139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur oft mikla löngun til að ræða efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega í svona einnar, tveggja mínútna andsvörum, þó að hann hafi ekki haft mikinn áhuga þegar við kynntum þær í fjárlaganefnd. Hann hafði þó kallað mjög mikið eftir því að þær kæmu þar til umfjöllunar en benti síðan snarlega á að hann gæti ekki tekið þær til umræðu því að tíminn var svo lítill. En honum finnst nægur tími vera til að ræða þær hér á þessum stutta tíma.

Hv. þingmaður spyr: Hver narraði sjálfstæðismenn til að setja þetta inn í tillöguna? Það er kannski hægt að svara því bara þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafi gert það. Eigum við ekki að taka neitt mark á hæstv. fjármálaráðherra? (Gripið fram í.) Þetta stendur hér kristaltært með frumvarpi til fjárlaga að menn leggja upp með tekjuáhrif, áhrif tekjuaðgerða. Þetta er algjörlega svart á hvítu. Hafi einhver blekkt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefur það verið hæstv. fjármálaráðherra. Þetta liggur alveg klárt fyrir.

Menn verða að horfast í augu við að það sem menn áætluðu með hækkun skatta skilar sér ekki. Það veit hv. þingmaður mætavel eins og ég. Við ræddum fjáraukalagafrumvarpið fyrir örfáum dögum. Tekjuskattur einstaklinga skilar um 5,1 milljarði minna en ráð var fyrir gert þrátt fyrir minna atvinnuleysi. Samt kveikja menn ekki ljós á því að skattpíningarstefnan hefur mistekist algjörlega. Það er mjög mikilvægt að margir fari að átta sig á því.

Svo segir hv. þingmaður: Hvernig ætlið þið að lækka skattana um þessa tölu hér? Ég hvet hv. þingmann til að gefa sér aðeins meiri tíma til að lesa tillögur okkar og breytingartillögur við fjárlögin við 3. umr. Þar útfærum við þetta nákvæmlega. Við viljum lækka skattana frá og með 1. maí á næsta ári. Það kostar ríkissjóð 40 milljarða. Við viljum lækka tryggingagjaldið, það kostar ríkissjóð 6 milljarða. Þetta er því alveg klárt. Hv. þingmaður verður að gefa sér tíma til að lesa tillögurnar og kalla ekki alltaf eftir því að fá umræðu um þær þegar það er ekki hægt. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þær betur, það mætti þá kannski verða til þess að forða ríkissjóði frá enn frekara tjóni.