139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, varaformanni fjárlaganefndar, málefnalega og góða ræðu og ágæta yfirferð. Ég er að vísu ekki sammála upplegginu í því að draga upp þá mynd að þetta hafi allt gengið samkvæmt áætlun. Eins og ég kom að í framsögu minni og andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, er þetta spurning um það hvernig niðurstöðurnar eru fengnar.

Af því að hv. þingmaður nefndi það áðan að einhverjir hefðu viljað stöðva frumvarpið og koma í veg fyrir að það yrði afgreitt eða því breytt, þá var ég í þeim hópi sem settu fram óskir um að frumvarpinu yrði umbylt eins og það var lagt fram. Við sjáum þess stað í breytingartillögunum sem gerðar eru við 2. og 3. umr. að það eru lagðar til breytingar á útgjaldahliðinni upp á 10 milljarða sem að mínu mati, ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni, eru á sumum sviðum til stórra bóta hvernig horfið er frá ákveðnum áformum.

Til viðbótar þessu sem við sjáum langar mig að heyra frá hv. þingmanni hugleiðingarnar sem ég varpaði fram um þessa duldu þætti, þennan óuppgerða halla sem við höfum hér og þar í ríkisrekstrinum sem ekki er tekið á í fjárlögunum. Niðurstaðan eins og við sáum í fjáraukanum af góðri afkomu miðað við fjárlög á árinu 2010 skýrist að stærstum hluta af tveimur aðgerðum, annars vegar 19 milljörðum á tekjuhliðinni sem er einskiptisaðgerð og síðan 20–25 milljörðum á gjaldahliðinni sem er endurreikningur vaxta. Þetta er eitthvað sem við eigum von á á árinu 2011. Við erum í kröppum dansi (Forseti hringir.) og mig langar að heyra í hv. þingmanni varðandi þessa þætti sem eru utan áætlunarinnar núna.