139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:56]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað því til að þetta eru sannarlega háar upphæðir, tæplega 3.000 milljónir kr., einhvers staðar á milli 2.500 og 2.600 millj. kr., en það skiptir ekki máli, það er mjög há upphæð. Ég veit hvernig Sjúkratryggingum Íslands var ætlað að ná þessu. Þar stendur aðallega út af að ekki tókust samningar við sérfræðinga. Sérfræðingar og ríkið eru bundin samningum þar til næsta vor. Í samningaviðræðum við sérfræðinga — í samningunum við sérgreinalækna liggur hæsta upphæðin — náðist sá árangur eða niðurstöður samninganna voru á þá leið að sérfræðingarnir gáfu eftir fyrirhugaða hækkun á gjaldi, en lengra var ekki gengið.

Nú verða samningar þessara sömu sérfræðinga lausir næsta vor. Ég ætla ekkert að segja til um það fyrir fram og taka þannig fram fyrir hendurnar á samninganefndinni og gefa einhver fyrirmæli um hvernig vinna eigi á þessum halla í gegnum samningana. Það er þó fleira sem væri hægt að vinna með. Það er t.d. lyfjakostnaður og brýn meðferð á sjúklingum erlendis. Verið er að leita eftir samningum við önnur sjúkrahús en þau sem hafa sinnt brýnni meðferð og þá sérstaklega barna. Ég get ekki vísað til annars en þess að þarna liggja hæstu upphæðirnar og vonandi tekst Sjúkratryggingum Íslands að vinna á hallanum með þessum ráðum.