139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram með 3. umr. fjárlaga. Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í andsvörum hér áðan þegar verið var að tala um breytingarnar …

(Forseti (ÁI): Forseti biður um þögn í salnum. Takk fyrir.)

… milli 2. og 3. umr., þær eru töluverðar. Margt hefur breyst milli umræðna, ekki bara fjárhagslega heldur ekki síður ákveðin vinnubrögð. Með þessu er ég alls ekki að kasta einhverri rýrð á vinnubrögð formanns nefndarinnar sem hefur haldið af miklum sóma utan um allt vinnulag, en henni er líka ákveðin vorkunn því að hún þurfti ítrekað að fresta fundum fjárlaganefndar. Það var ekki hægt að afgreiða tillögur fjárlaganefndar út í þingið fyrir 3. umr. vegna missættis hjá hinum stjórnarflokknum. Það eru kannski ekki allir hjá Vinstri grænum sem falla undir órólegu deildina en þeir eru þó nokkrir og við vitum öll sem hér erum inni af hverju þurfti að fresta fundum svona mörgum sinnum, það var ekki endilega út af kjördæmapólitík eins og sumir ræddu, það er kannski ekkert óeðlilegt að álykta sem svo, en þetta var fyrst og fremst ósætti við ákveðinn hóp innan Vinstri grænna sem þurfti líka að fá sitt.

Það má vissulega tala almennt um þær tillögur sem eru núna til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, því miður, milli 2. og 3. umr.

Úr því að talið berst að vinnubrögðum er langstærsti þátturinn í þessu vegna lausna sem tengjast skuldastöðu heimilanna. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum var ekki hægt að koma fyrr með þann pakka sem nemur um 7,9 milljörðum kr. með öllu? Af hverju var ekki hægt að leggja hann fyrir þingið fyrir 2. umr. þannig að við værum nokkurn veginn búin að klára málið eins og venja hefur verið fram til þessa, hafa ákveðinn aga á störfum þingsins þannig að það væru ekki nema óvænt tilvik sem yrðu tekin inn á milli 2. og 3. umr.? Það hefur ekki verið gert. Ég veit að hv. þm. Oddný Harðardóttir, formaður nefndarinnar, hefur hug á því að breyta þessu vinnulagi, a.m.k. þannig að þetta vinnulag festist ekki í sessi. Eins og ég gat um áðan er henni vorkunn að þurfa að klappa öllum þeim sem eru innan stjórnarliðsins, ekki síst meðal Vinstri grænna, þegar kemur að fjárlögunum. Það þarf ekkert að tipla á tánum í kringum þetta. Við erum að tala um ákveðna þingmenn sem hafa bæði lýst yfir efasemdum um fjárlagafrumvarpið og vilja verulegar breytingar á frumvarpinu sem slíku.

Við sjálfstæðismenn höfum sent frá okkur framhaldsnefndarálit og förum í því yfir ákveðna þætti. Ég hjó eftir því að það fór eitthvað fyrir brjóstið á stjórnarþingmönnum að við skyldum tala um 152 milljarða kr. skattahækkanir og vorum beðin um að rökstyðja það. Það var m.a. gert hér áðan. Á bls. 34 í fylgiskjali með frumvarpi til fjárlaga koma berlega í ljós áhrif tekjuaðgerða ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2009–2011. Til að gæta allrar sanngirni tókum við sjálfstæðismenn ekki áhrif tekjuaðgerðanna frá árinu 2009 og við tókum ekki inn séreignarsparnaðarheimildina, bara til að reyna að gæta hófs og sanngirni í nálgun okkar. Það sem hins vegar vekur athygli mína og ég vil sérstaklega ræða hér er lækkunin á þessu árabili til útgjalda. Við höfum rætt um að þetta verði eitt erfiðasta fjárlagafrumvarp sem um ræðir en þegar betur er að gáð er raunútgjaldalækkun á ríkissjóði ekki mjög mikil. Hvað er ég að segja með þessu? Ég tel að við höfum ekki farið markvisst í að skera niður á þeim stöðum sem duga til lengri tíma.

