139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek þessari áskorun hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarson vel og mun fylgja henni eftir. Eins og hann gat réttilega um er þetta með viðkvæmari málaflokkum sem er að finna í fjárlögum og kemur inn á heilsuöryggi tugþúsunda Íslendinga sem þurfa á lyfjum að halda. Bent hefur verið á að hægt sé að ná margvíslegri hagræðingu fram í lyfjainnkaupum og nefnt hefur verið að fara í einhvers konar samvinnu við nágrannaþjóðir okkar í innkaupum en ég hef enn ekki séð mótaðar leiðir eða tillögur í þeim efnum, þær eru enda mjög umdeildar, ekki síst á meðal þeirra sem nú þegar flytja lyfin inn.

Það er mjög erfitt og jafnvel ósanngjarnt að slá hér af margvíslegum kröfum og við verðum að horfa til þess hvort við viljum yfirleitt greiða fyrir sum lyf. Nú horfum við til breytinga sem lúta að leghálskrabbameini og bólusetningu á 12 ára stúlkum sem samþykkt var nýverið af kvenþingmönnum hér og var sköruglega gert. Þar verjum við 50 millj. kr. á næsta ári að ég held, og kostnaður verður nokkur hundruð milljóna á hverju ári hér eftir. Svar mitt við þeim peningum er já. Ég held að þetta borgi sig á löngum tíma og gott betur, klárlega ekki bara í peningum heldur líka í lífi, því mikilvægasta sem við eigum. Sparnaður í þessum geira getur eins og víða annars staðar komið í bakið á okkur þegar til lengri tíma er litið.