139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:36]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum nú að ljúka 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2011, fjárlög sem ég var búin að kvíða fyrir að vinna að og ganga í gegnum þá vinnu því að samkvæmt því uppleggi sem við vinnum eftir, rammafjárlögunum og áætlun um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum haustið 2013, var fyrirsjáanlegt að næsta ár yrði erfiðasta árið í ferlinu sem við lögðum upp með. Svo langt erum við komin að við erum nú að ljúka vinnunni. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir góða stjórn á fundum nefndarinnar og vinnustýringu í þessari erfiðu vinnu nefndarinnar frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram.

Vinnan hefur að mínu mati gengið ótrúlega vel og ekki síst fyrir það að við vorum búin að einsetja okkur að taka upp nýtt vinnulag á þessu hausti og afgreiða fjárlögin með öðrum hætti en gert hefur verið. En eins og margoft hefur komið fram náðist ekki að vinna undirbúninginn að þeim breytingum með nægilegum fyrirvara þannig að þær munu ekki koma fram fyrr en á þarnæsta ári. Gömlu vinnubrögðin sem við sitjum uppi með gera vinnuna dálítið stirðbusalegri og fer mikill tími í vinnu sem betur væri varið á annan hátt.

En hingað erum við komin og þegar ég segi að þetta séu erfiðustu fjárlög sem við horfum fram á er það ekki síst fyrir stofnanirnar og reksturinn sem heyrir undir fjárlög íslenska ríkisins, þetta verður þriðja ár niðurskurðar. Hjá mörgum stofnunum varð niðurskurður strax árið 2009 og núna á þessu ári verður hann erfiður. Það verður erfitt að taka á sig þriðju skerðinguna.

Ákveðin áætlun var lögð upp og henni hefur verið framfylgt þó svo að fram hafi komið í máli manna að hér sé engin stefna á ferðinni. Af því tilefni vil ég minna á áætlunina sem var sett fram um hvernig skyldi fara í þennan niðurskurð. Stjórnsýslustofnanirnar skyldu taka á sig mest, velferðarþjónustan skyldi taka á sig minnst. Eftir þessu hefur verið unnið. Ég vil því fagna þeim breytingartillögum sem nú hafa komið fram, bæði við 2. umr. og núna fyrir þá 3., sem gera okkur kleift að draga úr niðurskurði eða aðhaldskröfum á margar velferðarstofnanir og ýmsar aðrar stofnanir sem teljast ekki vera velferðarstofnanir. Þær síðarnefndu þurfa oft ekki svo há framlög en hverjar 100 þúsund krónur geta skipt máli með tilliti til þess hvort þær geta hreinlega starfað áfram eða ekki. Þetta á ekki síst við um félög á hinum svokölluðu safnliðum eða rekstur á safnliðum, þar eru ýmis verkefni, stór og smá, sem eru mikilvæg eftir sem áður. Oft á tíðum er þar unnið mikið starf í sjálfboðavinnu. Mörg þessara félaga eru í raun hlekkur í ákveðinni þjónustukeðju sem við megum ekki missa og mörg hver draga vagninn eins og t.d. í forvörnum eða eru í fylkingarbrjósti þegar kemur að nýmælum o.s.frv. Þau eru mikilvæg þó að þau séu ekki öll stór.

Ég tel að í þessari vinnu og með viðbótarfjármagninu sem hægt var að setja inn í fjárlögin núna höfum við reynt að gera bæði stofnunum í velferðarþjónustu og þeim sem eru á safnliðum lífið aðeins bærilegra á næsta ári. Það munar um marga liði og nýmæli sem hafa verið tekin upp fyrir 3. umr. Vil ég fagna aðkomu efnahags- og skattanefndar og hvatningu hennar og ég vil líka nefna heilbrigðisnefnd hvað varðar breytingar á frumvarpinu og aðgerðir á næsta ári og ekki síst ríkisstjórnina og vinnu hennar til að ná samningum við lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki til að koma til móts við skuldug heimili og þær aðgerðir sem verið er að fara í núna í samvinnu þessara aðila til að létta byrðar á fjölskyldum. Einnig vil ég nefna fyrstu aðgerðir til að rétta hag lífeyrisþega. Þetta er fyrsta skrefið. Það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að um leið og hægt verður að draga úr niðurskurði og fara í, eins og maður segir, eðlilegan rekstur miðað við þær skyldur sem viðkomandi stofnanir hafa, með því eftirliti sem þær þurfa á að halda, um leið og hægt verður að hætta þessum aðhaldsaðgerðum, verði það lífeyrisþegar og þeir sem hafa lægri tekjur sem verði fyrstir til að njóta þess. Þetta er fyrsta skrefið á því ferli og því fagna ég.

Það er líka ánægjulegt að fylgjast með því hvað stofnanir eru ábyrgari í rekstri og hafa tekið sig mjög á í að halda rekstri innan ramma fjárlaga og farið í fjölmargar aðgerðir til að draga úr útgjöldum. Ég vil þakka forstjórum og forstöðumönnum þessara stofnana, sama hvar þeir eru í opinberum rekstri en þó ekki síst innan velferðarþjónustunnar allrar sem er viðkvæmur rekstur, fyrir það hvað þeir hafa lagt sig fram við að finna leiðir til að draga úr kostnaði, kostnaði sem við töldum okkur hafa efni á fyrir hrun. Við nánari athugun mátti sjá að spara mátti þannig að hægt væri að verja kjarnann sjálfan, þjónustuna sjálfa, og komast hjá því að segja upp fólki og þeim sem lægstu launin hafa. Það eru fyrirmælin sem stofnanirnar fengu, að byrja á því að reyna að draga úr launum þeirra sem hæst hefðu launin og hlífa þeim sem lægst hefðu launin og reyna að hagræða í rekstri áður en kæmi til uppsagna.

