139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin er einbeitt í því að byggja upp atvinnu á Norðausturlandi sem og annars staðar á landinu. Aftur á móti er hægt að gera það á margan hátt. Það er ekki búið að beisla þá orku sem menn horfa nú til, en hana er líka hægt að nota í mismunandi atvinnuuppbyggingu.

Hvað varðar Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík býr hún eins og svo margar stofnanir við vandamál frá fyrri tíð. Sú stofnun hafði þróast á þann hátt að fjármunir sem voru veittir til stofnunarinnar voru færðir til. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga byggði upp heilsugæsluna, nýtti fjármuni af sjúkrasviði sem þurfti ekki eins á að halda og lagði í uppbyggingu á heilsugæslunni. Þegar farið var að kortleggja þetta og þessi 36% niðurskurður blasti við, átti að taka af sjúkrastofnuninni, var það ekki hægt vegna þess að það hafði verið rangt gefið. Þetta var leiðrétt í þessari yfirferð og kortlagningu á starfseminni og það sem svæðið vantaði voru hjúkrunarrými. Það er búið að bæta þeim í. Núna hefur þeirri þörf sem fyrir var verið mætt með fleiri hjúkrunarrýmum inn á svæðið og að kortlagningin á heilsugæslunni og sjúkrasviðinu er réttari en áður.

Það þarf að standa vörð um þessa stofnun eins og aðrar, en það hefur ekkert breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar. Við ætlum að halda áfram og það verður að byggja upp heilsugæsluna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu en líka úti á landi. Þessi stofnun er vel rekin. Hún hefur marga möguleika. Hún hefur staðið mjög vel að uppbyggingu sinni og það á að stuðla að því að hún geti gert það áfram.