Á þessum tveimur árum er um að ræða um 50 milljarða kr. til útgjaldalækkunar. Meginstabbinn af því, um 40%, er 20 milljarðar kr. vaxtagjöld sem lækka töluna, þá eru 30 milljarðar kr. eftir. Þá erum við að tala um einskiptisaðgerðir, frestun framkvæmda og stóra stofnkostnaðarliði. Það sem hefur ekki verið gert í þessu frumvarpi og við bentum sérstaklega á, bæði við 1. og 2. umr., er m.a. að móta heilbrigðisstefnu. Í þeim tillögum sem lagt var upp með í byrjun var um stórfelldan niðurskurð að ræða á heilbrigðissviðinu. Gott og vel, þar á að vera hægt að hagræða eins og annars staðar en sá niðurskurður var vanhugsaður, enda hefur þetta meira og minna verið dregið til baka.

Ég tel að það hefði verið hægt að komast hjá öllum þessum hringlanda ef menn hefðu verið búnir að móta fyrir fram stefnu í heilbrigðismálum. Það var ekki gert, m.a. út af þeim hringlandahætti sem hefur verið í tíðum ráðherraskiptum innan vinstri stjórnarinnar þegar kemur að heilbrigðisráðuneytinu. Ég held að við höfum ekki nýtt tækifærið sem við höfðum til þess að móta heilbrigðisstefnu sem er verið að reyna að lappa upp á samhliða fjárlögunum í staðinn fyrir að vera með hana skýrt mótaða fyrir fram.

Annað dæmi er varnarmálin sem að mínu mati eru algjörlega upp í loft, ákveðin dúsa fyrir Vinstri græna, a.m.k. hæstv. dómsmálaráðherra sem við vitum að lagði sig mjög í líma við að leggja niður Varnarmálastofnun. Enginn fór gegn því að leggja niður Varnarmálastofnun, það þurfti bara að vera skýrt afmarkað hvert verkefnin færu, hvert þau yrðu sett í stjórnkerfinu þannig að varnarmálin væru skýr innan þess. Það var ekki gert á undan framlagningu fjárlagafrumvarpsins, heldur samhliða. Þetta höfum við upplifað núna í umræðunni á undanförum dögum og það hefur verið dregið fram. Þetta eru tvö dæmi um að menn móta stefnu í mikilvægum málaflokkum meðfram fjárlagafrumvarpinu. Það gefur ekki góða raun.

Fjárlagafrumvarp var lagt fram 1. október lögum samkvæmt og það hafði ákveðna hagvaxtartölu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu var miðað við 3,2% hagvöxt. Síðan var gert ráð fyrir því að hann mundi lækka niður í 1,9%. Við drógum fram að OECD spáir 1,5% hagvexti. Evrópusambandið spáir innan við 1% hagvexti og það sama má segja um Íslandsbanka. Hvað þýðir þá þessi hagvöxtur? Hvað þýðir þetta fyrir venjulegt fjölskyldufólk? Af hverju leggjum við sjálfstæðismenn svona mikla áherslu á að auka hagvöxtinn í landinu, hagvöxt sem byggir ekki á einkaneyslu og lántökum heldur framleiðslu? Af hverju erum við að því? Til þess að fjölskyldufólk hafi meira á milli handanna, til að bjartsýni aukist í samfélaginu, að þegar Jón og Gunna eru búin að borga af lánum sínum vegna húsnæðis- eða bílakaupa eða hvað það er hafi þau eitthvað á milli handanna til að fjárfesta með, hvort sem það er til þess að styrkja sig varðandi menntunarmöguleika eða hvað. Við aukum bjartsýni í samfélaginu með því að segja: Við ætlum að efla hagvöxt hér. Það verðum við að gera til þess að komast út úr þeim vítahring sem ríkisstjórnin er búin að festa sig í, vítahring skattahækkana og tilrauna til niðurskurðar eins og við höfum bent á. Þetta var ekkert annað en tilraun til niðurskurðar í þessu fjárlagafrumvarpi.

