139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir orð hv. þingmanns um að það megi ýmislegt gott læra af hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og það megi að mörgu leyti taka hana sér til fyrirmyndar, bæði í störfum á þingi sem og í öðru því sem hún hefur góða og haldbæra þekkingu á. Ég mun taka þessari ábendingu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar vel og hafa hana mér til fyrirmyndar á ýmsum sviðum hér eins og vonandi fleiri.

Varðandi Sjúkratryggingar Íslands sem hv. þingmaður nefndi sem eru með gríðarlegan halla, þá minnir mig, ef ég man rétt, að sú tala hafi verið rúmir 2 milljarðar á yfirstandandi fjárlagaári, eitthvað á þriðja milljarð sem var skilið eftir í halla þá, sem er auðvitað gríðarlegt vandamál við að eiga. Það verður auðvitað gripið til ráðstafana af hálfu stjórnar Sjúkratrygginga til að reyna að ná niður þeirri tölu sem þarna er umfram það sem áður hefur verið gert.

Hvernig nánari útfærslu á því verður háttað af hálfu stjórnar Sjúkratrygginga Íslands kann ég ekki skil á við þessa umræðu. Ég get gjarnan leitað eftir þeim hugmyndum og uppfrætt hv. þingmann og aðra sem hafa áhuga á að afla sér upplýsinga um það. En það er mjög mikilvægt að þarna verði breyting á, enda er þetta eini liðurinn sem er umfram, þ.e. eina ráðuneytið sem fer umfram í rekstri. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga er heilbrigðisráðuneytið eina ráðuneytið sem fer umfram áætlanir og það er eingöngu vegna umframkeyrslu Sjúkratrygginga Íslands. Það er verkefni sem bíður okkar að taka vel til í og ná utan um.