Vissulega er það þannig að við jafnmikið hrun og við stöndum frammi fyrir er ekki hægt að komast í gegnum skipulagsbreytingar og hagræðingu öðruvísi en það komi niður á störfum. Vissulega hafa margir vegna þessara aðgerða, sem eru bein afleiðing hrunsins, misst störf sín. Þá skiptir máli hvernig að því er staðið og að reynt sé á allan hátt að gera það með varkárni og reyna að fara þá leið að ráða ekki í þau störf sem losna og það hafa margar stofnanir gert. Við getum þó öll glaðst yfir því hvað hallinn á ríkissjóði hefur lækkað mikið og hvað það kemur okkur í miklu betri stöðu hvað varðar allan rekstur og m.a. er það þess vegna sem við getum aðeins slakað á núna.

Ég tel að við áframhaldandi vinnu þurfi Alþingi og ríkisstjórn, við öll, að leggja áfram áherslu á velferðarþjónustuna. Eins og kom fram í umsögn heilbrigðisnefndar er mjög mikilvægt að aðhaldsaðgerðum og niðurskurði sem kemur fram í fjárlögum verði fylgt vel eftir, ekki eingöngu til að fylgjast með hvort stofnanirnar séu innan fjárlaga heldur ekki síður til að halda áfram því starfi sem hafið var í haust. Við erum með ákveðið sérfræðiteymi sem getur stutt við stofnanir, fylgst með hvort reksturinn sé í lagi, hvort eitthvað í rekstrinum gangi of nærri þeim og hvort einhverjar áherslubreytingar ættu að koma fram og einnig getur það gefið leiðbeiningar um frekari sparnaðarleiðir innan stofnananna og veitt stuðning ef stofnanir sameinast eða fara í samstarf. Þessi faglegi stuðningur frá heilbrigðisráðuneytinu verði meiri, betri og sýnilegri en hefur verið.

Þessi sérfræðihópur heilbrigðisráðuneytisins fór hringferð og heimsótti heilbrigðisstofnanir, fór yfir rekstur þeirra, fór yfir sviðið, tók út starfsemina í dag og fór yfir hvort greiðslurnar til stofnananna væru samkvæmt rekstrinum eða hvort eitthvað hefði breyst. Þá var starfsemin kortlögð svo fjármagn væri veitt í rétta liði en ekki þannig að verið væri að færa fjármagn á milli eins og margar stofnanir hafa þurft að gera vegna þess að ekki hefur orðið leiðrétting innan fjárlagaramma stofnananna. Það gerist jú að áherslur breytast og stofnanir þróast og ef við lítum eingöngu á öldrunarþjónustuna og hjúkrunarheimili aldraðra þyngist oft á tíðum fjöldi þeirra einstaklinga sem inni liggja samkvæmt RAI-mati þannig að fleiri einstaklingar fara inn á hjúkrunarrýmið en ekki dvalarheimilisrýmið en greiðslurnar fylgja ekki eftir. Ef við ætlum að gefa rétt verður grunnurinn líka að vera réttur og ég held að það sé mjög mikilvægt að þessu sé fylgt eftir og stutt við þessar stofnanir.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með að algjör einhugur skyldi vera í þingsalnum þegar þingsályktunartillagan um bólusetningar stúlkna gegn HPV-veirunni var samþykkt í sumar og eins að því skyldi vera fylgt eftir með fullri samstöðu. Í raun og veru er það fjárlaganefndin sjálf sem stendur að tillögunni um að hefja þessar mikilvægu bólusetningar næsta haust. Þær verða fyrir allar stúlkur í framtíðinni sem er mikil vörn gegn þessum fyrrum illskæða sjúkdómi sem leghálskrabbamein er. Ég vil líka minna á að þó svo að við förum þessa leið sem er okkur til mikils sóma er jafnmikilvægt að standa vörð um það að Krabbameinsfélag Íslands geti haldið áfram eftirliti sínu og allar konur, stúlkur og konur, verði áfram hvattar til að sinna því eftirliti því að bólusetningin er ekki 100% vörn og þessu þarf því að fylgja eftir.

Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar og lengja þessa umræðu, hv. formaður heilbrigðisnefndar, Oddný G. Harðardóttir, hefur farið yfir það og þær breytingartillögur sem liggja fyrir fyrir 3. umr. frá meiri hluta fjárlaganefndar. Í upphafi máls míns þakkaði ég hv. þingmanni og formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir góð störf. Ég vil líka þakka nefndarmönnum öllum fyrir málefnalegar og góðar umræður og vinnu í nefndinni. Sérstakar þakkir færi ég starfsmönnum nefndasviðs og sérstaklega öllum á sviði fjárlaganefndar fyrir ótrúlega vinnu, faglega vinnu og góðan stuðning. Ég vil segja það frá hjartanu að mér finnst ótrúlegt að við skulum geta, á þessum vinnustað og á þingi, haldið utan um alla þessa vinnu og allar breytingar með svo fámennu starfsliði sem nefndin hefur. Hjartans þakkir til allra.