Þetta var sem sagt frumvarp sem lagði upp með hagvöxt. Þetta var líka frumvarp sem lagði upp með ákveðinn halla. Hallinn hefur aðeins aukist og útgjöldin líka eins og við vitum þannig að ekkert stenst. Svo náttúrlega má draga fram þriðja atriðið varðandi kynjuðu hagstjórnina og félagsauðinn sem var mjög skýrt sagt varðandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, að núna væri í fyrsta sinn lagt fram fjárlagafrumvarp sem byggði á kynjaðri hagstjórn, vessgú. Auðvitað stóð ekki steinn yfir steini í þessu eflaust göfuga markmiði af því að menn voru ekki búnir að hugsa þetta til enda. Þetta var allt gert bara til að búa til einhverjar umbúðir en innihaldið var síðan ekki neitt, enda stendur lítið eftir af upprunalega frumvarpinu. Það sama má segja um að þingið hafi tekið málið í sínar hendur og breytt því á þann veg að það væri þá nær ákveðinni kynjaðri hagstjórn.

Hagvaxtarspáin og forsendurnar standast ekki. Afgangurinn stenst ekki og kynjaða hagstjórnin stenst ekki miðað við upphaflega frumvarpið.

Það sorglega í þessu er að þegar núna er kallað eftir samstöðu og samvinnu buðum við sjálfstæðismenn bæði við síðustu fjárlagagerð en ekki síður núna upp á samvinnu. Ég sit í fyrsta sinn í fjárlaganefnd. Það var bæði boðið fyrir lok 2. umr. og nú við 3. umr. að við færum saman í það verkefni að skoða hvað hægt væri að gera, hvernig hægt væri að sameinast um að fara í niðurskurð. Sú tillaga var ekki einu sinni rædd. (BJJ: Það er eftir öðru.) Það er eftir öðru. Af hverju var ekki hægt að taka í, ekki bara sáttarhönd heldur líka vinnuhönd okkar sjálfstæðismanna til að fara í þetta erfiða verkefni sem er erfitt fyrri alla stjórnmálamenn, alla stjórnmálaflokka? Við vitum að það þarf að hagræða í almannaþjónustunni, það þarf m.a. að hagræða með því að sameina stofnanir o.fl. Þá er betra að við reynum að gera það saman þannig að þokkaleg sátt náist um slík erfið verkefni frekar en að menn reyni að gera þetta hver í sínu horni. Enda hefur ríkisstjórninni mistekist hrapallega hvað þetta varðar.

Það er eitt og annað sem hefur breyst á milli umræðna, ekki bara það að það sé, ég ætla ekki að segja fordæmislaust, en hins vegar er mjög sérstakt hversu miklum breytingum frumvarpið tekur milli 2. og 3. umr. Gott og vel, þær eru ákveðnar og ég ætla að fara aðeins út í nokkrar sem ekki hefur verið rætt um og nokkrar sem hefur verið imprað á hér.

Samgönguframkvæmdirnar. Ég held að það sé afar mikilvægt að við reynum að fara af stað með samgönguframkvæmdir. Við erum búin að kalla eftir því hér, ekki síst á suðvesturhorninu þar sem atvinnuleysið er mest, að reynt verði að ýta undir verðmætasköpun og framkvæmdir, m.a. á sviði jarðvinnuverktakastarfsemi sem hefur algjörlega legið í láginni undanfarin missiri. Þegar við leggjum af stað er algjörlega búið að kúvenda frá því sem var lagt upp með á sínum tíma í samgöngunefnd. Það eru forkastanleg vinnubrögð hjá þinginu ef við ætlum að fara í gegnum þessa umræðu hér án þess að hafa rýnt nægilega vel í framkvæmdina, rætt um það hvaða aðferðafræði við beitum því að það er algjörlega búið að kollvarpa því sem var lagt upp með í upphafi, enda var auðvitað eftirtektarvert að heyra m.a. hv. þingmann Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, tala afgerandi á móti þessari leið sem stjórnarmeirihlutinn leggur hér upp með í dag. Ég held það sé vanhugsað hvernig við erum að gera þetta.

