139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Fyrir það fyrsta varðandi breytingar sem hafa verið gerðar á fjárlagafrumvarpinu, svo ég endurtaki það einu sinni enn. Þær eru innan skekkjumarka sem lagt var upp með í upphafi. Heildarmyndin stendur og vel það. Ég vitna í það hvernig lagt var af stað við 1. umr. frumvarpsins 1. október síðastliðinn varðandi heilbrigðismálin sem hafa mikið verið í umræðunni. Þar voru útgjöld til heilbrigðismála 103 milljarðar 98 millj.

Við 3. umr. í dag erum við með útgjöld til heilbrigðismála upp á 104 milljarða 474 milljónir. Er verið að kollvarpa einhverju í heilbrigðiskerfinu, úthluta til heilbrigðismála hvað þetta varðar? Nei, það er ekki verið að gera það. Það er verið að gera ákveðnar skipulagsbreytingar. Breytingar fyrir 3. umr. eru upp á 1 milljarð í velferðarkerfið, félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið. Það er ekki verið að kollvarpa neinu hérna. Þess vegna ítreka ég það að þeir sem héldu og trúðu að þeir gætu lagt frumvarpið að velli í byrjun október, þeim hefur ekki tekist vel upp. Hins vegar hef ég tekist á við að verja það. Það er lagt fram með sömu heildarmynd og lagt var upp með í upphafi.

Varðandi niðurfellingu skulda RES-orkuskólans, eins og hv. þingmaður nefndi, þá er ekki verið að fella niður skuldir RES-orkuskólans, það er ekki gerð tillaga um það. Hins vegar blasir við að eftir langvarandi erfiðleika í rekstri skólans, því miður, horfir til þess að skólinn muni ekki verða rekinn í því formi sem hefur verið hingað til, nema hugsanlega þetta ár. Þar mun ríkissjóður þurfa að koma að til að útskrifa nemendur og sjá til þess að þeir ljúki námi eins og gert hefur verið í fleiri skólum að undanförnu. Til viðbótar að skólinn geri upp skuld sína við Háskólann á Akureyri sem eru í ríkiseigu og er opinber háskóli. Hann mun ekki geta tekið því tapi sem hugsanleg niðurlagning RES-orkuskólans mun hafa í för með sér hvað þetta varðar. Það er ekki verið að fella niður skuldir skólans, löng leið frá því.