139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hv. þingmaður segir að þegar aðstæður skapist til að greiða tryggingagjaldið til baka muni það verða gert. Ég tel, virðulegur forseti, að nú þegar hafi myndast svigrúm til að fara að gera það. Nú rennur hluti af tryggingagjaldinu beint í ríkissjóð en ekki til að láta fyrirtækin fjárfesta og búa til störf. Það kom bersýnilega í ljós við afgreiðslu fjáraukalaganna um daginn að fjárfestingin hafði einmitt dregist saman um 25% sem er gríðarlega alvarlegt mál og getur ekki gengið til lengdar. Við verðum að koma hagvextinum í gang og ein af forsendum þess er lækkun tryggingagjaldsins.

Þess vegna ítreka ég þessa spurningu til hv. þingmanns: Hvenær telur hv. þingmaður að komið sé svigrúm til að skila fyrirtækjunum tryggingagjaldinu til baka? Ég tel svo vera núna því að nú renna upp undir 3 milljarðar kr. í ríkissjóð út af ofteknu tryggingagjaldi sem er það sem sveitarfélögin eru klárlega að greiða þar sem ríkisvaldið færir tekjur frá sveitarfélögum til sín og hælir sér síðan af því að hafa náð einhverjum árangri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annað sem hann kom inn á í ræðu sinni, ég tók sérstaklega eftir því, að í frumvarpinu væri jöfnuður milli hálaunafólks og láglaunafólks og það allt saman. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um skattstefnuna, ég fer yfir hana í ræðu minni á eftir. Það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar, forstöðumenn heilbrigðisstofnananna tveggja sem hv. þingmaður nefndi hér komu, bæði frá Sauðárkróki og Þingeyjarsýslu. Það kom fram að þessir aðilar eru búnir að ganga mjög nærri fólkinu sem er m.a.s. bara með 150 þús. kr. í laun á mánuði, það fær ekki lengur greitt aukalega þótt það vinni í kaffitíma eða matartíma til að ná hagræðingu. Síðan vitum við tveir, við hv. þingmaður, um beiðnir í fjárlaganefnd um eitt stöðugildi upp á 10–11 millj. kr. Telur hv. þingmaður ekki að það þurfi að fara að taka almennilega á þessu? Mér finnst mjög margir og margar stofnanir hafa sloppið við að fara í einhverja hagræðingu af viti miðað við þessar heilbrigðisstofnanir sem hafa gert þetta með þessum hætti.