Ég er ekki viss um að fólkið á suðvesturhorninu sætti sig við að upphaflegu hugmyndunum verði kollvarpað, það átti líka eftir að sannfæra fólk um að það væri rétt að fara þá leið. Ég held að það hefði verið hægt með því að segja að við værum um leið að flýta framkvæmdum gegn hóflegu gjaldi, en það sem er verið að segja við okkur er hrein og klár móðgun við þá sem búa á suðvesturhorninu en ekki síður þá sem búa í bæjunum næst suðvesturhorninu, hvort sem það er Selfoss, Reykjanesbær eða Skaginn. Ég held að þetta sé þáttur sem við verðum að fara betur yfir. Við skulum þá reyna að einblína á það sem sameinar okkur í þessu máli. Það sem sameinar okkur er að við viljum framkvæmdirnar af stað. Reynum þá að einblína á þann þátt og útfæra hann af skynsemi. Gefum okkur ákveðinn tíma til að fara yfir það. Ég hvet til þess að stjórnarmeirihlutinn virki stjórnarandstöðuna í þessu þannig að það náist sú nauðsynlega sátt um þessa framkvæmd sem skiptir máli til að hún fari af stað.

Ég vil koma örstutt inn á St. Jósefsspítala. Ég hef ítrekað sagt að ég er ekki á móti sameiningu St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss svo lengi sem hægt er að sýna fram á að það leiði í fyrsta lagi til aukinnar hagkvæmni, í öðru lagi að við munum passa upp á þá sérhæfingu sem hefur verið byggð upp í áranna rás, um áratugaskeið á St. Jósefsspítala, og í þriðja lagi að við pössum upp á starfsfólkið. Ég bind vonir við að þetta ferli verði eins farsælt og hægt er að hafa það. Þegar ég las fréttir um daginn um að í starfshópnum vegna sameiningar St. Jósefsspítala og LSH væru eingöngu þrír starfsmenn frá LSH hugsaði ég: Jæja, er nú að koma á daginn það sem varað var við? Það er ekki um sameiningu að ræða, heldur yfirtöku stóra spítalans á litla. Þetta er dæmi um það sem oft gerist nú á tímum, fjölmiðlar hafa ekki fylgt þessu nægilega vel eftir. Þetta er að mér skilst sex manna starfshópur, þrír frá St. Jósefsspítala og þrír frá LSH og menn vinna þetta, a.m.k. enn sem komið er, bara þokkalega með það í huga að varðveita þá sérhæfingu sem byggð hefur verið upp á St. Jósefsspítala. Ég vona að þetta ferli verði gott og gegnsætt og að starfsmenn, ekki síst St. Jósefsspítala, verði hafðir með í ráðum. Það skiptir miklu máli að menn nálgist verkefnið þannig að þetta sé sameining en ekki yfirtaka verkefna.

Ég vil koma að þeim skattbreytingum sem menn hafa bent á. Þær tengjast líka stóru myndinni sem ég kom inn á í ræðu minni við 2. umr., það er ekki bara verið að breyta skattkerfinu heldur svo mörgu í íslensku samfélagi í átt til aukinnar miðstýringar. Ég nefndi mörg dæmi í ræðu minni við 2. umr. Við höfum fengið svar um það inn í þingið að m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telji skattkerfisbreytingar ríkisstjórnar vinstri manna sem leiddu til þessa flókna skattkerfis auka mjög flækjustigið. Hér stendur í frétt úr Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

„Flækjustig hefur þá aukist og mælst er til þess að ákveðnir þættir verði látnir ganga til baka.“

Þetta segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Í þessari sömu frétt segir líka að skattasérfræðingur mundi ekki lengur vilja lenda flugvél sinni á Íslandi vegna þess að skattumhverfið sé orðið svo óhagstætt hér á landi. Það eru vinsamleg tilmæli til vinstri ríkisstjórnarinnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en mjög hörð tilmæli af minni hálfu, að þetta verði að laga til þess að auka aðdráttarafl, ekki síst erlendra fjárfesta, hingað til lands og líka þannig að við getum farið af stað til að ýta undir verðmætasköpun, að fyrirtæki geti farið af stað o.s.frv.

