta vegna eru eingöngu konur flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu. Ég vek athygli á þessu máli því að ég tel um mjög gott mál að ræða, bæði út frá heilbrigði, þ.e. að bólusetja gegn leghálskrabbameini og HPV-sýkingu, og ekki síður fjárhagslega. Þarna er lagður grunnur að framtíðinni, jafnt að forða mannslífum og draga úr útgjöldum til heilbrigðismála sem annars kæmu til ef ekki yrði gripið til þessara ráðstafana. Ég fagna því að fjárlaganefnd skuli leggja þetta mál fram sameiginlega og vera einhuga í afstöðu sinni til þessa máls. Það er merk yfirlýsing af hálfu fjárlaganefndar að taka þetta mál upp á arma sína og gera það að sínu.

Önnur tillaga sem hér liggur hér fyrir og ég vil nefna sömuleiðis, sameiginleg tillaga fjárlaganefndar allrar, er að veita 50 millj. kr. til þess að undirbúa og hefja á miðju næsta ári bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-sýkingu og leghálskrabbameini í samræmi við ályktun Alþingis frá 10. júní 2010. Þetta mál var lagt fram á Alþingi eins og ég sagði áðan og samþykkt í sumar, borið fram af þingmönnum allra flokka, þingkonum allra flokka, ég hef tekið eftir því að einhverra hluta vegna eru eingöngu konur flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu. Ég vek athygli á þessu máli því að ég tel um mjög gott mál að ræða, bæði út frá heilbrigði, þ.e. að bólusetja gegn leghálskrabbameini og HPV-sýkingu, og ekki síður fjárhagslega. Þarna er sömuleiðis lagður grunnur að framtíðinni, jafnt að forða mannslífum og draga úr útgjöldum til heilbrigðismála sem annars hefðu komið til ef ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana. Ég fagna því að fjárlaganefnd skuli leggja þetta mál fram hér sameiginlega og vera einhuga í afstöðu sinni til þessa máls. Það er merk yfirlýsing af hálfu fjárlaganefndar að taka þetta mál upp á sína arma og gera það að sínu.

Hér hefur talsvert verið rætt um breytingartillögu um vegaframkvæmdir. Breytingartillaga á þskj. 519 hljóðar m.a. svo, með leyfi forseta:

„b. Við bætist nýr liður, svohljóðandi:

2.2 Hlutafélaga sem komið verður á fót á grundvelli laga nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, allt að 6.000 m.kr.“

Lögin sem vísað er í í þessu sambandi, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sem samþykkt voru á Alþingi í vor gera ráð fyrir framkvæmdum annars vegar á Suður- og Suðvesturlandi og hins vegar á Norðurlandi og er ekki alveg um sambærilegar framkvæmdir að ræða, þ.e. aðkomu ríkisins að öllu leyti. Í fyrsta lagi varðandi framkvæmdir á Suður- og Suðvesturlandi er gert ráð fyrir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sé heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem verði alfarið í eigu ríkisins með hlutafé upp á 20 millj. kr. og er ætlað til ákveðinna tiltekinna framkvæmda sem tilteknar eru í 1. gr. laganna.

Í öðru lagi, og 2. gr. laganna, er hins vegar heimild til Vegagerðarinnar til að taka þátt í stofnun hlutafélags. Þar er Vegagerðinni heimilt að eiga allt að 51% hlutafjár í félagi til að gera jarðgöng undir Vaðlaheiði, það sé hámarkið sem Vegagerðinni er heimilt að eiga í því félagi.

Í upphafi var gert ráð fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að þessu máli, þ.e. þeir mundu sjá um að tryggja fjármagn í þessar framkvæmdir. Það var rætt í umræðum um þetta lagafrumvarp hér í vor og í greinargerð með frumvarpinu var í einhver skipti talað um mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir kæmu þarna að.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að ekki náðist saman með lífeyrissjóðunum um fjármögnun þessa verks. Lífeyrissjóðirnir voru ekki tilbúnir til að fjármagna það á þeim kjörum sem ásættanlegt þótti að taka og því gengu þeir frá því verki. Það er reyndar ekkert í lögunum sem kveður á um að lífeyrissjóðirnir þurfi að koma að fjármögnun þessa verks svo það sé skýrt. Lögin takmarka það ekki að aðrir komi að þessu verki, hvorki að ríkið geri það né aðrir aðilar en lífeyrissjóðirnir. Það var hins vegar afar mikilvægt á sömu stundu, þeirri sömu mínútu sem það var tilkynnt að lífeyrissjóðirnir hefðu horfið frá þessu verki og ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til þeirra hvað þetta varðar, að strax lægi fyrir að það yrði tryggt að af framkvæmdunum yrði og séð til þess að þær færu af stað. Það var afar mikilvæg yfirlýsing og nauðsynleg strax í kjölfar þess að lífeyrissjóðirnir hrukku úr skaftinu hvað þetta varðar. Fyrir því verður séð.

