139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október var lagt upp með um 36% niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík. Mér finnst það vísbending um að menn hafi ekki ætlað að byggja upp aðra atvinnustarfsemi á þessu svæði. Það getur vel verið að menn ætli að fara hægt í sakirnar á næsta ári, m.a. út af óeiningu innan stjórnarflokkanna um hvaða leið eigi að fara. Það er alveg berlegt að það er ekki samhljómur í atvinnuuppbyggingu á þessu svæði á milli Samfylkingar og Vinstri grænna frekar en í svo mörgum öðrum málum en það var lagt upp með 36% niðurskurð á þessa heilbrigðisstofnun af því að menn voru ekki búnir að vinna undirbúninginn sinn vel. Menn lögðu upp með 36% niðurskurð sem að mínu mati gefur vísbendingu um að menn hafi ekki trú á því að menn ætli að fara í mikla atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. Eða ætla menn að segja mér hér að þeir ætli að fara í mjög mikla atvinnuuppbyggingu hugsanlega á árinu 2012 en halda áfram að skera niður á heilbrigðisstofnuninni þegar þarf að veita aukna þjónustu? Við vitum að aukin umferð fólks og fyrirtækja á þessu svæði kallar á aukna samfélagslega þjónustu, hvort sem er á sviði menntamála eða heilbrigðismála. Mér finnst þetta tvíbent skilaboð sem ríkisstjórnin sendi þegar hún lagði fram fjárlagafrumvarpið og ekki síður það að við sjáum hægt á niðurskurðinum núna fyrir næsta ár. Samt er yfirlýsing af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra um að það verði haldið áfram með þessa stefnu sem lagt var upp með, hún verði bara framkvæmd yfir lengra tímabil.

Ég spyr á móti: Er ekki alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar að vera einbeitt í því að byggja upp atvinnulíf á Norðausturlandi?