139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu hans áðan. Það er eitt sem ég vil fá svör við frá hv. þingmanni í nefndaráliti og tillögum sjálfstæðismanna, það er um skattamál.

Í kafla í nefndaráliti fulltrúa sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd segir, með leyfi forseta:

„Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á skattkerfinu frá miðju árinu 2009 og boðaðra breytinga á næsta ári má ætla að heildaráhrif allra tekjuaðgerðanna í fjárlögum ársins 2010 og frumvarpi ársins 2011 nemi um 152 milljörðum kr.“

Það er að segja skattahækkanir upp á 152 milljarða kr. Það er býsna vel í lagt finnst mér, það er tíundi hluti þjóðarframleiðslunnar sem sjálfstæðismenn segja í nefndaráliti sínu að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafi aflað. Mér finnst þetta talsvert bratt. Þetta er í raun og veru hærri tala en sú sem felst í þeim árangri sem náðst hefur í að draga úr halla ríkissjóðs frá 180 milljörðum á miðju síðasta ári í 37 milljarða á næsta ári, þ.e. það er afgangur miðað við þessa niðurstöðu, afgangur af 152 milljörðunum eftir niðurskurðinn sem við höfum náð í hallanum á ríkissjóði.

Ég vil spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, eða fá svar við því hvernig þessi tala, 152 milljarðar, er fengin út og einnig hvernig sjálfstæðismenn hyggjast afturkalla allar skattabreytingar, eins og boðað er í þingsályktunartillögu þeirra, með 10 milljörðum strax á næsta ári og afganginum árið 2012. Þeir hyggjast því afturkalla 142 milljarða á því ári miðað við tillögurnar sem komu upp um að afturkalla skatttekjur ríkissjóðs upp á 152 milljarða á tveim árum.