Það er tryggt að farið verður í þessar framkvæmdir með þeim breytingartillögum sem hér er verið að samþykkja, og ég vona að Alþingi allt samþykki, hvað sem síðar kann að verða um aðkomu annarra að þessu verki. Við skulum ekki útiloka að einhverjir aðrir en ríkissjóður eða lífeyrissjóðirnir komi að verkinu, einhverjir aðrir aðilar koma hugsanlega að því að framkvæma verkið og sjá um reksturinn sömuleiðis. Þessi verk þarf að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu, þetta eru umfangsmikil og stór verk, og við skulum ekki heldur útiloka að aðrir aðilar komi að þessu en ríkið í framtíðinni þó að við munum tryggja að þessi verk fari af stað. Það mátti ekki koma neitt hik á menn í því máli og þess vegna er frá þessu gengið með þessum hætti. Aðalmálið er að hvergi verði hvikað frá þeim hugmyndum. Hér er vissulega um háar upphæðir að ræða, 6 milljarða kr., til að leggja upp með á næsta ári en það breytir því ekki að í það verður farið og frá því gengið að þær muni hefjast sem allra fyrst. Vonandi er stutt í að fyrstu framkvæmdirnar hefjist.

Virðulegi forseti. Við getum rætt um ýmsar breytinga við 3. umr. sem hér hafa komið fram. Þær eru margar smáar og margar stærri. 9 milljarða kr. útgjaldaaukning milli umræðna þykir að sjálfsögðu há, en inni í þeirri tölu er 6 milljarða kr. sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem fjármagnaðar eru af fjármögnunarfyrirtækjum, bönkum, sparisjóðum, lánafyrirtækjum og lífeyrissjóðunum, sem fer út í gegnum vaxtabótakerfið en er ekki greiðsla úr ríkissjóði með þeim hætti sem við erum vön að verði.

Aðrar breytingar sem ég hef talið upp snúa fyrst og fremst í eina átt, þ.e. inn í heilbrigðiskerfið og bótakerfið, þ.e. bæta grunnlífeyri, ellilífeyri, örorkulífeyri, inn í Atvinnuleysistryggingasjóð, og inn í heilbrigðiskerfið. Það er andinn í stærri breytingunum sem hér eru lagðar til.

Aðalatriðið er samt í mínum huga þegar við ræðum um fjárlagafrumvarp, þetta fjárlagafrumvarp sem önnur, er að við reynum að leggja mat á það hvort við förum fram á við, stöndum í stað eða sígum aftur á bak. Það er heildarmyndin sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið þótt við getum deilt um tíma og haft mismunandi áherslur á það hvernig við röðum til inni í þeim ramma sem við höfum, þeirra fjármuna sem við ætlum að reka ríkið á og þeirra tekna sem við ætlum að afla okkur. Aðalatriðið er þessi heildarmynd og það á hvaða vegferð við erum.

Við höfum áður farið yfir það hér við 1. og 2. umr. þessa frumvarps sem og umræðu um frumvarp til fjáraukalaga yfirstandandi árs sem varð að lögum fyrir nokkrum dögum að okkur miðar svo sannarlega áfram. Okkur kann að greina á um hvers vegna það er, hvaða ástæða er fyrir því, hvort það er einhverjum að þakka eða einhverjum að kenna að komast ekki hraðar áfram, en ég held að við getum hins vegar öll verið sammála um að skref hafi verið stigið í rétta átt varðandi ríkisfjármálin.

Þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi frá 1. umr. til dagsins í dag bera þess sömuleiðis merki að þeir sem höfðu hugsanlega í hyggju að kollvarpa frumvarpinu með einhverjum hætti eða stöðva það hafa ekki haft erindi sem erfiði, sem betur fer.

Við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins sem við erum að fjalla um núna kemur í ljós að tiltölulega litlar breytingar eru á heildarmyndinni, á tekjum og útgjöldum. Áætlanir um frumjöfnuð haldast innan skekkjumarka frá því að lagt var af stað með frumvarpið 1. október og við höldum dampi, þeirri áætlun og þeirri stefnu, sem við ætluðum okkur við upphaf þessa máls sem er afar mikilvægt. Við erum að vinna eftir efnahagsáætlun okkar sjálfra í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og við önnur lönd. Því er afar mikilvægt, bæði fyrir okkur sjálf, fyrir okkur inn á við og fyrir trúverðugleika okkar erlendis, að við höldum þeirri áætlun sem mest við getum. Auðvitað hafa orðið einhverjar breytingar en miðað við það ástand og þær umræður sem hér hafa verið, bæði á þingi og í samfélaginu, eru þær tiltölulega litlar og flestar á einu sviði, til leiðréttinga og bóta að mörgu leyti meðan við höfum haldið okkar striki á öðrum vettvangi.

