139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í grófum dráttum eru hagstjórnartækin tvö, stjórn peningamála og stjórn ríkisfjármála. Peningamálastjórnin er í höndum Seðlabanka sem er sjálfstæður og án afskipta stjórnmálamanna. Ríkisfjármálin eru hins vegar alfarið á ábyrgð stjórnmálamanna.

Um árabil var hagstjórn á Íslandi vond. Stefnan í peningamálum og ríkisfjármálum toguðust á, aðgerðir stefndu hver í sína áttina. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Stefnan í ríkisfjármálum kristallast í fjárlagafrumvarpinu. Í nafni ríkisstjórnarinnar leggur fjármálaráðherra frumvarpið fyrir Alþingi sem á lokaorðið eins og í öðrum stefnumálum ríkisins. Fyrir ári sagði ég skoðun mína á mörgu því sem ég tel ábótavant við gerð fjárlagafrumvarpsins og nauðsyn á því að Alþingi komi fyrr að gerð þess en raun ber vitni. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þá ræðu hér og bind vonir við að bót verði ráðin á við gerð fjárlaga fyrir árið 2012.

Virðulegi forseti. Það er þó merkilegt við þetta frumvarp og hefur ekki gerst áður hér á landi, svo ég viti, að það er innan efnahagsramma sem kynntur var á Alþingi fyrir meira en ári. Stóru línurnar í frumvarpinu ættu því ekki að koma neinum á óvart. Ljóst var að draga þyrfti mjög úr ríkisrekstri frá því sem áður var, það liggur í augum uppi að það hlaut að koma einhvers staðar niður, en auðvitað höfum við ólíkar skoðanir á því hvar á að bera niður.

Ekki er ólíklegt að geimvera sem fylgdist með störfum á Alþingi teldi að fjárlög væru nokkuð sem kæmi okkur þingmönnum Reykjavíkur ekki neitt við. Í fyrsta lagi tæki veran eftir því að enginn þingmaður höfuðborgarinnar á sæti í fjárlaganefnd. Af 2. umr. um frumvarpið sem fram fór hér í síðustu viku gæti veran í annan stað dregið þá ályktun að okkur standi nokk á sama um þetta allt saman, niðurskurður komi okkur sem íbúar höfuðborgarinnar kusu á þing ekkert við.

Ég segi þetta vegna þess að við 2. umr. tóku 20 þingmenn til máls, og einungis tveir úr Reykjavík. Annar flutti umsögn menntamálanefndar um frumvarpið og hinn lýsti því yfir að hún ætlaði að sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins við þessa umræðu. Sá hv. þingmaður hefur lítið álit á efnahagsráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er helst á henni að skilja að samflokksmenn hennar vilji ekki hlusta á ráðleggingar hennar. Ekki veit ég hvort eitthvað hefur breyst í þeim efnum síðan hún sat hjá í síðustu viku.

Svo kostulegt sem það nú er, virðulegi forseti, þandist ríkisbúskapurinn mjög út á árunum fyrir hrun. Kostulegt, segi ég, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórn ríkisfjármálanna auk þess að vera í forustu fyrir ríkisstjórninni í næstum tvo áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega ekki hlynntur miklum umsvifum ríkisins, a.m.k. ekki í orði, og fyrir einhverjum árum fór hann mikinn undir slagorðinu Báknið burt — en svona var það samt, ríkisbúskapurinn þandist út sem aldrei fyrr.

Nú þarf að skera niður og þá er um að gera að nota tækifærið og endurskipuleggja þá starfsemi sem er á ríkisins vegum. Heilbrigðiskerfið er mjög stór útgjaldaliður, það er löngu ljóst að það er dýrara kerfi en við höfum efni á. Því er ekki nema eðlilegt að ráðist sé í endurskoðun á því. Ég er ósammála því sem kom fram í máli tveggja ágætra flokkssystra minna við atkvæðaskýringu í síðustu viku, að heilbrigðisþjónusta sé atvinnumál. Það er vissulega rétt að skipulag heilbrigðisþjónustu hefur á undanförnum árum tekið mikið mið af hagsmunum heilbrigðisstarfsmanna. Svo á ekki að vera, skipulagið á að miðast við þarfir sjúklinga. Atvinnan sem af því hlýst á að vera afleidd stærð. Ég vil í þessu dæmi nefna líka það sem núna er lagt til af fjárlaganefndinni allri, bólusetningu gegn HPV-veiru. Það er forvarnastarf, tekur mið af þörfum fólks og kemur í veg fyrir að fólk verði sjúklingar.

Nú stefnir í að öll uppbygging heilbrigðisþjónustunnar verði endurskoðuð. Það er af hinu góða og víst er að þar má miklu breyta.

En það þarf ekki bara að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna, heldur alla þjónustu og starfsemi sem við leggjum til opinbert fé. Það þarf einnig að huga að aðferðunum sem notaðar eru við að deila út fé úr ríkissjóði. Ég er þeirrar skoðunar að hvorki þingmenn í svokölluðum fagnefndum né þingmenn í fjárlaganefnd eigi að ákveða fjár- og styrkveitingar til einstakra verkefna sem ekki eru á vegum ríkisins. Við verðum að átta okkur á því að þegar Alþingi samþykkir styrkveitingu til félagasamtaka eða einstaklinga eins og nú er gert þegar úthlutað er af svokölluðum safnliðum er það gert skilyrðislaust. Við höfum engin verkfæri til að fylgja því eftir hvernig þessum peningum er ráðstafað, við höfum engin verkfæri til að fylgja því eftir að vel sé farið með þá. Þessu verður að koma öðruvísi fyrir en nú er gert.