Hvað er ég að segja með þessu? Jú, skattkerfisbreytingarnar sem ríkisstjórnin lagði af stað með hafa ekki bara kostað nokkra tugi milljóna, heldur hátt á annað hundrað milljónir, bara skattkerfisbreytingin sem slík. Þær upplýsingar höfum við fengið. Hvað undirstrikar þá það að skattkerfisbreytingar eru mjög þungar í vöfum? Það er m.a. þessi Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem er verið að koma á. Bara slík skattkerfisbreyting kostar 14 millj. kr., bara að ýta af stað slíkri skattkerfisbreytingu. Hvað geta menn þá ímyndað sér að slíkur kostnaður hafi orðið hár þegar menn eru búnir að rugla öllum tekjuskattinum og setja flækjustigið í botn? Þar fyrir utan hafa skatttekjur ríkissjóðs ekki aukist með því að auka þessa skatta. Tekjuáætlanir hafa ekki gengið eftir eins og við þekkjum öll.

Það er enn þá margt óljóst. Það hefur verið minnst á Sjúkratryggingar. Enn þá er ekki búið að sýna fram á hvernig á að leysa 3 þús. millj. kr. sparnað sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Okkur hefur ekki enn verið skýrt svarað um það hvernig heilbrigðisráðuneytið ætlar að ná fram 3 þús. millj. kr. sparnaði hjá Sjúkratryggingum. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um lyfjakostnað sem tengist m.a. S-merktum lyfjum, læknakostnað, heimahjúkrun, sjúkraflutninga, hjálpartæki og ferðakostnað tengdan sjúkum. Þetta eru allt saman þættir sem þessar 3 þús. millj. kr. munu snerta og það er bagalegt, svo vægt sé til orða tekið, að við þingmenn fáum ekki næg svör frá framkvæmdarvaldinu til að vita hvert þessi mikilvægi þáttur velferðarkerfisins á að fara. Þetta er enn þá óljóst. Það er margt annað sem ekki hefur verið skýrt á milli umræðna.

Ég ætla ekki að minnast á þá umræðu sem bíður okkar á morgun, Icesave-umræðuna. Miðað við frumvarpið sem liggur fyrir mun kostnaður ríkissjóðs aukast verulega á næsta fjárlagaári þannig að það má kannski segja að við greiðum atkvæði um fjárlagafrumvarpið í fyrramálið, gerum það að lögum og dembum okkur síðan í Icesave og setjum til viðbótar á þriðja tug milljarða kostnað á ríkissjóð. (Gripið fram í: Lágmark.) Að lágmarki, já. Við verðum strax búin að kollvarpa klukkustundargömlu fjárlagafrumvarpi, en það gerist væntanlega á morgun, þ.e. ef menn ætla að ná þessu í gegn. Það er a.m.k. meining ríkisstjórnarinnar hvað það mál varðar. Sú umræða bíður betri tíma.

Launaliðirnir eru enn þá algjörlega óútskýrðir, ekki er tekið tillit til þess að menn gera ráð fyrir ákveðnum hækkunum á hinum almenna markaði og menn gefa sér að þær hækkanir muni engin áhrif hafa á laun opinberra starfsmanna. Ég efast um að hæstv. dómsmálaráðherra, fyrrverandi formaður BSRB, muni láta það yfir sig ganga umræðulaust innan ríkisstjórnarinnar. Við sjáum til með hvort hann nær einhverju fram í því máli sem öðrum.