Við 1. umr. var lagt upp með gjöld í ráðuneytum upp á 548 millj. kr. Við erum hér við 3. umr. með tölu sem er 3,6 milljörðum kr. lægri, 544,5 milljarðar kr. Við reiknum með að greiða úr ríkissjóði til reksturs málaflokka ráðuneyta 409 millj. kr. sem er rúmum 4,5 milljörðum kr. undir því sem lagt var af stað með í upphafi, þ.e. 1. október þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Þá var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði um 1% af þjóðarframleiðslu og næmi um 16,8 milljörðum kr. Nú við 3. umr. og eftir alla þá vinnu sem farið hefur fram á Alþingi og í nefndum þingsins liggur fyrir að frumjöfnuður verður um 15,5 milljarðar kr., rétt tæpt prósent af þjóðarframleiðslu. Með orðum höfum við náð að halda sjó með það frumvarp sem lagt var af stað með í upphafi. Það hafa orðið innbyrðis breytingar á því, innbyrðis breytingar milli málaflokka, en heildarmyndin er sú sama. Ramminn hefur haldið að langstærstum hluta og það er mikilvægt. Það er afar mikilvægt eins og ég sagði hér áðan fyrir okkur innan lands sem og varðandi trúverðugleika okkar erlendis.

Mikil átök hafa orðið um þetta fjárlagafrumvarp í samfélaginu frá því að það var lagt fram. Við höfum öll orðið vör við það og tekið þátt í þeirri umræðu. Það voru mikil átök og skoðanaskipti inni á Alþingi og í nefndum þess og það ber ekki að vanþakka þá umræðu sem hér hefur farið fram, ekki síst í fjárlaganefnd þar sem mikilli og gagnrýninni umræðu hefur verið haldið uppi á fjárlagafrumvarpið sem hefur að mörgu leyti orðið til þess að skapa þar frjóa umræðu um málið og leitt til bærilegri niðurstöðu fyrir flesta aðila og leiðréttingar á ýmsum málum sem þurftu leiðréttingar við.

Þannig lagað hefur umræðan skilað miklu inn í þessa vinnu og orðið til þess að gera það fjárlagafrumvarp betra en það var í upphafi, tryggara, þéttara og skotið sterkari og fleiri stoðum undir það en var.

Heildarmyndin heldur sér. Ramminn heldur sér innan allra skekkjumarka. Áætlunin stendur. Við erum á plani við það sem lagt var upp með og það er meiri árangur, virðulegi forseti, en sá sem hér stendur þorði að vona við upphaf þessarar vegferðar á miðju ári 2009, meiri og betri árangur en ég þorði að vona og bjóst við að við mundum ná ef þetta fjárlagafrumvarp verður að lögum á Alþingi á morgun.

Eins og ég sagði áðan hefur umræðan verið gagnrýnin og oft og tíðum óvægin úti í samfélaginu. Í fjárlaganefnd hefur hún verið uppbyggileg. Þar hafa menn tekist á, stundum býsna fast og hart, en þar hafa menn tekist á og umræðan hefur verið uppbyggileg og lausnamiðuð. Mér hefur fundist, eins og ég hef áður sagt hér, að í fjárlaganefnd hafi valist fólk sem ætlar sér að ná árangri, ætlar sér að ná þeim markmiðum sem okkur hafa verið sett og ég þakka öllum þeim fjárlaganefndarmönnum sem hafa komið að þessu mikla verki. Við höfum haft fjárlagafrumvarpið í höndunum í tvo og hálfan mánuð, 75 daga, og rætt það nánast á hverjum degi fram og til baka alla virka daga og sumar helgar, bæði innan nefndarinnar og úti í samfélaginu. Vil ég bera þeim öllum bestu þakkir fyrir þá niðurstöðu og þá vinnu sem skilar sér hér, í tillögum meiri hluta og þeim tillögum minni hluta sem hér liggja fyrir og þeim sameiginlegu tillögum sem við höfum lagt fram.

Ég þakka líka starfsfólki nefndasvið fyrir ómetanlega aðkomu þess að málinu. Ég held að fáir geri sér grein fyrir því utan þessara veggja sem við störfum innan hve gríðarlega mikla vinnu starfsmenn Alþingis leggja á sig við frumvarp af þessu tagi og hve mikil þekking og færni er til á meðal starfsmanna þingsins á málum sem við erum hér með. Færi ég þeim mínar bestu þakkir fyrir samstarfið við gerð þessa fjárlagafrumvarps við lokaumræðu þess í dag.