Stundum er sagt að þetta séu ekki háar upphæðir. En þær eru háar í samanburði við þá styrki sem úthlutað er til verkefna úr sjóðum sem myndaðir hafa verið til að styrkja hvort heldur er söfn, friðuð hús eða leiklistarstarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Þeir sjóðir eru reknir af kunnáttufólki, fólki sem hefur kunnáttu og yfirsýn yfir þá málaflokka sem það starfar við. Það forgangsraðar og fylgist með ráðstöfun þeirra fjármuna sem úthlutað er.

Virðulegi forseti. Mig langar til að vitna hér í bréf sem ég fékk í gær frá ungri konu sem vinnur að þessum verkefnum. Hún byrjar á orðunum „Þetta er engin hemja“ og bréfritari á við styrkveitingar sem hv. alþingismenn hafa ákveðið og birtust við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Með leyfi forseta, held ég áfram að vitna í bréfið:

„Ég er á því að faglega eigi að standa að úthlutunum úr ríkissjóði — á sviði menningarmála eru til menningarsamningar við sveitarfélögin og ýmsir sjóðir sem úthlutað er úr með faglegum hætti sem ættu að mínu mati að fá það fjármagn sem úthlutað er árlega til menningarmála í gegnum fjárlaganefnd. Það mætti líka hugsa sér menningarsjóð — sem hefði faglegar undirnefndir og skýrar úthlutunarreglur. Hlutverk þingsins í þessu gæti þá verið að ákveða áherslur sjóðsins á hverjum tíma — til dæmis að sérstök áhersla ætti að vera á barnamenningu árið 2012 og sérstök áhersla á tengsl manns og náttúru árið 2013. Varlega á að mínu mati að fara í að styrkja ný verkefni — frekar að styrkja stofnanir sem þegar eru til staðar til nýrra verkefna.“

Það er áríðandi, virðulegi forseti, að allir sem höndla með opinbert fé geri það af kostgæfni. Það reynir á okkur sem höfum fjárveitingavaldið að við beitum því af kostgæfni.

Í gær rifjaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson upp að þegar hann hóf þingmennsku fyrir löngu síðan hafi í herbergi því sem hér í húsinu er kallað stigaherbergi eða herbergið undir stiganum verið rekkar með víxileyðublöðum því að borgarar hafi á þeim tíma þurft að leita til þingmanna til að fá fyrirgreiðslu í bönkum. Þessir tímar eru sem betur fer liðnir, vorum við öll hér í þessum sal sammála um.

Virðulegi forseti. Ég vona að við sem settumst á þing í fyrsta skipti eftir síðustu kosningar getum síðar minnst þess að við afgreiðslu fyrstu tveggja fjárlagafrumvarpanna sem við vorum við hafi þingmenn úthlutað styrkjum til ýmissa verkefna hist og her, svo ég leyfi mér að sletta, en að þeir tímar hafi sem betur fer breyst.

Virðulegi forseti. Ég veit að ég hætti mér út á mikið sprengjusvæði ef ég tala um ágreining á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það er á hinn bóginn nauðsynlegt að tala um þennan ágreining því að annars verður hann aldrei leystur. Mér finnst eins og að við þingmenn höfuðborgarinnar séum oft sökuð um eða sögð ekki hafa neinn skilning á þörfum landsbyggðarinnar, að við viljum sjálf hafa allt innan seilingar en höfum ekki skilning á að svo hátti einnig til um aðra landsmenn. Auðvitað vitum við ekki hvað er að búa í stórhríð einhvers staðar langt úti í sveit þar sem eini ljósastaurinn á margra ferkílómetra svæði er á hlaðinu. Og í raun vitum við ekki heldur hvað er að búa á Akureyri eða Ísafirði. En maður þarf ekki að hafa gert það til að vita að það er dýrt — og kannski dýrara en við höfum efni á — að hafa einn sýslumann í Bolungarvík og annan á Ísafirði svo eitthvert dæmi sé tekið.

Í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir um daginn kom fram að 9,7% af nýframkvæmdum í samgöngumálum á árinu 2009 og það sem af er árinu 2010 fara til höfuðborgarsvæðisins. Til samanburðar nefndi hún að næstum 70% landsmanna búa á þessu svæði. Þessi sami hv. þingmaður komst svo að orði þegar rætt var um styrki til ferðaþjónustu fyrr í vikunni að hennar kjördæmi, þ.e. Suðvesturkjördæmið, liði fyrir nálægðina við höfuðborgina.

Virðulegi forseti. Mér finnst það lýsa alvarlegri gagnrýni á skiptingu fjármuna að hægt sé að segja að kjördæmi líði fyrir nálægð við höfuðborgina og ég velti fyrir mér hvað það segi um hlut höfuðborgarinnar sjálfrar. Það er bráðnauðsynlegt að við skiljum það öll að við búum saman í þessu landi, við erum fá og landið er stórt. Það breytir því ekki að við verðum að líta á landið allt sem eitt svæði. Hagsmunir okkar höfuðborgarbúa og landsbyggðar fara saman. Við það eiga ákvarðanir okkar að miðast. Nú drögum við úr útgjöldum svo við getum borgað vexti af lánum vegna óráðsíu og hrakfara undanfarinna ára. Það er leiðin út úr leiðindunum.