139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að tillögurnar í heilbrigðismálum voru allt of brattar. Það varð að bakka með þær og það er búið að gera. Ég studdi það og talaði fyrir því.

Hins vegar er ég að tala um að það er eins og það hafi breyst vinnubrögðin í fjárlaganefnd að því leytinu að það hafa verið gerðar miklar breytingar fyrir 3. umr. Það á að gera þessar breytingar fyrir 2. umr. að mínu mati. Þá fer þessi mikla faglega vinna fram og það á að reyna að halda öllu sem mest lokuðu eftir það. Það er eins og núna hafi verið teknir tveir slagir í þinginu varðandi þessi mál. Ég held að það sé varasamt að gera þetta. Þegar maður lítur yfir verkefnin eru þau mörg þess eðlis að maður spyr: Af hverju var það ekki afgreitt fyrir 2. umr.? Skýringin hlýtur að vera sú að það hefur eitthvað átt sér stað í fjárlaganefnd sem varð þess valdandi að menn fóru að gefa eftir í mörgum smáum atriðum. Þetta eru oft ekkert stórar upphæðir en það er mjög varasamt að gera þetta. Þetta eru varasöm vinnubrögð.

Ég held að ef þetta er ekki undantekning, það sem átti sér stað núna, séum við komin á hála braut. Þá verður gríðarlegur þrýstingur við næstu fjárlagagerð. Á að taka svona tvo slagi aftur? Menn munu ekki linna látum í alls konar röksemdafærslum í fjárlaganefnd, í þinginu og í öllum hópum sem eru innan dyra. Menn munu ekki linna látum fyrr en gefið er eftir. Ég held að það bjóði upp á gríðarlegt agaleysi að vinna þetta svona. Það á að reyna að vinna alla faglegu vinnuna við 2. umr., breyta fjárlagafrumvarpinu, og svo verður að halda þessu öllu sem mestu lokuðu. Vinnubrögðin sem hér eru viðhöfð eru gríðarlega varasöm og ég óttast að skýringin sé að það hafi verið mikil ósamstaða hjá stjórnarflokkunum og svo mikill kjördæmaþrýstingur frá öðrum þingmönnum og (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunni að því hafi farið eins og fór.