Ég vil geta sérstaklega verkefnis sem tengist Reykjalundi sem er ein af þeim heilbrigðisstofnunum sem stóðu líka frammi fyrir miklum niðurskurði. Það var ekki tekið tillit til hans með sama hætti og annarra heilbrigðisstofnana. Ég fagna því sérstaklega að gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til reksturs á sérhæfðri deild fyrir ungt fólk með heilaskaða. Það framlag mun stuðla að því að þessi tiltekna starfsemi Reykjalundar nær að fara af stað og halda áfram. Það er líka mikilvægt í tengslum við það að miklar fjárfestingar hafa verið á Reykjalundi sem munu stuðla að því að væntanlega, eins og mér hefur verið sagt, verði rekstrarkostnaður þá líka minni vegna þessara fjárfestinga sem hafa verið gerðar á staðnum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Það er hægt að fara út í marga þætti fleiri sem tengjast fjárlagafrumvarpinu. Ég nefndi það áðan að mér finnst yfirbragðið á öllu fjárlagafrumvarpinu og allri stefnumótun ríkisins bera keim af því sama, margir hverjir úr stjórnarmeirihlutanum nota hér ræðurnar til að segja að það þurfi að breyta hinu og þessu af því að hér varð efnahagskreppa. Já, hér varð efnahagskreppa, það varð bankahrun, en það réttlætir ekki allar kerfisbreytingarnar sem við stöndum frammi fyrir. Það réttlætir ekki flókið skattkerfi sem margir hafa gagnrýnt okkur fyrir, eins og ég gat um áðan, t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Það réttlætir ekki það að við drögum úr valfrelsi í menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu. Það réttlætir ekki ýmsar aðrar kerfisbreytingar sem við sjáum með marktækum hætti af því að hér er vinstri stjórn við völd. Við sjáum, og það er ekki tilviljun, að minni hagvexti er spáð. Það er engin tilviljun því að ríkisstjórnin, með fullri virðingu fyrir því sem hefur verið rætt í þessum ræðustól og víðar, hefur ekki farið af stað af þeim krafti sem hægt hefði verið í atvinnusköpun í landinu. Þurfa menn að draga fram atriði eins og gagnaverið suður með sjó sem er eins mjög gott dæmi um það hvernig viðhorfið hefur verið innan stjórnkerfisins til að bregðast við því hvernig erlend fjárfesting kemur inn í landið? Það var ekki verið að biðja um mikla sérmeðferð umfram önnur Evrópulönd, heldur um það að hér yrði farið samkvæmt Evrópusambandsreglum, en það hefur þvælst fyrir í kerfinu. Ég veit ekki hvort það er út af þeirri tortryggni sem almennt ríkir, ekki síst meðal Vinstri grænna varðandi erlenda fjárfestingu. Þess sér víða stað að sú tortryggni hafi stuðlað að því að hér hafi ekki orðið eins miklar fjárfestingar og hefði verið hægt að fara í.

Við sjálfstæðismenn lögðum til tillögur okkar fyrr í vetur. Við setjum þær líka fram núna með þessu fjárlagafrumvarpi. Það skiptir okkur mestu máli og tengist því að við leggjum ofuráherslu á að auka hagvöxt í landinu því að um leið eflum við atvinnustigið í landinu.

Frá miðju ári 2008 hafa tapast um 22.500 störf á Íslandi. (Gripið fram í.) Um 16.200 urðu atvinnulausir og 6.300 manns hurfu af vinnumarkaði. Það skiptir okkur verulega miklu máli að skapa störf. Fyrir hvert starf sem skapast sparar ríkissjóður allt að 3 millj. kr. á ári. Í rauninni má segja að bein áhrif á ríkissjóð varðandi þessi töpuðu 22.500 störf nemi því allt að 70 milljörðum kr. á ári. Þess vegna verðum við að fara í þau verkefni sem við sjálfstæðismenn höfum m.a. lagt áherslu á. Við þurfum að huga betur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, gera það umhverfi fyrir þau vinsamlegra en nú. Ég hef þegar nefnt m.a. skattumhverfið. Við þurfum að veiða meira. Í ljósi þess að veiðistofn þorsks er núna stærri en verið hefur í heila tvo áratugi er afar eðlilegt að nýtingarprósentan verði strax færð upp í 23%, hún hefur verið 20%. Við eigum að veiða meira. Við þurfum að nýta orkuauðlindir okkar, við þurfum að fara af stað með framkvæmdir, t.d. í Helguvík. Við þurfum að fara af stað með atvinnuverkefnið á Bakka.

Þegar maður heyrir ríkisstjórnina segja að hún vilji halda áfram með verkefnið á Bakka fagna ég því sérstaklega en ég velti fyrir mér hvort hugur fylgi máli. Á sama tíma er nefnilega verið að skera gríðarlega niður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, á því svæði þar sem framkvæmdirnar verða hvað mestar. Ef menn ætla að fara í framkvæmdir á Bakka á næstu missirum verður auðvitað að vera þar öflug heilbrigðisþjónusta. Eða ætla menn bara að koma eftir á og redda heilbrigðisþjónustunni eða menntakerfinu á svæðinu þegar menn fara í Bakkaframkvæmdir? Ég spyr: Er ríkisstjórninni alvara með því að fara í framkvæmdirnar og atvinnuverkefnin á Bakka? Mér er spurn í ljósi þeirra tillagna sem við höfum séð í fjárlagafrumvarpinu um þjónustuna á heilbrigðissviði í Norður-Þingeyjarsýslu.

Við eigum að nýta orkuauðlindirnar. Við eigum að einfalda skattkerfið. Við höfum farið yfir það, bæði í þessari umræðu og á fyrri stigum. Við eigum að hvetja til aukinnar fjárfestingar. Það skiptir miklu máli að við förum af stað í það verkefni sem ég gat um hér áðan, að fara saman í að draga úr rekstri ríkissjóðs og það á stóru sviðunum sem eru almannaþjónustan og mennta- og heilbrigðiskerfið.

Við sjálfstæðismenn höfum talað um að við eigum ekki að skera niður í þeim mæli sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í menntakerfinu. Af hverju? Jú, af því að það er lykillinn að því að reyna að koma hagvextinum af stað. Stór hluti af þeim hagvexti sem varð hér á árunum 1970–1995 varð vegna fjárfestingar í menntun. Við eigum ekki að skera niður menntun eins og verið er að gera og rannsóknasjóðina. Við erum einfaldlega að pissa í skóinn okkar hvað það varðar.

Við eigum að halda áfram þeirri grundvallarbreytingu sem við vorum lögð af stað með, þingið búið að samþykkja, að fara hægt og rólega í að fjölga nemum með þriggja ára stúdentspróf. Allt er tilbúið fyrir þá kerfisbreytingu, það er ákveðin kerfisbreyting. Það er búið að vinna í leikskólunum og grunnskólunum. Það er búið að vinna í þeim málum sem tengjast mennta- og framhaldsskólastiginu. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir raunverulegan sparnað í ríkissjóði til næstu ára fyrir utan þann þjóðfélagslega sparnað sem verður ef af þessari breytingu verður. Ég er ekki að tala um nokkur hundruð milljóna. Ef við fjölgum nemendum um 40% sem eru með þriggja ára stúdentspróf erum við að tala um vel á þriðja milljarð í sparnað í ríkisrekstri. Það er hægt að gera heilmikið fyrir það. Við eigum náttúrlega að byrja á að greiða niður skuldir.

Það eru svona verkefni á svona tímum sem við eigum að fara í. Það er allt tilbúið í þessa breytingu í menntakerfinu og við eigum að vinna saman að því. Vel að merkja, þessar breytingar á öllum skólastigum voru samþykktar meira og minna af þinginu, bæði stjórn og stjórnarandstöðu á þeim tíma. Við eigum að halda áfram með þessi vinnubrögð með því að fara svona í heilbrigðiskerfið. Það er hægt að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu, við vitum það og við höfum sagt það tæpitungulaust við þurfum að gera meira fyrir minna, en það verður þá að liggja fyrir ákveðin heildarmynd. Hún lá ekki fyrir þegar þetta fjárlagafrumvarp var lagt fram. Við eigum að fara í svona kerfisbreytingar sem við gerum okkur grein fyrir að geta skipt ríkissjóð mörg hundruð milljónum króna, allt upp í einhverja milljarða, til þess að spara í ríkisrekstri. Það hefur ekki verið gert. Útgjaldalækkunin á þessu tveggja ára tímabili, 2010 og 2011, er fyrst og fremst borin af lægri vaxtagjöldum hjá ríkissjóði. Við höfum ekki farið í þær raunverulegu breytingar sem hefði þurft að gera á rekstri ríkissjóðs. Þess vegna segjum við sjálfstæðismenn að haldi menn að þetta hafi verið erfitt núna er þetta rétt að byrja hvað það varðar að breyta því hvernig ríkissjóður er rekinn. Við þurfum að fara saman í að breyta ákveðnum þáttum í kerfinu okkar, þessum stóru þáttum (Forseti hringir.) sem tengjast menntun, heilbrigðiskerfi og hinu félagslega kerfi.